Kamilla í heilsufríi á Indlandi

Kamilla drottning er í heilsufríi á Indlandi.
Kamilla drottning er í heilsufríi á Indlandi. AFP

Kamilla drottning dvelur um þessar mundir í heilsumiðstöð í grennd við Bangalore í Indlandi. Er hún í heilsufríinu ásamt vinkonum sínum á meðan eiginmaður hennar, Karl III. Bretakonungur sinnir skyldum sínum heima og tekur á móti nýjum forsætisráðherra, Rishi Sunak. 

Times of India greindi fyrst frá heilsufrí drottningar og segir hana og vinkonur hennar hafa lent í Bangalore á föstudag og farið þaðan til Soukya heilsumiðstöðvarinnar samdægurs. 

Hugleiðsla og jóga eru kjarninn í meðferðum Soukya en Kamilla hefur sótt miðstöðina heim reglulega í gegnum árin og stundum komið þar við á ferðalögum með Karli. 

Er talið líklegt að drottningin hafi skipulagt ferðina fyrir nokkrum mánuðum, áður en tengdamóðir hennar Elísabet II. Bretadrottning lést og Karl tók við völdum.

mbl.is