Hvernig væri að hjóla um Austurland?

Hjólað í Hallormstaðaskógi
Hjólað í Hallormstaðaskógi Ljósmynd/LocalIcelander

Hjólasportið hefur notið vaxandi vinsælda á síðustu árum og hér á Austurlandi eru frábærar leiðir, sem hjólandi fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Það er ekki síst fyrir tilstilli áhugasamra einstaklinga að búnar hafa verið til þó nokkrar sérstakar hjólaleiðir og eru uppi hugmyndir um enn frekari þróun hjólaleiða í landshlutanum.

Borgarfjörður eystri og Víknaslóðir

Víknaslóðir hafa lengi verið þekktar sem afbragðsgöngusvæði en þar er líka hægt að hjóla. Tilvalið er að hjóla vegina á milli skálanna í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði og upplifa eyðivíkur og einstaka náttúru á hjóli. Einnig hafa Árni Magnús Magnússon og Lindsey Lee, eigendur Fjarðarhjóla, verið að byggja upp sérstaka hjólaleið á Borgarfirði eystra.

Hallormstaðaskógur er þakinn fallegum gróðri
Hallormstaðaskógur er þakinn fallegum gróðri Ljósmynd/LocalIcelander

Hallormsstaðaskógur

Hallormsstaðaskógur er þekkt náttúruparadís og sérlega vænn gisti- og áfangastaður fyrir fjölskyldur á ferð. Þar eru frábærar gönguleiðir við allra hæfi en líka spennandi hjólaleiðir sem hafa verið í þróun undanfarin ár. Þar má annars vegar nefna Hallorm, þægilega leið sem hentar allri fjölskyldunni og eða þeim sem leggja áherslu á að njóta umhverfisins. Hin leiðin er tæknilegri og tekur aðeins meira á. Hún hefst við Hallormsstaðaskóla og er hjólað þaðan í Bjargselsbotna. Við mælum eindregið með því að gefa sér smá tíma við vatnið sem er mjög fallegur áningarstaður. Lengd leiðarinnar er um það bil 5 km og er heildarhækkun um 300 metrar.

Fljótsdalur

Í Fljótsdal er ný og krefjandi hjólaleið um Ranaskóg. Nánari upplýsingar má finna hér og hjá HEL fjallahjólaleiðum í Fljótsdal.

Brimnes við Seyðisfjörð
Brimnes við Seyðisfjörð Ljósmynd/JessicaAuer

Seyðisfjörður

Á Seyðisfirði eru skemmtilegar hjólaleiðir. Helst er að nefna veginn að útsýnispallinum á Bjólfi. Best er að leggja á bílastæði þar sem gönguleiðin hefst rétt fyrir neðan skíðasvæðið Stafdal. Þaðan er hjólað eftir slóða upp í um það bil 600 m hæð, eftir malarslóða sem hentar jafnt fjalla- og malarhjólum. Frá útsýnispallinum er stórfenglegt útsýni yfir fjörðinn. Hægt er að hjóla svo til alla leiðina upp, þar sem vegurinn er frekar aflíðandi. Þarf ekki að nefna að leiðin er mjög skemmtileg. Önnur skemmtileg leið liggur út í Brimnes, sem er norðan megin fjarðar. Ef þú hefur nægan tíma mælum við með því að hjóla alla leið úr bænum, ca 17 km en ef það hentar ekki er hægt að leggja við Vestdalseyri eða Selstaði og hjóla þaðan. Við Selstaði tekur við gamall slóði sem liggur í Brimnes og er sambland af möl, grasbölum og vegslóða. Þriðja og síðasta leiðin sem við viljum nefna í Seyðisfirði liggur frá bænum og að Skálanesbjargi. Leiðin liggur um malarveg alla leið og hentar malarhjólunum einstaklega vel, þó eru tveir stuttir „single track“ kaflar sem þarf að hjóla til að komast að göngubrúm. Í Skálanesbjargi er fjölskrúðugt fuglalíf og ef þú ert heppin/-n gætir þú hitt lunda.

Fáskrúðsfjörður í Fjarðarbyggð er gleður augað hjá hjólreiðarfólki
Fáskrúðsfjörður í Fjarðarbyggð er gleður augað hjá hjólreiðarfólki Ljósmynd/JessicaAuer

Fáskrúðsfjörður

Í Fáskrúðsfirði er falleg og skemmtileg leið með miklu útsýni út fjörðinn. Leiðin liggur yfir Staðarskarð í Fáskrúðsfirði. Hægt er að hjóla út að Höfðahúsum (norðan megin í firðinum) og upp fjallið rétt fyrir utan bæinn Höfðahús. Þar ferðu upp og yfir fjallið og kemur niður í Kolmúla í Reyðarfirði. Þaðan er hægt að hjóla eftir veginum til Reyðarfjarðar eða hjólað aftur til Fáskrúðsfjarðar með því að hjóla í gegnum skriðurnar, þaðan sem njóta má stórbrotins útsýnis yfir hafið, Andey, Seley og Skrúð.

Skrúður rís bratt úr hafi austan Fáskrúðsfjarðar, sem hét fyrrum Skrúðsfjörður. Tvær grasi vaxnar eyjar, Andey og Æðarsker, eru nokkru innar og Seley með fimm hólmum er undan Reyðarfirði.

Vattarnes

Falleg leið frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar um Vattarnes. Leiðin er um það bil 60 km löng og er á bundnu slitlagi fyrir utan stuttan malarkafla. Leiðin hentar vel til að njóta útsýnis og er ekki krefjandi þar sem hún er öll á láglendi.

Einnig mætti nefna leiðina í Vöðlavík, Viðfjörð og Karlsskála en þá er jeppaslóðum fylgt alla leið og fyrir hjólafólk sem hefur gaman af að hjóla upp í móti, mælum við með leiðinni til Mjóafjarðar.

Hjólreiðaleið í Skálanesi
Hjólreiðaleið í Skálanesi Ljósmynd/Ingvi Örn

Tour de Ormurinn

Götuhjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn er haldin árlega í ágúst. Hjólað er í kringum Lagarfljót og eru tvær leiðir í boði – 68 km og 103 km. Keppt er í einstaklings- og liðakeppni, unglinga- og fullorðinsflokki. Fólk sem hefur gaman af keppnum ætti ekki að láta þetta framhjá sér fara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert