Ákvað að tala um sorgina og fara að vinna fljótt aftur

Helgi Jóhannsson læknir.
Helgi Jóhannsson læknir.

Það er ekki að undra að dagblaðið Evening Standard skuli hafa sett Helga Jóhannsson svæfingalækni á lista yfir áhrifamestu einstaklinga Lundúnaborgar fyrir nokkrum árum. Bæði er Helgi einstaklega vel menntaður og góður sérfræðingur sem gengur í öll þau verk sem honum eru falin, svo er hann bara svo fín manneskja. Hann missti einkason sinn í sumar og talar um leiðirnar sem hann hefur farið í að lifa með sorginni. 

Helga gengur vel í lífinu. Þegar maður horfir á hann skín gleði og umhyggja úr andlitinu en svo má sjá reynslu og ákveðna auðmýkt sem verður til með reynslunni. Helgi missti einkason sinn í sumar þegar hann féll fyrir eigin hendi í blóma lífsins.

Helgi hefur verið búsettur í Bretlandi frá árinu 1984 þegar hann flutti þangað með föður sínum og móður.

„Ég varð eftir í Bretlandi en foreldrar mínir voru hér í ein fjögur ár. Ég var þá sextán ára að aldri og orðinn ágætur í skóla hér.“

Íslenskan þín er frábær, þú hefur haldið henni vel við eða hvað?

„Ekki ef þú spyrð systur mína Maríu Margréti, hún er á því að ég tali íslenskuna sem við töluðum árið 1984! Ég kann að meta að þér finnist þetta, þótt þú eigir án efa eftir að heyra mig tala á gamaldags hátt í viðtalinu,“ segir Helgi og skellihlær.

Var ekki erfitt að vera einungis sextán ára svona einn í útlöndum?

„Nei, ég var nokkuð heppinn þar sem ein vinkona mömmu átti tengdamömmu sem vantaði leigjanda. Ég leigði herbergi af henni í tvö ár og kenndi hún mér þýsku og sitthvað fleira.“

Dáir það að vera læknir

Helgi er svæfingalæknir á Imperial College Healthcare NHS Trust, einum stærsta háskólaspítala Lundúnaborgar. Það eru þrír spítalar í allt sem tilheyra honum og hafa verkefnin verið mörg og alls konar á tímum kórónuveirunnar.

„Ég er búinn að vera sérfræðingur á spítalanum frá árinu 2007 eða næstum í fimmtán ár. Ég elska vinnuna mína og segi læknanemunum mínum að svæfingalækningastaðan sé sú besta að hafa þegar maður fer í veislur, því það eru svo margir hér sem vita ekki að við erum læknar vegna enska orðsins „anesthesiologist“, sem gerir það að verkum að fólk talar síður um sjúkdóma við okkur utan vinnunnar en aðra,“ segir hann brosandi og bætir við: „Ég dái að vera læknir. Það eru svo mikil forréttindi að geta litið eftir og verið með sjúklingum, bjargað lífum og gert lífið og stundum dauðann aðeins bærilegri.“

Þótt Helgi sé mikið fyrir vinnuna og mikill vinnuþjarkur kann hann að njóta lífsins utan hennar.

„Ég er giftur manni, Paul Barlow, sem er Breti, alinn upp í austurenda London og talar með þannig hreim í það minnsta þegar hann ræðir við mömmu sína. Ég var áður giftur konu og eignuðumst við son saman sem hefði orðið 24 ára í september hefði hann lifað. Hann svipti sig lífi í júní á þessu ári og var í raun langur aðdragandi að því. Ég get talað um þetta núna, en þetta hefur tekið mikið á mig og hef ég grátið mikið og þurft að tala mig í gegnum þessa erfiðu reynslu.“

Helgi útskýrir að útgöngubannið í tengslum við kórónuveiruna hafi farið illa með andlega heilsu sonar síns.

„Andleg heilsa hans var ekki góð fyrir en ég hef verið voðalega sorgmæddur yfir því að hafa misst einkason minn á þennan hátt.“ Helgi útskýrir að hluti af sorginni hafi verið að segja öllum sem hann þekkir frá þessu.

