Var pínu stressuð að fljúga með Play

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Í október fór ég til Portúgal á fyrstu ráðstefnuna mína síðan fyrir Covid. Þetta er fasteignaráðstefna á vegum „Leading Real Estate Companies of the World“ sem er stærsta keðja sjálfstætt starfandi fasteignasala um allan heim með meðlimi í tæplega 80 löndum. Húsaskjól er eina íslenska fasteignasalan í keðjunni þar sem við erum á svo litlum markaði. Ég fór út sem fyrirlesari til að ræða mikilvægi jafnvægis í vinnu og einkalífi og einnig til að taka upp hluta af seríu fyrir þjálfunarhluta Leading Re sem verður nýttur fyrir aðra meðlimi keðjunnar. Að lokum keppti upplýsingakerfið mitt, sem ég er hannaði og fjármagnaði,  um bestu tæknilausnina í fasteignageiranum. Það er gífurlega mikilvægt að vera í alþjóðlegu samstarfi og að geta aðstoðað mína viðskiptavini við að kaupa og selja fasteignir í tæplega 80 löndum, sérstaklega þar sem ég þekki persónulega mjög marga af þessum fasteignasölum,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og miðaldra kona, í sínum nýjasta pistli: 

Play flýgur beint til Lissabon á mánudögum og föstudögum og ráðstefnan var frá fimmtudegi til laugardags. Þarna voru góð ráð dýr. Ef ég ætlaði að taka eitthvert annað flug þá færi hvort sem heill dagur í hvorn legg þannig að ég gat alveg eins farið aðeins fyrr og notið Lissabon með sjálfri mér.

Ég var pínu stressuð yfir þessu flugi þar sem ég hafði aldrei flogið með Play og hafði heyrt misjafnar sögur um flugfélagið. Ég var nýkomin frá Ítalíu þar sem ég æfði mig í að pakka létt og fór með eina handfarangurstösku. Það gekk svona glimrandi vel og ég notaði ekki nema helminginn af því sem ég fór með. Því ákvað ég að ferðast líka létt til Portúgal og tók með litla handfarangurstösku, svokallaða fluffu, og einn lítinn bakpoka.

Það geta ekki allir meikað það

Þegar ég var í Veróna á Ítalíu fann ég gömlu listagyðjuna vakna. Ég ákvað að virkja innri listaspíruna mína og verða duglegri að fara á tónleika, myndlistasýningar og leikhús. Nokkuð sem ég setti á ís í Covid. Það var löng röð í tékkin þannig að ég ákvað að spjalla aðeins við mennina fyrir aftan mig. Þeir voru líka á leiðinni til Lissabon eins og ég (eðlilega þar sem vélin var að fljúga þangað). Ég sagðist ætla að stoppa stutt þar sem ég væri á leiðinni á ráðstefnu. Hvað ætlið þið að gera í Lissabon? Við erum að að fara að spila á tónleikum, sagði annar þeirra. Áhugavert sagði ég, í hvaða hljómsveit eruð þið? Sigur Rós, Já einmitt, ég kannast við hana. Tvítugur sonur minn er ennþá með hauspoka yfir menningarleysi móður sinnar. En þetta horfir nú allt til betri vegar. Ég ætla að taka menninguna á sama máta og lestrarátakið mitt, fara reglulega á viðburði sem ég veit ekkert um og það er aldrei að vita nema ég nái líka frama sem menningar- og listagagnrýnandi, rétt eins og bókmenntagagnrýnandi.

Er ég utan marka hjá Play og taka þeir töskuna af mér?

Ég var pínu stressuð yfir þessu töskumáli. Hvað ef hún er pínuogguponsulítið of stór? Þetta er nefnilega ekkert „one size fits all“ hjá flugfélögum. Allar áhyggjur mínar reyndust vera óþarfi. Það var nóg pláss fyrir töskuna. Ég setti litlu fluffuna mína fyrir ofan sætið. Bakpokinn rann vel undir sætið fyrir framan og það var nóg pláss fyrir fæturna á mér. Ég er að vísu ekki nema 165 sm en oft er ansi þröngt í þessum flugvélum og ég þakka alltaf fyrir að vera ekki atvinnukona í NBA. Flugið var mjög þægilegt og ég skildi hvert einasta orð af því sem flugstjórinn sagði. Það er sko ekki sjálfgefið. Stundum held ég að flugstjórar séu settir á talnámskeið hjá sama aðila og kennir læknum að skrifa. Flugliðarnir voru dásamlegir og ég er mjög hrifin af þessum búningum. Þeir virka mjög þægilegir. Eftir þetta flug hlakka ég til að fara aftur með Play og get ekki annað en glaðst yfir því að við eigum tvö frábær flugfélög á þessu litla landi okkar.

Óvissuferð á hótelið

Ég nota Booking mjög mikið og ég fékk tilkynningu um að ég væri komin á Genius 2 level og fengi afslátt af leigubíl. Ég gæti bókað hann fyrir fram og bílstjórinn myndi bíða eftir mér með skilti með nafninu mínu í móttökusalnum. Ég hef oft séð svona bílstjóra bíða eftir fólki en alltaf staðið í þeirri meiningu að þetta væri fyrir rokkstjörnur og ofurfyrirsætur, ekki okkur venjulega fólkið. Ég var fljót í gegnum flugvöllinn, enda þurfti ég ekki að bíða eftir tösku úr vélinni, og dreif mig að hitta bílstjórann minn. Fyrsti maðurinn sem ég sá var með spjald sem á stóð Sigur Rós. Það var hins vegar enginn með spjald fyrir Ásdísi Ósk. Ég fór á móttökustaðinn. Pöntunin hafði eitthvað klikkað, þannig að ég neyddist til að fara í leigubílaröðina sem var álíka löng og biðröðin fyrir utan Apple þegar nýr iPhone kemur í sölu en sem betur fer gekk hún ansi greitt. Ég fékk eldri leigubílstjóra. Hann spurði hvort ég talaði portúgölsku, nei reyndar ekki en ég tala spænsku. Já sagði kappinn þetta er nú meira og minna sama tungumálið. Eftir þessa bílferð get ég vottað að svo er ekki. Hann hafði mjög gaman af því að spjalla og spurði hvaðan ég væri. Frá Íslandi. Ja há sagði hann, er ekki landið að fylltast af Rússum sagði hann, Rússum, nei, ég kannast ekki við það, sagði ég. Nú eruð þið ekki við landamærin við Rússland svo hugsaði hann aðeins og sagði, já nei það er víst Finnland, þið eruð þarna rétt hjá Ástralíu. Já nei, sagði ég, ertu ekki að meina Nýja-Sjáland. Já, kannski, sagði hann og brosti. Hvað ertu svo að gera hérna í Lissabon? Ég er á leiðinni á fasteignaráðstefnu og vonaði að ég hefði munað rétt orð fyrir fasteignaráðstefnu. Ha, fordómaráðstefnu kom til baka frá kappanum. Á þessum tímapunkti stressaðist ég pínu upp og hafði áhyggjur af því að hann myndi fara með mig þráðbeint í leynilegar höfuðstöðvar Ku klux klan. Ég brosti mínu blíðasta þrátt fyrir stressuð og sagði: Já, nei, ég er að selja hús. Ég komst á áfangastað og kvaddi karlinn með virktum, að því marki sem ég gat.

Hvar á að gista?

Þegar ég ákvað að fara til Lissabon setti ég inn á Facebook hvernig væri best að fljúga og hvar ætti að gista. Þá kom í ljós að ansi margir höfðu farið til Lissabon og flestir mæltu með Play. Ein mælti svo með hótelinu Palácio das Especiarias. Ég kíkti á umsagnirnar á Bookings og þau áttu eitt sammerkt. Morgunmaturinn væri einn sá besti sem þau hefðu smakkað. Það er lykilatriði fyrir mig að fá góðan morgunmat. Ég ákvað því að bóka 2 nætur. Hótelið stóð svo sannarlega undir væntingum. Ég kom seint um kvöld og sú sem tékkaði mig inn fylgdi mér inn á herbergið til að sýna mér hvernig þetta virkaði. Herbergið var algjörlega frábært. Mjög mikil lofthæð, fallegar rósettur í loftinu og ljósakróna. Ég hafði pantaði herbergi með svölum og útsýni og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með það. Ég hlakkaði mikið til að fara í morgunmatinn daginn eftir og vá hvað hann stóðst allar væntingar. Þetta var eins og að fara í konunglegt matarboð. Það eru nokkur herbergi og maturinn er á nokkrum svæðum, allt svo gott og þjónustan dásamleg. Sá næstum því eftir að hafa bara bókað 2 nætur.

Hvað á að gera?

Einu sinni var ég rosalega upptekin af því að gera allt þegar ég fór í styttri ferðir. Núna er ég meira í því að lalla um borgina og skoða mannlífið. Ég bað strákinn í móttökunni að benda mér á eitthvað sniðugt. Mig langaði að rölta niður að á, kíkja á skemmtilegar götur og lifandi mannlíf. Ég bað hann að skrifa bara niður á blað nokkrar ábendingar og ég myndi svo nota Google maps til að koma mér á milli staða. Ég er með það markmið að ganga ekki undir 10 km á dag í svona borgarferðum með reglubundnum drykkjar og pissupásum. Ég sá því enga ástæðu að taka með mér kort eða upplýsingar um hótelið. Það var ekki eins og ég ætlaði að fara upp á fjall, bara rölta um og svo heim aftur.

Hvað dundar miðaldra kona sér við?

Þetta gekk nú bara ansi vel til að byrja með. Ég beygði til hægri og sá strax mjög flott kaffihús sem ég mæli eindregið með.  Fábrica eru með mjög gott te og pottþétt líka kaffi (hef bara ekki náð tökum á því ennþá frekar en áfengi) og virkilega gott bakkelsi. Ég sá að áin var þarna beint framundan og rölti þangað niður eftir. Dásamlegt veður og allir kátir og hressir. Ég sá fullt af skemmtilegum stöðum og fann svo apótek og mundi að mig vantaði tannkrem þar sem ég gleymi að kaupa ferðatannkrem. Fann eitt lítið sem myndi smellpassa í handfarangur en ákvað að skoða það betur til öryggis. Það stóð endist í 12 tíma, sniðugt hugsaði ég, konan verður nú oft andfúl á svona ferðalögum. Ætli þetta sé ný tegund þar sem ég kannaðist ekkert við þetta. Á bakhliðinni sá ég mynd af tanngóm og lími, ah þetta er tannlím sem endist í 12 tíma og ákvað að það væri best að fá aðstoð.

Bacalau og dauður sími

Ég ákvað að fá mér saltfisk í hádegismat. Ég mæli ekki með því að borða saltfisk úti, það laðar að sér óheyrilegan fjölda af flugum sem vilja bara vera í partíi með þér. Eftir frábæran dag tók ég stefnuna heim, setti hótelið í Google Maps og var ekki í neinum vandræðum með að rata - alveg þangað til síminn dó. Ég hafði verið svo forsjál að taka með mér hleðslubanka en eina vandamálið var að hann var á hótelinu. Mæli eindregið með því að taka svoleiðis með í dagsferðir. Hann gerir meira gagn þar. Ég íhugaði að taka skjáskot af Google Maps en áttaði mig á að það myndi líklega ekki gagnast ef síminn dæi. Sem ég var orðin mjög stressuð áttaði ég mig á því að ég stóð beint fyrir fasteignasölu. Ég vatt mér inn og kannaði hvort að þau gætu hlaðið fyrir mig símann sem dó akkúrat á þessu augnabliki. Það reyndist meira en sjálfsagt.

Besti steikarstaðurinn í Lisbon?

Um kvöldið ákvað ég að forðast frekari ævintýri. Kíkti á Google Maps eftir stöðum sem væru í 5 mínútna göngufæri frá hótelinu. Ég datt inn á O Boteco, brasilískt steikhús sem var með það besta filet Mignon sem ég hef á ævinni smakkað. Næst þegar ég fer til Lissabon þá mun ég fara þangað aftur.

Óvissuferð til Cascais

Ég bað hótelið að bóka fyrir mig leigubíl þrátt fyrir síðustu reynslu. Kona getur nú ekki verið óheppin tvisvar eða hvað? Bílstjórinn spurði hvert ég væri að fara, ég gaf honum upp nafnið á hótelinu. Ég veit ekkert hvar þetta er, hvert er heimilisfangið sagði kappinn. Ég gaf honum það. Ég veit ekkert hvar þetta er. Getur þú ekki lánað mér símann þinn, kom næst. Nei, ekki alveg til í það. Getur þú ekki bara googlað þetta. Nei, ég er ekki með svoleiðis. Einmitt já. Ég ákvað því að það væri best að fá hótelið til að bóka annan bílstjóra sem kom mér áfallalaust á áfangastað.  Eftir spjall við heimamenn kom í ljós að flestir mæla með Uber frekar en leigubíl í Portúgal.

Ráð til að ferðast létt 

  1. Kaupið handfarangurstösku og passið að stærð hennar sé í samræmi við reglur þar um hjá stærstu flugfélögunum.
  2. Kaupið litla dalla, t.d. í Tiger, til að setja snyrtivörur í, s.s. sjampó, hárnæringu og dagkrem.
  3. Íhugið hvort það þurfi örugglega förðunarvörur og hversu mikið af þeim.
  4. Hafið léttan bakpoka sem passar undir eitt skópar og aðrar nauðsynjar.
  5. Setjið upp lista yfir það sem á að fara með í ferðina.
  6. Hendið út 20% af listanum blákalt. Það er hægt að skola úr nærfötum og þess háttar.
  7. Kaupið „dryfit“ fatnað sem lítur samt ekki út eins og þú sért að fara í ræktina. Ég mæli með að kíkja í Sportís, þar fékk ég bæði pils og buxur.
  8. Ef förinni er heitið á ráðstefnu eða þörf er á sparifötum, takið þá með eitt skópar sem passar við öll ráðstefnufötin. Þetta sparar gífurlega mikið töskupláss.mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert