Ungu fólki gefst færi á að skoða Evrópu

Horft yfir höfuðborgina París í Frakklandi.
Horft yfir höfuðborgina París í Frakklandi. AFP/Thomas Samson

Ungu fólki á Íslandi, fæddu árið 2004, býðst að taka þátt í svokölluðum DiscoverEU leik og fá tækifæri til að ferðast um og skoða Evrópu. Þau sem vinna í leiknum fá lestarpassa ásamt flugmiða til og frá meginlandinu án endurgjalds.

Evrópusambandið hefur undanfarin ár gefið ungu fólki á átjánda aldursári tækifæri til að ferðast um Evrópu með Interrail-lestarpassa undir verkefni sem kallast DiscoverEU. Í ár varð verkefnið hluti af Erasmus+ samstarfsáætlun ESB, sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samningsins, og gefst ungu fólki á Íslandi nú færi á að ferðast um og skoða Evrópu á umhverfisvænan hátt.

Leikurinn er nokkurs konar happdrætti, þar sem ungt fólk svarar spurningum og fer þannig í pott sem dregið verður úr. Í verðlaun eru interrail lestarmiðar um Evrópu sem gilda í 30 daga á 12 mánaða tímabili og gefur ungu fólki færi á að standa á eigin fótum, kynnast nýju fólki og opna hugann fyrir annarri menningu.

Til þess að taka þátt þarf að vera með íslenskt ríkisfang eða lögheimili á Íslandi, óháð þjóðerni. Opnað var fyrir umsóknir 11. október og verður hægt að sækja um til 25. október. Dregið er tvisvar á ári og koma 48 miðar í hlut Íslands í hverjum útdrætti.

Nánari upplýsingar um leikinn og vinninginn má finna á vef Eurodesk, en umsóknir fara fram í gegnum evrópsku ungmennagáttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert