Skáluðu fyrir lífinu með systkinaferð til Feneyja

Systkinin á San Marco torginu.
Systkinin á San Marco torginu. Ljósmynd/MMJ

Íslendingar hafa verið óvenjulánsamir upp á síðkastið enda sjaldan verið eins mikið framboð af beinu flugi til Ítalíu. Blaðamaður ferðavefs mbl.is notaði tækifærið og stökk til Feneyja á haustmánuðum með eldri bróður sínum, Helga Ellerti Jóhannssyni. Það þurfti ekki mikið til þess að sannfærast um ágæti þeirrar hugmyndar enda er veðrið á Ítalíu alltaf betra en á Íslandi. Við skildum því eiginmenn okkar eftir og héldum á vit feneyskra ævintýra.

Hvernig var flogið þangað?

Þar sem flogið er einu sinni í viku með Wizz, og þetta átti bara að vera helgarferð, þá flaug ég út með British Airways á föstudegi en heim með Wizz á þriðjudegi. Það var mjög þægilegt. Bæði vegna þess að British Airways flýgur frá Íslandi á sómasamlegum tíma eða um hálf ellefu að morgni og svo var hægt að fljúga áfram með þeim til Feneyja. Það var millilent á Heathrow-flugvelli, sama „terminal“ og maður þurfti ekkert að fara út og tékka sig aftur inn. Þar hitti ég bróður minn og hann bauð mér á betri stofu British Airways. Þar byrjaði veislan! 

Á Heathrow flugvelli að skála fyrir lífinu.
Á Heathrow flugvelli að skála fyrir lífinu. Ljósmynd/MMJ

Af hverju helgarferð með bróður sínum?

Það eru ekki allir sem geta hugsað sér ferðalag með systkinum sínum en ég er bara svo einstaklega heppin með bróður og hann reyndist hinn besti ferðafélagi.

Það er margt sem skilur okkur systkinin að, bæði hvað varðar tíma og rúm. Hann er tíu árum eldri en ég og býr auk þess í Bretlandi þar sem hann starfar sem svæfinga- og gjörgæslulæknir á St. Marys spítalanum í London. Sjálf er ég kastalabóndi í Vesturbænum, blaðamaður og einlægur áhugamaður um garðyrkju og bresku konungsfjölskylduna.

Það var fyrir ári síðan sem við ákváðum að tímabært væri að fara í systkinaferð til útlanda. Bara við tvö. Helgi var að verða fimmtugur og ég fertug. Þá var Helgi einnig að taka við stöðu sem varaforseti Royal College of AnaesthetistsMikið hafði gengið á í lífinu almennt, Helgi missti sinn einkason árið 2021 og í sumar varð móðir okkar bráðkvödd. Það þótti því enn meira við hæfi að hittast í Feneyjum og skála fyrir lífinu, tímamótunum okkar og minningu þeirra sem hafa kvatt okkur (þess má geta að degi fyrir brottför lést Elísabet II Bretlandsdrottning þannig að einnig var skálað henni til heiðurs). Það var mjög heilandi að eiga svona góðar stundir eftir allt sem hafði gengið á hjá okkur. Skipa um umhverfi og upplifa eitthvað alveg nýtt. 

Við nýttum dagana með að rölta um og njóta lífsins.
Við nýttum dagana með að rölta um og njóta lífsins. Ljósmynd/MMJ

Dásemd að losna við bílana

Feneyjar er frábær staður til þess að njóta menningar og lista. Þar eru engir bílar og allt er í göngufæri. Þetta bílaleysi verður til þess að maður auðvitað gengur meira en hávaðinn er einnig miklu minni. Það er allt annar taktur á deginum hjá manni. Maður röltir um þröngar götur, stoppar á kaffihúsum og litlum ítölskum veitingastöðum, skoðar kirkjur sem verða á vegi manns og rambar inn á listasýningar. Manni leiðist aldrei og það er ekki þessi þörf að þjóta. Við vorum aðeins í örfáa daga en á þeim tíma var hægt að gera ýmislegt en líka slaka á og njóta.

Það er best að gefa sér góðan tíma til þess …
Það er best að gefa sér góðan tíma til þess að rölta um litlu göturnar í veðurblíðunni. Sleppa öllu búðarrápi. Ljósmynd/MMJ

Það sem við gerðum:

Feneyski tvíæringurinn

Eftir morgunverð á hótelinu gengum við af stað í átt að Arsenale og Giardini þar sem Feneyjatvíæringurinn er haldinn. Þar sáum við íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum en Sigurður Guðjónsson sýnir þar fyrir hönd Íslands. Það er alltaf gaman að sjá framlag Íslands og ekki laust við það að hjarta Íslendingsins slái örlítið hraðar af bæði stolti og spennu. Tvíæringurinn er ein besta listahátíð í heimi þar sem fjölmargar þjóðir koma saman og sýna það sem í þeim býr. Fjölbreytnin er stórkostleg og allir ættu að upplifa tvíæringinn einhvern tímann á lífsleiðinni. 

Íslenski skálinn á Feneyjartvíæringnum var flottur. Þá var ítalski skálinn …
Íslenski skálinn á Feneyjartvíæringnum var flottur. Þá var ítalski skálinn líka frábær. Tvíæringnum lýkur 27. nóvember. Ljósmynd/MMJ

Bellini á Harry's Bar

Eitt sem allir mæla með þegar farið er til Feneyja er að koma við á Harry's Bar og fá sér eitt bellini-glas. Það er sígildur feneyskur kokteill og Harry's Bar er þekktur fyrir að hafa fengið til sín sögufræga gesti á borð við Ernest Hemingway, Alfred Hitchcock, Orson Welles, Peggy Guggenheim og fleiri.

Bellini á Harry´s Bar er eitthvað sem maður þarf að …
Bellini á Harry´s Bar er eitthvað sem maður þarf að haka við á "To do" listanum. Ljósmynd/MMJ

Feneyska óperuhúsið

Það var frábært að geta upplifað ítalska óperu á jafn fallegum og sögufrægum stað og Feneyjum. En þarna sáum við Madame Butterfly eftir Puccini sem er að mati undirritaðrar ein fallegasta ópera sem ort hefur verið. Óperuhúsið er glæsilegt og gulli skreytt sem magnaði enn frekar upplifunina. Eftir óperuna snæddum við kvöldverð utandyra. Frábær endir á frábærum degi.

Feneyska óperuhúsið. Þar sáum við Madame Butterfly sem er dásamleg …
Feneyska óperuhúsið. Þar sáum við Madame Butterfly sem er dásamleg ópera. Ljósmynd/MMJ

La Scuola Grande di San Rocco

Saga skóla San Rocco nær aftur til 15. aldar og þar má sjá fjölmörg listaverk eftir meistarann Tintoretto. Þau eru öll stórfengleg á að líta og þarna getur maður ráfað um sali og horft dáleiddur á meistaraverkin.

Það var mikilfenglegt að sjá listaverkin í La Scuola Grande …
Það var mikilfenglegt að sjá listaverkin í La Scuola Grande di San Rocco. Ljósmynd/MMJ

Ca Rezzonico

Ca Rezzonico er höll í Dorsoduro-hverfinu og þar má upplifa 18. aldar Feneyjar í allri sinni dýrð. Látleysið er víðsfjarri og íburðurinn mikill. 

Burano-eyja

Í 40 mínútna siglingafjarlægð frá Feneyjum er Burano-eyjan. Hún er þekkt fyrir lítil falleg hús í mörgum skærum litum og vefnaðarvörur. Þangað er gaman að koma ef maður hefur tíma aflögu en samgöngur frá eyjunni eru góðar, þaðan fara bátar á 20 mínútna fresti. Svo er líka hægt að fjárfesta í dagsferð um bæði Murano og Burano-eyjarnar en mér finnst það ekki nauðsynlegt. Það er svo mikilvægt að líka bara slaka á og gefa sér tíma til að rölta um litlu þröngu götur Feneyja. Ekki eyða of miklum tíma í bátum.

Á Burano eyju. Litríku húsin setja mark sitt á umhverfið.
Á Burano eyju. Litríku húsin setja mark sitt á umhverfið. Ljósmynd/MMJ

Hótelið 

Fyrir valinu varð Hotel Casanova. Það er frábærlega staðsett, einni götu frá San Marco-torginu. Í hverfi sem er iðandi af lífi og góðum mat. Það er líka í göngufæri frá óperunni og bátasamgöngum. Hótelið er innréttað í feneyskum anda en baðherbergin nútímaleg, hvít og hrein. Þó að mitt herbergi hafi verið mjög fínt þá var herbergi bróður míns enn betra. Hann var á efstu hæð með eigin þakgarð sem fékk kvöldsól og smá útsýni.

Hótel Casanova var vel staðsett og herbergin innréttuð í feneyskum …
Hótel Casanova var vel staðsett og herbergin innréttuð í feneyskum anda. Ljósmynd/MMJ

Veitingastaðir sem hægt er að mæla með:

  • Ristorante Rosa Rossa - þar er hægt að fá vitello tonnato, einn besta rétt Ítala. Svo var mér gefið limoncello í kveðjuskyni. Því þannig rúlla Ítalirnir.
  • Al Tímon - mjög vinsæll steikarstaður í Dorsoduro-hverfinu. Það er ekki hægt að panta borð þar nema að hringja eða labba framhjá. Þar er hægt að sitja úti við síkið og ef maður er heppinn getur maður náð plássi á gömlum bát þar rétt hjá sem gerir upplifunina aðeins sérstakari.
  • Bistrot Ristorante Casa Cappellari - Afar fínn og nútímalegur veitingastaður með góðu rauðvíni og mat á heimsmælikvarða. Þar fékk ég steik með kirsuberjum sem mér fannst mjög óvænt samsetning en hitti algjörlega í mark.
  • Cucina Da Mario - fjölskyldurekinn staður á fáförnum stað miðsvæðis, þar sem hægt er að sitja úti við síkið. Maturinn þar er líka dásamlegur. Bara það ferskasta sem til er hverju sinni.
Vitello tonnato á veitingastaðnum Rosa Rossa.
Vitello tonnato á veitingastaðnum Rosa Rossa. Ljósmynd/MMJ
Ekta feneyskur matur á fjölskyldurekna staðnum Cucina da Mario.
Ekta feneyskur matur á fjölskyldurekna staðnum Cucina da Mario. Ljósmynd/MMJ
Steikin með kirsuberjum og kirsuberjasósu kom á óvart og reyndist …
Steikin með kirsuberjum og kirsuberjasósu kom á óvart og reyndist frábær. Framsetningin var líka óvenjuleg en skemmtileg! Ljósmynd/MMJ
Túnfisk tartare með avocado á veitingastaðnum Casa Cappellari.
Túnfisk tartare með avocado á veitingastaðnum Casa Cappellari. Ljósmynd/MMJ
Helgi valdi sér nauta carpaccio með truffluolíu og fleira. Það …
Helgi valdi sér nauta carpaccio með truffluolíu og fleira. Það reyndist líka dásamlegt. Ljósmynd/MMJ
Vínin voru alltaf góð.
Vínin voru alltaf góð. Ljósmynd/MMJ
Það eru ekki bara gondólar í Feneyjum.
Það eru ekki bara gondólar í Feneyjum. Ljósmynd/MMJ
mbl.is