Sjóböð Skúla ódýrari en Sky Lagoon og Bláa lónið

Það er ódýrara að fara í Sjóböðin í Hvammsvík en …
Það er ódýrara að fara í Sjóböðin í Hvammsvík en í Sky Lagoon eða Bláa lónið. Samsett mynd

Um helgina opnuðu Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði. Fyrir einn fullorðan kostar aðgöngumiði 6.900 krónur sem er 1.090 krónum ódýrar en ódýrasti aðgöngumiðinn í Sky Lagoon sem kostar í sumar 7.990 krónur. Þægindin eru þó talsvert meiri í Sky Lagoon en í Hvammsvík eru baðgestir nær náttúrunni og geta skellt sér í sjóinn ef þeir kjósa svo.

Ferðavefurinn gerði samanburð á öllum helstu baðlaugum landsins í lok maí á þessu ári. Þá kostaði einn aðgöngumiði í Sky Lagoon aðeins 6.990 krónur en verðið er hærra yfir hásumarið. Í Sky Lagoon er svo hægt að kaupa dýrari aðgöngumiða sem veitir aðgang að sjö skrefa ritúal meðferð. Ekkert slíkt er í boði í Hvammsvík, þó það sé hægt að fara í sjóinn, fá leiðsögn um svæðið og læra grunnatriðin í WimHof öndun gestum að kostnaðarlausu. 

Sky Lagoon og Sjóböðin í Hvammsvík eiga það sameiginlegt að 12 ára aldurstakmark er í böðin og þurfa ungmenni á aldrinum 12 til 18 ára að vera í fylgd með fullorðnum. 

Bláa lónið dýrast

Af öllum þeim baðlónum og laugum sem Ísland státar af er Bláa lónið dýrast. Kostar ódýrasti aðgöngumiðinn 11.900 til 12.900 í sumar, en verðið fer eftir hvaða tíma dags er bókað. Þá er einnig hægt að velja dýrari miða og með honum fylgja fleiri fríðindi eins og baðsloppur og glas af freyðivíni.

Dýrari en Sjóböðin á Húsavík

Sjóböðin á Húsavík, þar sem gestir geta líka svamlað um í sjó, eru ódýrari en Sjóböðin í Hvammsvík. Í sumar kostar einn aðgöngumiði 5.500 krónur. Þar er ekkert aldurstakmark, frítt er fyrir börn undir sex ára aldri og fyrir 6 til 16 ára börn kostar miðinn 2.500 krónur. 

Ekki eru í boði dýrari aðgöngumiðar að Sjóböðunum á Húsavík og því einna helst hægt að bera þjónustustig þessara tveggja Sjóbaða saman.

Leiðrétting: Upphaflega stóð að ódýrasti miðinn í Sky Lagoon kosti í sumar 8.990 krónur. Rétt er að ódýrasti miðinn kostar 7.990 yfir sumartímann. Miðar á því verði eru þó aðeins í boði á ákveðnum tíma dags, til dæmis fyrir klukkan 11 á morgnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert