Heilsuhælið sem Kamilla elskar

Kamilla drottning elskar að láta stjana við sig á Indlandi.
Kamilla drottning elskar að láta stjana við sig á Indlandi. AFP

Heilsuhælið Soukya á Indlandi er í miklu uppáhaldi hjá Kamillu drottningu. Hún hefur dvalið þar sjö sinnum, síðast fyrir um mánuði. Þetta er eitt dýrasta heilsuhæli heims. 

Árið 2017 tók Kamilla drottning allt svæðið á leigu fyrir vini sína en Karl kóngur hefur enn ekki dvalið þar en svæðið þykir ekki nógu öruggt fyrir hann. Þrátt fyrir það hélt hann upp á 71 árs afmælið sitt þarna árið 2019 ásamt Kamillu sinni og gróðursetti tré.

Heilsuhælið státar af margvíslegum meðferðum sem fólk getur nýtt sér til að efla heilsuna eins og til dæmis ayurvedískri hreinsun.

Stjanað er við gestina. Allir fá blómsveig um hálsinn við komuna og á hverju kvöldi er miði með hugleiðingu dagsins lagður á koddana. 

Reykingar, kjötneysla og neysla örvandi efna er stranglega bönnuð og gestum er gert að greiða háa sekt brjóti þeir reglurnar. Loks er ekkert sjónvarp á svæðinu. 

Issac Mathai læknir, stofnandi heilsuhælisins, segir í viðtali við The Times marga hafa fengið bót meina sinna hjá þeim. „Við höfum stöðvað framgöngu MS-sjúkdómsins hjá fólki, hjálpað sykursjúkum að hætta að nota lyf og fólk hefur jafnvel læknast af krabbameini,“ segir Mathai. Hann viðurkennir þó að þeir geti ekki hjálpað með hjartagalla, taugahrörnunarsjúkdóma, heilaæxli eða krabbamein á lokastigum.

Heilsuhælið trúir því að sjúkdómar séu almennt tilkomnir vegna eiturefna og því sé hlutverk þess að hjálpa fólki að hreinsa sig.

Sjálfbærni staðarins er eftirtektarverð en það nýtir sólarorku að fullu og er með vindmyllu. Þá safnar það regnvatni. Kúahland er notað sem náttúrulegt skordýraeitur svo fátt eitt sé nefnt.

Það kostar umtalsvert að dvelja á heilsuhælinu. Velji maður ayurvedíska hreinsun þá er 21 dagur á sirka 12 þúsund pund eða rúmar tvær milljónir íslenskra króna. Þá á maður eftir að borga ýmis aukagjöld sem ekki eru innifalin eins og til dæmis fyrir náttföt og stakar meðferðir sem geta kostað hátt í 50 þúsund krónur hver. Þá er ætlast til þess að starfsmenn fái einnig þjórfé fyrir veitta þjónustu og hefur eigandi staðarins verið þekktur fyrir að hafa samband finnist honum þjórféð sem gestir gáfu of lítið.

Heilsuhælið Soukya þykir gott en mjög dýrt.
Heilsuhælið Soukya þykir gott en mjög dýrt. Skjáskot/Instagram
Karl kóngur gróðursetti tré þarna við hátíðlega athöfn árið 2019.
Karl kóngur gróðursetti tré þarna við hátíðlega athöfn árið 2019. Skjáskot/Instagram
Herbergin eru falleg.
Herbergin eru falleg. Skjáskot/Instagram
Aðstaða fyrir gesti er til fyrirmyndar.
Aðstaða fyrir gesti er til fyrirmyndar. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert