Hefur búið erlendis í rúm 65 ár

Hafdís Bennett listakona er einstaklega áhugaverður viðmælandi sem segir fátt …
Hafdís Bennett listakona er einstaklega áhugaverður viðmælandi sem segir fátt jafnast á við íslenska náttúru.

Hafdis Herbertsdóttir Bennett listakona hefur búið erlendis í rúm 65 ár. Hún er þó meiri Íslendingur nú en nokkru sinni fyrr enda segir hún fátt jafnast á við föðurland sitt, Ísland. Hún á stórbrotna og skemmtilega sögu að segja frá úr eigin lífi enda er hún opin og skemmtileg kona. 

„Það er sama hvar maður er i heiminum, ef maður ann Íslandi á annað borð, þá held ég að maður kunni betur að meta þetta yndislega föðurland okkar. Maður saknar þess sífellt meira eftir því sem maður er lengur í burtu. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, eins og stendur skrifað,“ segir Hafdís sem hefur búið í London í 63 ár og tvö ár þar á undan í Kaupmannahöfn. 

Þegar forlögin gripu í taumana

„Það má segja að Icelandair eða Flugfélag Íslands eins og það hét þá, beri ábyrgðina á því að ég ílengdist erlendis en þeir buðu mér að taka að mér bókanirnar í Kaupmannahöfn og Glasgow, nokkuð sem nú er algjörlega gert í gegnum tölvur.

Eftir að ég byrjaði að vinna fyrir þá var ég tveimur árum seinna send til London sem var mjög afdrifaríkt fyrir mig. Ég hafði vonast til að vera send á skrifstofurnar í París eða Hamborg, svo ég yrði fær í þeim tungumálum líka, en svo tóku forlögin í taumana. Ég hitti ungan mann, sem varð svo eiginmaður minn og  þessar áætlanir fóru út um þúfur. Sem sagt, ég settist að í London, átti þar börn og buru, það er tvær dætur og einn son, og á nú sjö barnabörn að auki,“ segir Hafdís sem er fædd í Reykjavík. 

„Foreldrar mínir fluttu aftur á heimaslóðir þegar stríðið stóð sem hæst. Einn frændi okkar hafði farist þegar Goðafoss varð fyrir skotárás rétt fyrir utan höfnina í Reykjavík. Ég held að það hafi ráðið miklu í þeirri ákvörðun. Til að byrja með bjuggum við hjá ömmu minni í Glæsibæ i Sléttuhlíð, Skagafirði, en þrem árum seinni byggði pabbi nýbýlið Þrastalund, rétt hjá þeim bæ, sem fjölskyldan á enn i dag og kemur þar saman á sumrin. Börnin mína koma þá heim, meira að segja fjölskyldan sem býr a Nýja Sjálandi og þá er haldið beint i sveitina!“

Hverjir eru uppáhaldsstaðir þínir á Íslandi?

 „Þeir eru of margir til að telja upp. Mér þykir sem dæmi afar vænt um Siglufjörð. Þar gekk ég í gagnfræðiskóla í þrjú ánægjuleg ár. Ég tel hann með fallegustu bæjum okkar, þó erfitt sé að gera upp á milli. Svo er fjörðurinn minn einstaklega fallegur líka. Bærinn okkar er á Eystri kjálkanum eins og kallaður var, skammt fyrir norðan Hofsós, þar sem eyjarnar okkar raða sér upp. Þórshöfðinn er til vinstri frá bænum okkar séð, hann er fallegur í laginu og er leifar af gömlum gosgíg. Nafnið dregur hann af Höfða-Þórði þeim er nam land um þessar slóðir. Bærinn hans hét Höfði. Síðan kemur kerlingin, hár og mjór stapi, og Drangey, akkúrat fyrir  miðju frá okkur séð og síðan teygir Málmeyjan sig, endilöng! Þvílíkar djásnir - Í einum firði!“

Íslendingar engum öðrum líkir

Hvað einkennir Íslendinga að þínu mati?

„Það sem mér finnst mest einkenna Íslendinga, miðað við margar aðrar þjóðir er fyrst og fremst krafturinn, framtakssemin og jákvæðnin. Á Englandi, ef mann vantar eitthvert verk unnið, eru góðar líkur á að persónan sem er fengin til að vinna verkið, líti á það sem gera þarf, hristi höfuðið og segi: Úff, þetta verður snúið - ég er ekki viss um að það sé þess virði að reyna. Svo er sett upp talsvert hærra verð en samið var um! Íslendingurinn myndi segja: Já þetta þetta gæti verið snúið, en við skulum prófa ... og yfirleitt finnur hann leið til að komast fram úr vandanum, þar sem Bretinn gæfist upp! Það er geysilegur munur á svona hugsunarhætti, hálftómt glas í staðinn fyrir hálffullt!“

Hafdís er einstök listakona og tekur fallegar ljósmyndir af Íslandi þegar hún heimsækir landið. 

„Hvað myndadellunni viðvíkur þá var mér gefin Kodak Brownie myndavél þegar ég var 8 ára gömul, og síðan hefi ég alltaf elskað að taka myndir. Vandinn var í þá daga að það var ekki alltaf auðvelt að fá filmur og þær voru rándýrar í þokkabót. Að minnsta kosti fyrir börn, fyrir utan framköllun og svo kláruðust þær áður en maður vissi af!“

Hún var 16 ára að aldri þegar hún fór í fyrsta sinn í öræfaferð. 

„Þá var ekki eins greiðfært að komast inn á hálendið og nú er. Sem dæmi ef farið var inn i Landmannalaugar, sem nú er greiðfært jafnvel venjulegum bílum ef varlega er ekið, en þá þurfti að klöngrast síðasta spottann með viðlegu útbúnaðinn á bakinu, í mjög brattri brekku sem varð svo hál eftir rigningar að maður átti á hættu að hrasa og renna niður brekkuna og enda upp i Námukvísl, til að komast í áningarstaðinn.“

Kom að stórfyrirtækinu L.K. Bennett 

Hafdís hefur alltaf verið haldin mikilli sköpunargleði en að gerast listamaður hvarflaði ekki að henni sem unglingi. 

„Aftur á móti gerði ég mikið af saumaskap og prjónaði ógrynni af lopapeysum, sem ég seldi í það sem kallast lundabúðir nú til dags. Auk þess sem ég saumaði öll mín föt og barnanna minna líka.

Það var svo ekki fyrr en árið 1974 að ég innritaði mig i listaskóla á kvöldin til að læra teikningu.

Kennarinn minn gerði þá athugasemd að verk mín væru mjög þrívíddar kennd, hvort ég hefði nokkru sinni prófað að höggva i tré eða stein sem mér hafði ekki dottið í hug. Nema að mér þótti afar gaman að tálga spýtur sem krakki og elskaði trélyktina líka. Þessi kennari kenndi skúlptúr annað kvöld í þessum sama skóla, svo ég færði mig yfir og fann mig algjörlega i því listformi, þótt ég héldi áfram að mála líka.“

Hafdís vann alltaf í fjölskyldufyrirtækinu sem var leðurvöruverslanir ásamt því að sinna fjölskyldunni og þremur börnum. 

„Það var heilmikil vinna og tímafrekt að koma börnum í ballett tíma, skáta og fleira sem flestar mæður þekkja af eigin reynslu. Svo bættist við þung umferð í stórborginni sem var rosalegur tímaþjófur.

Árið 1990 fór eldri dóttir mín af stað með tískufyrirtæki og ég fór að vinna með henni. Þetta fyrirtæki, L.K. Bennett blómstraði svo og varð mjög vel þekkt, með útibú víða um Evrópu og Í Hong Kong. Það ennþá til, þó hún hafi selt það fyrir löngu síðan,“ segir Hafdís og útskýrir að listavinna hennar sjálfrar hafi alltaf verið áhugamál hennar. 

„Var kokkakerling í fjallaferðum Guðmundar Jónassonar“

Hafíds er með sýningu á verkum sínum í Jónshúsi.

„Ég þekkti aðeins til hússins af afspurn þegar ég sendi inn umsókn um sýningarpláss fyrir löngu síðan. 

Það kom mér svo eiginlega á óvart þegar ég fékk boðið um að sýna myndirnar mínar þar í sex vikur frá miðjum maí til júní loka. Ég var stödd a Nýja Sjálandi, þar sem ég hafði lokast inni i nærri tvö og hálft ár vegna kórónuveirunnar, en var á leið til baka til Englands. Svo ég sló til og setti upp sýninguna, sem ég er mjög ánægð með. Myndirnar pössuðu svo vel inn i sýningarsalinn þar.

Hafdís hefur verið að sýna verk sín í Jónshúsi.
Hafdís hefur verið að sýna verk sín í Jónshúsi.

Myndirnar eru óvenjulegar að því leiti að þær eru allar nærmyndir af því sem einkennir íslenskt landslag, mosi, eldrauð háhitasvæði, stuðlaberg og aðrar hraunmyndanir, já og jafnvel bara grjót! Þær eru prentaðar á striga, sem gefur þeim aukna dýpt. Margir halda að þetta séu olíumálverk.

Eins og fyrr segir hafa öræfi Íslands alltaf heillað mig mest. Það er ólýsanleg upplifun að mér finnst að stíga spor þar sem enginn hefir gengið áður. Þarna ríkir unaðslegur friður og ró og stórbrotið landslagið er slíkt, að enginn getur verið ósnortinn af því að ferðast um þennan hluta af landinu okkar, sem til skamms tíma var lítt þekkt af meirihluta landsmanna. Í átján ár vann ég sem kokkakerling í fjallaferðum Guðmundar Jónassonar, aðeins eina ferð á sumri þó, því sumarfríið mitt leyfði ekki meira. Þetta voru dásamlegar  ferðir, fegurðin og miðnætursólin - maður gleymir þessu ekki.

Eftir að ég hætti í þessum ferðum, tókst mér að komast áfram í hálendisferðir með frændfólki mínu, það eru tveir jarðfræðingar í þeim hópi, svo maður fær útskýringar á því sem fyrir augu ber. Margar af myndunum í Jónshúsi eru teknar í þessum ferðum,“ segir Hafdís. 

mbl.is