„Einnig þeim sem ég þekki ekki. Ég hef verið duglegur á samfélagsmiðlum og deildi þessari reynslu minni á Twitter þar sem tvær milljónir hafa séð tístið mitt. Ég fór snemma aftur að vinna og ákvað að segja öllum frá þessu í vinnunni. Ég vildi ekki vera heima og horfa á vegginn og syrgja einn þar. Ég er í vinnunni sem ég elska að vera í og með fólki sem mér þykir vænt um og þykir vænt um mig.“

Þungur sonarmissir 

Helgi upplifði fráfall sonarins sem mikið áfall í fyrstu. „Mér þótti erfiðast að umgangast og tala við annað fólk. Í raun vildi ég ekki tala við neinn, heldur bara gráta einn úti í horni. Ég varð að segja fjölskyldunni minni frá þessu, sem var mjög erfitt, en svo varð þetta auðveldara með hverri persónu sem ég talaði við. Það er ekki langt frá sumri og það kann að hljóma fyrir marga eins og ég sé kominn út úr þessu, sem er satt að einhverju leyti en ekki öllu. Ég er er í eins konar sorgarferli þar sem sumir dagar eru bærilegir, aðrir eru slæmir, og svo á ég góða daga líka.“

Helgi segir marga hissa á því hversu fljótt hann fór til vinnu aftur.

„Ég missti son minn á miðvikudegi og var farinn í vinnuna þriðjudaginn vikuna á eftir. Ég ákvað að þannig vildi ég hafa það. Það var rosalega erfitt, því ég varð að deila því sem hafði gerst í lífi mínu á öllum öryggisfundum fyrir aðgerðir sem eru mörgum sinnum á dag. Það var erfitt í fyrstu en svo varð það auðveldara eftir því sem ég gerði það oftar. Ég held að þessi leið hafi verið auðveldari fyrir mig en að taka mér nokkra mánuði í frí og vera þá að fresta því að segja frá hvað hafði komið fyrir.“

Að mati Helga er mikilvægt að hver og einn fái að syrgja á þann hátt sem hann kýs sjálfur. Það sé engin ein leið út úr svona mikilli sorg og engin leið auðveldari eða þægilegri en önnur.

„Ég hef verið mjög opinn með líf mitt frá því að ég greindi frá því að ég væri samkynhneigður, fyrir tuttugu árum. Ég vil ekki láta sorgina hafa neikvæð áhrif á líf mitt, heldur jákvæð áhrif á líf mitt og annarra, ég geri hvað ég get til þess. Ég geri það með því að minna á hversu erfitt lífið hefur verið fyrir fólk undanfarin tvö ár vegna kórónuveirunnar. Ég geri það í samskiptum við fólk í vinnunni, með því að vera til staðar fyrir annað fólk í veikindum sínum. Ég finn meira til með sjúklingum mínum en áður, því það er eins og ég sé með fleiri tilfinningar. Ég get aldrei vitað alveg hvernig fólki líður, líkt og annað fólk getur aldrei vitað hvernig mér líður, en ég finn til með fólki og það er ekki bara út af sonarmissinum heldur einnig vegna þess að ég hef verið í kringum verulega veikt fólk á tímum kórónuveirunnar og fylgst með ungu fólki veikjast, sem er alltaf erfitt.“

Hvaða augum lítur þú heilsuna? „Ég finn fyrir mikilli ábyrgðartilfinningu gagnvart minni heilsu. Ég fer í ræktina reglulega og er í góðu formi. Ég reyki ekki og drekk örugglega aðeins meira en ég ætti að gera en er að öðru leyti í ágætis formi miðað við fimmtugan karlmann. Andlega vildi ég ekki vera yngri, því mér finnst voðalega gaman að vita það sem ég veit. Líkamlega væri ég alveg til í að vera 34 ára, ég neita því ekki þótt ég sé í ágætu formi fyrir fimmtugan mann.“

Það er aldrei gott að deyja einn

Helgi hleypur og stundar jóga. Hann er á því að vinnan hans minni á hversu mikilvægt er að halda sig innan hófsemi á öllum sviðum, enda er stór hluti vinnu hans í alvarlegustu aðgerðunum sem framkvæmdar eru á spítalanum.

„Þetta eru stórar aðgerðir þar sem við erum að skera upp vegna krabbameins, í vélinda eða maga.

Að drekka of mikið áfengi, vera of feitur eða hreyfa sig ekki nóg eru allt atriði sem maður þarf að huga að.

Fyrir stórar aðgerðir fundum við með fólki stundum þremur mánuðum fyrir aðgerð, þar sem við leggjum drög að hreyfingu og breyttu mataræði svo dæmi séu tekin. Svo er fólki fylgt eftir í einhver ár á eftir þar sem margir snúa við lífsháttum sínum og ýta þannig undir betri bata.“

Vegna kórónuveirunnar var Helgi beðinn að starfa á gjörgæsludeild spítalans.

„Það var mikið um kórónuveiruna í mars og apríl í fyrra og svo aftur í janúar, febrúar og mars á þessu ári.

Að vera gjörgæslulæknir er mjög gefandi og björguðum við mörgum mannslífum, en margir dóu líka, sem var erfitt, ekki síst því margir þurftu að deyja einir og án fjölskyldu sinnar. Mamma hefur oft sagt við mig að hún vilji ekki enda á gjörgæslu með litla von um bata og ég er sammála henni í því. Stundum verðum við að leyfa fólki að deyja og að fá að gera það með fólkið sem það elskar mest í kringum sig. Ætli stærsti lærdómurinn sé ekki alltaf að við verðum að njóta lífsins á meðan okkur er gefið að lifa. Við veiktumst öll, heilbrigðisstarfsfólkið hér, ég man á einum fundi þar sem starfsmaður var farinn að hósta og svo smituðumst við öll af veirunni. Sumir urðu verulega veikir en ég fór frekar vel í gegnum þetta.“

Falleg samskipti grunnurinn að góðri aðgerð

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem vilja komast eins vel og hægt er í gegnum tímana núna?

„Ég mæli með því fyrir alla að styrkja sig, fara að hreyfa sig og ef einstaklingar eru með undirliggjandi vanda að reyna að vinna bug á því. Borða hollt og svo að láta bólusetja sig. Þeir sem hafa veikst hvað mest á gjörgæslunni hjá okkur hafa verið óbólusettir. Sérstaklega unga fólkið sem hefur veikst hvað mest, það hefur verið óbólusett og svo sáum við stóran hluta sjúklinga með háþrýsting og sykursýki sem fóru illa út úr kórónuveirunni.“

Ef það er eitthvað sem Helga finnst svæfingalæknar þurfa að kunna fyrir utan fag sitt, þá er það að kunna falleg samskipti við fólk.

„Margir halda að við læknar séum bara með sofandi fólk í vinnunni en það er ekki sannleikurinn. Við þurfum að geta farið í gott samtal við sjúklingana okkar til að skilja betur hvernig við getum notað vísindin og tækin og tólin til að koma þeim sem best í gegnum aðgerðirnar. Hver manneskja er dýrmæt og einstök og fólk er ekki eins. Það er svo gaman að finna út hvernig hver og einn virkar. Svo elska ég keisaraskurði sem ég geri vanalega einn dag í viku. Þar er maður þátttakandi í að færa nýtt líf inn í veröldina. Þá reynir maður að hafa allt eins eðlilegt og hægt er, tala við mæðurnar og feðurna og taka þátt í gleðiferlinu og á sama tíma láta móðurinni líða eins vel og hægt er.“

Það er auðheyrt á Helga að hann er í grunninn glaður og jákvæður maður.

„Ég hef bara alltaf verið þannig að mér finnst lífið skemmtilegt. Hvaða annað val höfum við? Hver vill eiga leiðinlegt líf? Ég hef allavega mikla þörf fyrir að láta mitt líf skipta máli og létta undir með öðrum eins vel og ég get og kann hverju sinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda