„Einstök tilfinning að standa á hæsta tindi Íslands“

Berglind á Hvannadalshnjúk.
Berglind á Hvannadalshnjúk.

Berg­lind Hreiðars­dótt­ir, mat­ar- og æv­in­týra­blogg­ari á Gotte­rí og ger­sem­ar, náði að toppa Hvannadalshnjúk á dögunum. Þetta var önnur tilraun hennar til þess en í fyrra þurfti hún að snúa við vegna veðurs:

„Hvannadalshnúkur í gulri viðvörun! „Þetta verður eitthvað, eruð þið ekki örugglega með Little Hotties í lúffurnar stelpur?“ Svona voru samræður okkar vinkvennanna daginn fyrir göngu og bæði kvíði og spenna bærðist um í okkur. Hótelherbergin voru full af búnaði sem við vorum að sortera og yfirfara og sannarlega gott að vera vel búin fyrir svona langan dag sem gæti tekið á sig ýmsar veðurmyndir. Við náðum að sofa í rúmar fjórar klukkustundir áður en hópurinn hittist við Sandfell kl: 05:00 um morguninn,“ segir Berglind. 

„Veðrið spilar stórt hlutverk þegar ganga skal á Hnúkinn og að þessu sinni var göngunni flýtt um einn dag til að fá betra skyggni. Það var hins vegar gul veðurviðvörun og mikið rok og frost í kortunum svo við bjuggum okkur sannarlega undir það versta.

Verðrið var gott.
Verðrið var gott.

Við fórum með Fjallhalla Adventurers og það var Einar hjá Öræfaferðum sem var aðalleiðsögumaður í þessari ferð ásamt honum Ólafi. Við vorum þrettán manns sem hófum leika en aðeins hluti af okkur náði toppnum þar sem upp komu veikindi og mikil þreyta hjá hluta af hópnum og önnur línan varð að snúa við.

Einar hefur farið 319 sinnum upp á Hvannadalshnúk svo reynslumeiri leiðsögumann hugsa ég að sé erfitt að finna. Hann var algjörlega sannspár um veðrið, vissi að við yrðum í skjóli framan af og síðan myndi hann byrja að kólna og blása en útsýnið var undursamlegt, ekki ský á himni langleiðina. Síðan var spáin sem betur fer ekki alveg eins köld og hvöss eins og við áttum von á sem var auðvitað æðislegt.

Við vorum nokkuð fljót upp að línusteini en hann er í um 1000 metra hæð svo þá veit maður að hækkunin er hálfnuð og framundan er „slow and steady“ ganga upp að öskjubrún í línu, alveg fram yfir svokallaða „dauðabrekku“. Þessi brekka hefur þetta nafn því hún virkar endalaus. Þú sérð bara brekku og labbar og labbar og brekkan virðist engan endi ætla að taka.

Gangan var löng.
Gangan var löng.

Þegar komið er að öskjubrún tekur síðan við nokkuð sléttur kafli en hann er samt lúmskur og oft erfiður yfirferðar. Djúpur snjór og gott að búa til fótspor og ganga beint í þau í línunni. Þér finnst þú kominn svo nálægt á þessum stað en ferðin yfir öskjuna tekur alveg um klukkustund hvora leið og síðan þarf að klífa hnúkinn sjálfan í lokin.

Áður en við héldum af stað yfir öskjuna þurfti önnur línan að snúa niður sökum veikinda hjá tveimur aðilum, það var virkilega sorglegt að horfa á eftir þeim en um leið hárrétt ákvörðun hjá leiðsögumönnum okkar því það má enga áhættu taka í þessum aðstæðum. Einar fór því niður með þeirri línu og Ólafur kom okkur hinum örugglega á toppinn!

Af stað.
Af stað.

Hnúkurinn lítur sakleysislega út en er síðan ansi brattur og mikilvægt að vera á jöklabroddum og með ísexi því þarna vill maður ekki renna af stað. Ferðin upp Hnúkinn sjálfan tekur á bilinu 45 mínútur til klukkustund og hækkunin er um 250 metrar á þessum kafla sem er að sjálfsögðu krefjandi eftir margra klukkustunda göngu upp í móti.

Berglind með Ester og Guðrúnu vinkonu sinni á toppnum.
Berglind með Ester og Guðrúnu vinkonu sinni á toppnum.

Það þarf síðan að fara varlega á niðurleiðinni og við vorum dágóða stund að koma okkur niður af Hnúknum sjálfum til þess að geta tekið af okkur broddana og pakkað öxinni. Á þessum tímapunkti var færið að spillast og við sáum lítið sem ekkert á leið okkar yfir öskjuna tilbaka og hluta af „dauðabrekkunni“. Síðan líklega í um 1500 metra hæð gengum við niður úr skýjunum og við tók bjart og fallegt veður að nýju.

Berglind reyndi að hoppa með þungan bakpoka eftir tíu klukkustunda …
Berglind reyndi að hoppa með þungan bakpoka eftir tíu klukkustunda göngu.

Það var mikil lukka að hafa náð að toppa í góðu skyggni og einstök tilfinning að standa á hæsta tindi Íslands! Það mátti því ekki miklu muna að við hefðum algjörlega misst útsýnið af toppnum en almáttugur hvað það var dásamlegt að ná því!

Það er gott að treysta góðum leiðsögumanni.
Það er gott að treysta góðum leiðsögumanni.

Færið var almennt fínt, snjórinn ekki of blautur og ekki of harður svo niðurleiðin gekk mjög vel. Erfiðasti parturinn fannst mér þegar við vorum komin úr snjónum yfir á mölina/grjótið því þarna eru fæturnir orðnir þreyttir og auðvelt að renna á bossann. Því er mikilvægt að halda athygli alla leið niður á bílastæði og passa sig í hverju skrefi!

Veðrið skánaði á niðurleiðinni og gott veður og fallegt útsýni …
Veðrið skánaði á niðurleiðinni og gott veður og fallegt útsýni tók við.

Mikið sem ég er þakklát því að geta brölt á blessuð fjöllin. Það eru forréttindi að halda heilsu og fá að eldast og mikið vona ég að ég eigi enn inni ýmislegt skemmtilegt brölt og vitleysu á fjöllum.“

Á niðurleið.
Á niðurleið.
mbl.is