Fluginu aflýst og tóku þá málin í eigin hendur

Carlos sá um aksturinn þegar 13 manns sem misstu af …
Carlos sá um aksturinn þegar 13 manns sem misstu af flugi til Knoxville ákváðu að keyra saman á áfangastað.

Þegar kvöldflugi Frontier Airline frá Orlando til Knoxville í Bandaríkjunum var aflýst með skömmum fyrirvara ákváðu þrettán farþegar, sem ekki þekktu hvort annað, að leigja saman bíl og keyra í tíu klukkustundir til að komast til borgarinnar. Öll þurftu þau nauðsynlega að komast til Knoxville.

Hópurinn segist eiginlega ekki vita alveg hvernig ákvörðunin var tekin, áður en þau vissu af var eitt þeirra búið að leggja fram kreditkort til að greiða fyrir rútuna og svo voru þau lögð af stað.

Áttu bara eitt sameiginlegt

Hópurinn sagði frá ferðalaginu á Tiktok og einnig í viðtali við CNN Travel. Fluginu var aflýst á sunnudagskvöldi og þurfti áhrifavaldurinn Michelle Miller að vera komin á ráðstefnu á þriðjudeginum. Hjónin Carlos Cordero og Laura Puckering voru að fara með 17 ára dóttur sinni að skoða háskóla, einn ferðalangurinn þurfti að mæta fyrir dómara í forræðisdeilu, og annar var að fara að hjálpa vini sínum að flytja. Hinir þurftu bara að komast heim til sín. 

Það eina sem hópurinn átti því sameiginlegt var að fluginu þeirra var aflýst og þau vildu komast á áfangastað þetta kvöld. 

Carlos og Laura heyrðu aðra farþega vera að tala um að leigja bíl til að keyra og hugsuðu með sér að það gengi ekki. Þegar þau sáu hversu svekkt dóttir þeirra var ákváðu þau að ræða við Amy, sem hafði verið að tala um hugmyndina.

Ég er til ef þú ert til

„Ég sagðist vera til í þetta. Og þá sagðist hún vera til í þessa líka. Síðan kom önnur kona og sagðist líka vera til í þetta ef við værum til í þetta. Síðan hélt boltinn bara áfram að rúlla þar til við vorum orðin 10 til 15 manns,“ sagði Carlos. Eftir það ákváðu þau bara að taka málin í sínar eigin hendur og leigja rútu til að koma sér til Knoxville. 

„Það var bara góð stemning, því þetta var bara venjulegt fólk sem var að reyna að komast á réttan stað og sinna sínu hversdagslega lífi,“ sagði Carlos. 

Einn farþeganna Alanah Story ákvað að segja frá ævintýrinu á Tiktok. „Fyrst mér fannst þetta klikkað, þá vissi ég að öðrum fyndist þetta klikkað. Þannig ég hugsaði bara, þetta er einstakur hópur, við erum öll ólík. Þannig ég veit ekki, kannski vildi annað fólk fylgjast með líka, því svona hlutir gerast ekki á hverjum degi,“ sagði Alanah.

@alanahstory21 I cant make this up. Road trip! 🚐 @The Farm Babe @StarrPuck @doerksen92 @Renee @robinwharton976 @CozumelAutentico ♬ original sound - Alanah

Skildu sem vinir 

Að lokum lögðu 13 manns af stað í rútunni, með allan sinn farangur. Carlos keyrði og á milli þess sem hópurinn svaf spjölluðu þau um daginn og veginn, sögðu frá sjálfum sér, fjölskyldum sínum og vinum.

„Allir voru svo frábærir. Þetta var eiginlega of fullkomið. Það var engin umferð. Öllum kom svo vel saman, allir komu með eitthvað að borðinu. Þetta gekk snurðulaust fyrir sig,“ sagði Carlos. 

Eina sem truflaði hópinn smá var að Michelle vildi ítrekað stoppa til þess að fara á klósettið, en hópurinn var þó farinn að grínast með það að lokum. Þegar hópurinn kom til Knoxvill hélt hver í sína áttina, en skildu þó sem vinir.

Vakið heimsathygli

Margir fylgdust með ferðalagi hópsins á TikTok og í vikunni hefur mikið verið fjallað um þetta óvænta ferðalag hópsins. Vinirnir 13 hafa síðan þá spjallað saman á netinu og farið í viðtöl saman til að segja frá ferðinni. 

Laura sagði að það væri mikilvægt að ræða líka um að það væri ekki alltaf öruggt að ákveða að ferðast með ókunnugu fólki. „Ég vil ekki hvetja fólk til að hoppa upp í bíl með hverjum sem er,“ sagði Laura og bætti við að henni hafi fundist hún öruggari með Carlos. 

„Það sem ég tek út úr þessu er að það er fullt af virkilega góðu fólki í þessum heimi. Við erum öll ólík, með ólíkan bakgrunn. Samt hefði þetta ekki getað gengið betur. Þannig ég sé ekki eftir þessu,“ sagði Laura.

Alanah tók undir með henni. „Ég fékk aftur trúnna á mannkyninu eftir að hafa verið í svona aðstæðum. Það er klárlega von þarna úti, fólk getur verið gott. Líka, ef þú hefur tækifæri á að fara í klikkað ævintýri, þá skaltu gera það, þú veist aldrei hvað gæti gerst,“ sagði Alanah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert