„Það besta sem ég veit er að háþrýstiþvo planið“

Sirrý Svöludóttir.
Sirrý Svöludóttir.

Konurnar frá Suðurnesjunum kalla ekki allt ömmu sína ef marka má Sirrý Svöludóttur, framkvæmdastjóra Venju. Sundlaugin í Reykjanesbæ er í sérstöku uppáhaldi hjá henni. 

Sirrý, framkvæmdastjóri Venju, er fædd og uppalin í Keflavík. Hún flutti þaðan til Reykjavíkur þegar hún var á sínum tíma markaðsstjóri Yggdrasils, þar sem hún byggði meðal annars upp vörumerkið NOW foods.

Hún segir sundlaugina í Reykjanesbæ eina þá allra bestu og þó víða væri leitað og að allir ættu að fara þangað með fjölskylduna.

Sirrý kann vel við sig í vinnunni og er alltaf nóg að gera hjá henni á því sviði.

„Núna er ég fyrst og fremst að einbeita mér að nýja fyrirtækinu mínu, Venju, sem við Rakel Guðmundsdóttir stofnuðum og hleyptum af stokkunum í mars. Venja er fyrsta bætiefnalínan sem er þróuð frá grunni með þarfir íslenskra kvenna á mismunandi lífsskeiðum í huga. Meðal annars á barneignaraldri, á meðgöngu, í brjóstagjöf og á breytingaskeiði. Við höfum unnið að þróun Venju í dágóðan tíma og viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Sirrý, sem er umhugað um heilsu sína og annarra.

Gott leynitrix fyrir sunnan

Hvaða staði mælir þú með að allir heimsæki á Suðurnesjunum?

„Ég mæli með því að fara út að borða á Take off Bistro veitingastaðnum á Konvin hóteli uppi á Ásbrú. Þar hittumst við vinkonurnar reglulega og gerum vel við okkur, bæði í mat og drykk.

Best geymda leyndarmálið fyrir þá, sem ætla að ferðast út fyrir landsteinana, er að gista á Konvin hótelinu fyrir flug og geyma bílinn sinn þar án endurgjalds. Þar fær maður skutl upp á flugstöð og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af bílnum á meðan,“ segir Sirrý.

Hún mælir einnig með gönguferð meðfram strandlengjunni í Keflavík.

„Þar er hægt er að ganga bæinn endilangan í blíðviðri á sumarkvöldi. Það er dásamlegt. Svo er auðvitað sígilt að taka rúntinn með ís í hönd, sama hvernig viðrar. Að setja gott rapp á fóninn og njóta augnabliksins á nýbónuðum bíl með góðum vinum,“ segir hún.

Sirrý hugsar vel um heilsuna.

„Þótt það sé alltaf gott að vera í bíl, þá reyni ég hvað ég get að ná mínum 10 þúsund skrefum á dag. Bæði þegar ég er í vinnunni, um helgar og í fríum.

Það næst of sjaldan en ég reyni að halda mig við efnið með smá peppi frá snjallúrinu mínu. Svo huga ég að nægum svefni og streitustjórnun.“

Kann að meta konur sem ryðja brautina

Þegar kemur að tísku er Sirrý, líkt og fleiri Suðurnesjakonur, með mjög góðan smekk.

„Ég kann að meta konur sem rutt hafa brautina. Til dæmis Högnu Sigurðardóttur, Florence Knoll og Charlotte Perriand. Svo verð ég að nefna hana Öggu Jónsdóttur, sem hannaði vörumerkið okkar og umbúðirnar. Hún náði, á sinn einstaka hátt, að kalla fram kvenorkuna, dirfsku og hugrekki í hönnun vörumerkisins okkar og umbúðunum.“

Þó sumardressið hennar sé ekki kannski nýjasta tíska, þá er það ekki af verri endanum.

„Það er svona galli sem er mjög moldugur og skítugur eftir garðvinnu og háþrýstiþvott. Það besta sem ég veit er að háþrýstiþvo planið hjá mér með góða tónlist í eyrunum og fá smá tíma til að einbeita mér að því,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert