Úthrópuð fyrir höfrungasundið í Dúbaí

Rooney-fjölskyldan í Dúbaí.
Rooney-fjölskyldan í Dúbaí. Skjáskot/Instagram

Knattspyrnumaðurinn Wayne Rooney og eiginkona hans, Coleen Rooney, hafa hlotið mikla gagnrýni síðustu daga fyrir að deila myndum á Instagram af fjölskyldunni synda með höfrungum. 

Rooney-fjölskyldan hefur dvalið í Dúbaí upp á síðkastið og deilt myndum úr lúxusfríinu. Til að mynda dvaldi fjölskyldan á glæsihóteli þar sem nóttin er sögð hafa kostað 7000 pund, en það jafngildir um einni milljón íslenskum krónum.

Dýraverndunarsinnar brjálaðir

Hópur dýraverndunarsinna hefur látið í sér heyra á Instagram-reikningum hjónanna eftir að myndum af höfrungasundinu var deilt. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.

„Þessi spendýr eru geymd í pínulitlum steinsteyptum búrum sem eru svona 200 þúsund sinnum minni en því svæði sem þau tilheyra,“ skrifaði einn aðdáandi við myndafærsluna. „Af hverju finnst fólki í lagi að sitja fyrir á myndum með ófrjálsum dýrum? Hvernig getur það þótt vera í lagi á þessum tímum? Fræðið ykkur um þennan hrottalega iðnað. Það er ekki í lagi að þetta sé afþreyingarefni,“ sagði reiður dýraverndunarsinni fjölskyldunni til syndanna.

„Vinsamlegast hættið að synda með ófrjálsum höfrungum. Það er fáfræði,“ benti annar á en fjöldinn allur af athugasemdum í þessum dúr hafa verið látin flakka við myndafærsluna. Athugasemdunum hafa hjónin ekki sýnt nein viðbrögð enn sem komið er.

Rooney-hjónin eiga saman fjögur börn; Kai, tólf ára, Klay, níu ára, Kit, sex ára og Cass, fjögurra ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert