„Tárin hættu bara ekki að streyma“

Birna María Másdóttir varð óvænt heilluð af hlaupum í kórónuveirufaraldrinum.
Birna María Másdóttir varð óvænt heilluð af hlaupum í kórónuveirufaraldrinum. Samsett mynd

Hreyfing hefur alltaf verið stór partur af lífi Birnu Maríu Másdóttur, en þegar líkamsræktarstöðvarnar lokuðu í kórónuveirufaraldrinum ákvað hún að reima á sig gamla hlaupaskó og fara út að hlaupa. Til að byrja með hafði Birna litlar væntingar en með tímanum fóru hlaupin að heilla hana. Í dag hefur hún hlaupið 42 kílómetra í  Reykjavíkurmaraþoninu, 26 kílómetra utanvegahlaup í Hengli Ultra og 55 kílómetra utanvegahlaup í Laugavegshlaupinu auk annarra styttri hlaupa. 

Birna er 26 ára gömul og starfar sem viðskiptastjóri hjá Brandenburg auglýsingastofu. Einhverjir kannast eflaust við hana úr GYM-þáttunum sem sýndir voru á Stöð 2, en þar fylgdist hún með og tók þátt í æfingum hjá hinu ýmsa íþróttafólki. 

Að undanförnu hefur Birna verið dugleg að sýna frá hlaupum og hlaupaþjálfun á TikTok-reikningi sínum við góðar undirtektir, en hún æfir sjö til átta sinnum í viku og er gríðarlega spennt fyrir hlaupasumrinu framundan.

Birna hefur verið dugleg að gefa fylgjendum sínum innsýn í …
Birna hefur verið dugleg að gefa fylgjendum sínum innsýn í hlaupalífið á TikTok.

Hver er bakgrunnur þinn í íþróttum?

„Íþróttir hafa fylgt mér frá því ég var lítil. Ég prófaði ýmislegt á æskuárum eins og ballett, fimleika og jazzballett og fann að þar var ég ekki alveg í essinu mínu. Ég byrjaði svo í fótbolta í Val þegar ég var í kringum ellefu ára og æfði þar í um tíu ár.

Í menntaskóla lagði ég skónna á hilluna og byrjaði að æfa Víkingaþrek í Mjölni. Ég fann fljótt að þarna var eitthvað fyrir mig og fór á fullt að æfa og seinna að þjálfa. Út frá því kynntist ég CrossFit og tók klassískt CrossFit tímabil, bæði undir handleiðslu Unnars Helgasonar í Mjölni og seinna í WorldFit í WorldClass.“

Birna hefur alla tíð verið dugleg að hreyfa sig, en …
Birna hefur alla tíð verið dugleg að hreyfa sig, en hún æfði meðal annars fótbolta í tíu ár.

Hvenær og af hverju byrjaðir þú að hlaupa? Varstu strax heilluð af hlaupunum?

„Eftir að hafa verið í íþrótt eins og fótbolta þar sem maður hleypur og hleypur og púlar á vellinum án þess að spá mikið í „pace-i“ og kílómetrafjölda þá fannst mér alltaf tilhugsunin um að fara út að hlaupa frekar óspennandi. Það var ekki fyrr en líkamsræktarstöðvarnar lokuðu í kórónuveirufaraldrinum að ég reimaði á mig gamla hlaupaskó og fór út að skokka. Mér fannst það ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrst man ég, en því oftar sem ég fór því þægilegra varð þetta og tilhugsunin ekki eins dramatísk.“

Til að byrja með fannst Birnu ekkert sérstaklega skemmtilegt að …
Til að byrja með fannst Birnu ekkert sérstaklega skemmtilegt að fara út að hlaupa.

„Sumarið 2022 tók ég þátt í nokkrum hlaupum og þar á meðal 26 km í Hengil Ultra, sem var fyrsta utanvegahlaupið mitt. Ég man að mér fannst það hrikalega erfitt en var samt í skýjunum allan tímann því mér fannst þetta tryllt stemning. Sama sumar heyrði hlaupadrottningin Silja Úlfars í mér og spurði hvort ég gæti tekið að mér að vera þulur við marklínuna í Laugavegshlaupinu og ég stökk á það. Í staðinn bauðst mér að taka þátt árið eftir og stóðst ekki freistinguna við þeirri áskorun, skráði mig í Laugaveginn 2023 enda illa gíruð eftir að hafa tekið á móti mörg hundruð hlaupurum koma í mark.

Þá tók við að finna sér prógram og ég komst að hjá Tobba og Evu í Fjallahlaupaþjálfun og byrjaði þá að æfa hlaup almennilega í janúar 2023.“

Birna í Hengli Ultra sem er 26 kílómetra utanvegahlaup.
Birna í Hengli Ultra sem er 26 kílómetra utanvegahlaup.

Hvernig hlaup eru í uppáhaldi?

„Ég er alltaf að læra meira og meira inná þetta, enda ekki langur hlaupaferill að baki. Ég er mest að fókusa á utanvegahlaup og er í þjálfun hjá Fjallahlaupaþjálfun. Eins og er þá er ég nokkuð opin fyrir vegalengdum en lengsta hlaupið mitt hingað til er Laugavegshlaupið, sem er 55 kílómetrar. Aldrei að vita nema maður prófi að fara lengra en það einn daginn.

Hef reyndar mjög gaman að því að hlaupa á götu líka og stefni á að skrá mig í fleiri götuhlaup á þessu ári. Ég tók einmitt þátt í fyrsta 5 km hlaupinu mínu á dögunum sem gekk bara mjög vel og náði mínum besta tíma í 5 km, 19:40.“

Lengsta hlaup Birnu er Laugavegshlaupið sem telur heila 55 kílómetra.
Lengsta hlaup Birnu er Laugavegshlaupið sem telur heila 55 kílómetra.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég er almennt frekar kaótísk þegar kemur að morgunrútínu og ætla mér stundum of stóra hluti. En rútínan fyrir langar æfingar eða keppnishlaup hefur smátt og smátt verið að þróast. Ég vakna helst tveimur tímum fyrir æfingu og það fyrsta sem ég geri er að fá mér morgunmat. Ég held því frekar einföldu og fæ mér bara ristað brauð með osti eða jafnvel með Nutella á tyllidögum.

Svo bara dúndra ég í mig einum kaffibolla og vatni með salti og steinefnum. Ég er vanalega búin að taka saman sirka í hverju ég ætla að vera daginn áður þannig ég vippa mér í það. Þar sem ég bý í Hlíðunum og æfingarnar eru oftast aðeins í burtu þá „blasta“ ég einhverju algjöru pepp-lagi á leiðinni þangað og mæti vel „upptjúnuð“.“

@mcbibbaa

Keppa í 5km i dag 🥲 storytime

♬ original sound - mcbibba

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?

„Hefðbundinn dagur hjá mér er að vakna og koma mér í vinnuna, vinn til fimm og tek þá æfingu, helst úti, fæ mér gott að borða og dembi mér svo oftast í sund.“

Hvernig er hefðbundin æfingavika hjá þér?

„Ég er á prógrammi hjá Fjallahlaupaþjálfun og æfi sjö til átta sinnum í viku. Tvær af þeim æfingum eru styrktaræfingar og rest hlaupaæfingar sem eru blanda af rólegum æfingum, gæðaæfingum og lengri æfingum. Á laugardagsmorgnum eru sameiginlegar æfingar með hópnum sem eru lengri, þær eru langskemmtilegastar.“

Birnu þykir lengri hlaupaæfingar með hópnum skemmtilegastar.
Birnu þykir lengri hlaupaæfingar með hópnum skemmtilegastar.

Uppáhaldshlaupaminning?

„Ein af mínum uppáhaldshlaupaminningum er líklega frá því í fyrra þegar ég hljóp heilt maraþon í fyrsta skipti í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég ákvað að safna fyrir MND-samtökunum, þau samtök standa mér nærri þar sem ég misst ömmu mína, Ástu Sigríði, nokkrum mánuðum áður úr MND-sjúkdómnum.“

Á síðasta ári hljóp Birna heilt maraþon í fyrsta sinn.
Á síðasta ári hljóp Birna heilt maraþon í fyrsta sinn.

„Andinn í hlaupinu var magnaður og það var ótrúlegt að fá endalaust pepp frá fólki á leiðinni í gegnum þessa 42 kílómetra. Hlaupið gekk vonum framar og ég náði markmiðinu mínu sem var að vera undir fjórum tímum. Eftir að hafa verið skoppandi í gegnum höfuðborgarsvæðið í fjóra tíma var mjög gott að komast í mark en þar biðu bestu vinkonur mínar. Ég var í algjöru spennufalli og ég man bara eftir að hafa farið beint til þeirra og fór að hágráta í fanginu á einni þeirra. Tárin hættu bara ekki að streyma.“

Það var tilfinningaþrungin stund þegar Birna kom í mark.
Það var tilfinningaþrungin stund þegar Birna kom í mark.

Hver heldur þú að sé lykillinn að árangri þínum í hlaupunum?

„Þegar ég fór að fylgja prógrammi og fékk þjálfara sem ég gat leitað til þá sá ég strax bætingar. Ég var ekkert endilega búin að ákveða að ætla halda áfram að hlaupa eftir síðasta sumar eða verða einhver svaka „hlaupari“.

En eftir sumarið þá ákvað ég að taka þessu föstum tökum, sagði þjálfurunum að ég vildi halda áfram og stuttu seinna var ég skráð í þriggja vikna æfingabúðir á Tenerife í janúar með Fjallahlaupaþjálfun. Mér hefði aldrei grunað að ég myndi fara til Tenerife í neinum öðrum tilgangi en að tana og chilla.

Eftir að hafa fylgt prógrammi og gefið hlaupunum meiri tíma og orku þá hef ég séð miklar bætingar og fer mjög spennt inn í sumarið.“

Birna byrjaði að sjá miklar bætingar eftir að hún skráði …
Birna byrjaði að sjá miklar bætingar eftir að hún skráði sig í þjálfun.

Hversu miklu máli skiptir hugarfarið að þínu mati?

„Hugarfarið skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Fyrir mitt leyti þá þarf að stilla hausinn reglulega. Mér finnst til dæmis mjög gott að minna sjálfa mig af og til á hvert markmiðið er. En markmiðið hjá mér í hlaupum og í allri hreyfingu hefur alltaf verið að bæta mig og sjá hversu langt ég kemst og get ýtt mér.

Hugarfar við keppni og krefjandi æfingar er svo annað. Þegar á reynir þá minni ég sjálfa mig á og sannfæri sjálfa mig að þetta eigi að vera erfitt. Þetta á að vera erfitt, það er bara þannig, og þess vegna er maður að þessu.“

Birna segir hugarfar skipta miklu máli, bæði í æfingum og …
Birna segir hugarfar skipta miklu máli, bæði í æfingum og keppni.

Hvað finnst þér mest krefjandi við hlaupin? En mest gefandi?

„Það sem er mest krefjandi við hlaupin er þolinmæðin. Maður verður að vera þolinmóður, sérstaklega þegar maður er að byrja. Það er mikilvægt að treysta að allar hægu og kannski leiðinlegu æfingarnar muni skila sér. Ég er yfirhöfuð frekar þolinmóð manneskja en ég held ég sé ekki ein um það að langa stundum bara að fara út að taka á rás frekar en að taka 50 mínútna rólegt skokk á lágri ákefð. En eins og ég segi þá virkar að halda plani og ég þurfti snemma að játa mig sigraða og gjöra svo vel að fylgja því ef ég vildi sjá almennilegar bætingar.“

Birna segir hlaupin krefjast þolinmæði.
Birna segir hlaupin krefjast þolinmæði.

„Það eru nokkur atriði sem mér finnst mest gefandi við hlaupin. Til dæmis er það sá eiginleiki að kunna að vera með sjálfum sér og treysta á sig, enda er enginn annar að fara trítla allan Laugaveginn fyrir mann. Maður þarf að læra að treysta á vinnuna sem maður er búinn að leggja inn og vera í stöðugu samtali við sjálfan sig. Það þarf líka að bera virðingu fyrir tímanum sem hefur farið í undirbúning og muna að njóta þess að uppskera þegar maður er kominn í krefjandi hlaup eða keppni.

Svo er það auðvitað útiveran og ævintýrin sem fylgja þeim, sérstaklega utanvegahlaupunum. Maður fer á alls konar staði til að hlaupa og taka þátt í hlaupum sem mér finnst einstaklega skemmtilegt.“

Birna segir útiveruna vera mikinn kost við hlaupin.
Birna segir útiveruna vera mikinn kost við hlaupin.

Ertu með einhver góð ráð fyrir byrjendur sem langar að byrja að hlaupa?

„Þegar kemur að því að byrja að hlaupa þá eru klárlega nokkur atriði sem er gott að heyra og hafa í huga. Get nefnt það sem hefur virkað fyrir mig í mínum fyrstu skrefum, bókstaflega.

Það sem ég get lofað þeim sem eru að byrja að hlaupa er að þetta verður auðveldara, fyrir bæði líkama og sál. Mér þótti fyrst mjög erfitt að moka mér út að hlaupa og var oft bara að bíða eftir að vera komin eitthvað ákveðið langt til að geta snúið við. Því oftar sem ég fór því auðveldara varð þetta og því betur aðlagaðist líkaminn hlaupum. Maður verður að vera þolinmóður og leyfa líkamanum að venjast.“

Birna segir að æfingarnar verði auðveldari með hverju hlaupinu.
Birna segir að æfingarnar verði auðveldari með hverju hlaupinu.

„Annað ráð fyrir þá sem vilja ná árangri er að skrá sig í þjálfun. Eins og ég segi þá hjálpaði það mér mjög mikið og það er ótrúlega gott framboð af hlaupaprógrömmum og hlaupahópum á Íslandi. Þriðja ráðið er að mikla þetta ekki fyrir sér. Gerðu þetta út frá þínum forsendum og eins og hentar þinni rútínu.

Annað sem ég get mælt með að gera góðan hlaupa lagalista eða eiga inni gott hlaðvarp fyrir hlaupaæfingu. Finndu leiðir í hverfinu þínu sem þér finnst skemmtilegar og þú veist sirka hvað eru langar. Svo má alltaf tríta sig og splæsa í eitthvað gott hlaupa outfit – það getur ýtt manni af stað líka. Aðalatriðið er bara að finna það sem virkar fyrir sig – og það má svo alveg breytast með tímanum.“

Birna er með nokkur frábær ráð fyrir þá sem vilja …
Birna er með nokkur frábær ráð fyrir þá sem vilja byrja að hlaupa.

Hvað er ómissandi að eiga fyrir hlaupin?

„Númer eitt, tvö og þrjú, góðir skór. Það er mjög gott úrval af góðum skóm á Íslandi og ég myndi fara í leiðangur að máta nokkrar týpur áður en þú velur hvað hentar þér. Ekki vera feimin við að spyrja starfsfólk hvaða skór henta fyrir þína fætur og undirlagið sem þú ætlar þér að hlaupa á. Það skiptir miklu máli.

Annað sem er svo algjörlega ómissandi er góður æfingafélagi eða hópur. Það er ótrúlegt hvað maður nær að láta plata sig í þegar maður veit að félagsskapurinn verður tipptopp.“

Að mati Birnu eru góðir æfingafélagar ómissandi!
Að mati Birnu eru góðir æfingafélagar ómissandi!

Hvað er efst á óskalistanum þínum fyrir hlaupin?

„Vá, finnst ég ansi vel græjuð en ætli það sé ekki einhverjir hellaðir og hraðir götuskór. Mér finnst FuelCell SuperComp Elite v3 skórnir frá New Balance sturlaðir. Svo langar mig mjög mikið í utanvegaskó frá Norda.“

FuelCell CuperComp Elite v3 skórnir eru efst á óskalista Birnu.
FuelCell CuperComp Elite v3 skórnir eru efst á óskalista Birnu. Ljósmynd/Newbalance.com

Hvað er framundan hjá þér?

„Framundan hjá mér er nokkuð þétt hlaupasumar. Ég er skráð í Mýrdalshlaupið í lok maí sem ég hef ekki tekið þátt í áður en heyrt mjög góða hluti. Ætla svo í 26 km Hengil aftur, hef farið tvisvar áður, bætti mig í fyrra og ætla að bæta mig aftur í ár. Svo er ég skráð í Laugaveginn í júlí, en það er svona stóra verkefni sumarsins. Ég fór í fyrra og fannst mjög gaman, þessi leið er algjör paradís. Svo bætast einhver fleiri hlaup við, ég ætla bara að vera í flæðinu.“

Birna er spennt fyrir hlaupasumrinu framundan.
Birna er spennt fyrir hlaupasumrinu framundan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál