„Skálaverðirnir í Húsadal mest töff fólk sem ég hafði hitt“

Kolbrún Vaka Helgadóttir bjó á Hvolsvelli þegar hún var lítil.
Kolbrún Vaka Helgadóttir bjó á Hvolsvelli þegar hún var lítil.

Kolbrún Vaka Helgadóttir, kynningarfulltrúi RÚV, á marga uppáhaldsstaði á Suðurlandi. Hún bjó á Hvolsvelli og man sérstaklega eftir því hvað skálaverðirnir í Þórsmörk voru alltaf smart.

„Mér finnst Þórsmörk einn magnaðasti staður á landinu. Þar er stórfengleg náttúra og brasið við að komast þangað er alltaf svolítið sjarmerandi. Systir mín gifti sig í Þórsmörk, sem gerir staðinn ennþá fallegri í mínum augum. Að ganga upp á Valahnúk og njóta útsýnisins þaðan er stórkostleg upplifun. Þegar ég var yngri fór ég oft í Þórsmörk. Ég man að mér fundust skálaverðirnir í Húsadal mest töff fólk sem ég hafði hitt,“ segir Kolbrún sem fór einnig margoft á skíði á Tindafjöll með fjölskyldunni þegar hún var yngri.

„Það var æðislegt að skíða svona fjarri öllu og öllum og ekki var útsýnið amalegt yfir Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul, Þórsmörk, Markarfljótsgljúfur og Fjallabak.“

Landmannalaugar eru í uppáhaldi.
Landmannalaugar eru í uppáhaldi.
Valahnúkur í Þórsmörk.
Valahnúkur í Þórsmörk.

Báðir foreldrar Kolbrúnar ólust upp undir Eyjafjöllum.

„Ég elska að heyra sögur frá foreldrum mínum um það hvernig var að alast upp þarna. Heyra af fossum sem erfitt er að komast að og fáir hafa séð. Að ganga inn í gilin. Það er eins og að vera í öðrum heimi að vera þarna, enda einhver ævintýrablær yfir öllu.

Mér fannst einnig æðislegt í æsku að fara í sund í „nýju“ Seljavallalauginni, sem er svo sjarmerandi sveitalaug. Ég man að heiti potturinn var gerður úr stuðlabergi. Því miður er nýja Seljavallalaugin búin að vera lokuð í mörg ár. Það væri draumur ef hún yrði opnuð aftur einn daginn.

Það er líka magnað að fara í gömlu Seljavallalaugina, þar sem afi minn lærði að synda. Mér finnst hún reyndar hafa misst svolítið sjarmann með árunum og ágangi ferðafólks, þótt náttúrufegurðin allt í kring standi að sjálfsögðu ennþá fyrir sínu.

Svo er alltaf jafn gaman að koma á Hvolsvöll, í gamla heimabæinn, og fà sér ís í Valdísi hjá Valda frænda. Af fleiri uppáhaldsstöðum á Suðurlandi má nefna heitu laugina í Landmannalaugum, sem er drottning náttúrulauga á Íslandi að mínu mati. Náttúrufegurðin er ólýsanleg í Landmannalaugum. Litadýrðin í fjöllunum er alveg ótrúleg. Ég vonast til að komast í Landmannalaugar í sumar. Að hoppa og skoppa á holóttum veginum með tjaldvagninn í eftirdragi. Ég á nefnilega eftir að sýna börnunum og eiginmanni þennan fallega stað.

Ég hef ekki komið að Grænahrygg en langar mikið að koma þangað. Hann er í göngufjarlægð frá Landmannalaugum. Sá staður sem mér þykir samt alltaf vænst um á Suðurlandinu eru Döluskógar en það er leynistaður í eigu fjölskyldunnar, sem verður ekki útlistaður frekar.“

Seljavallalaug er gömul náttúrulaug sem hægt er að heimsækja.
Seljavallalaug er gömul náttúrulaug sem hægt er að heimsækja.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »