Furðulegir hlutir sem stjörnurnar hafa gert í háloftunum

Rosie Huntington-Whiteley, Kim Kardashian, Conor McGregor og Elizabeth Berkley hafa …
Rosie Huntington-Whiteley, Kim Kardashian, Conor McGregor og Elizabeth Berkley hafa öll flogið með fyrrverandi flugfreyjunni Kat Kamalani. Samsett mynd

Hin 32 ára Kat Kamalani starfaði sem flugfreyja hjá bandaríska flugfélaginu Delta Air Lines í rúmlega sex ár. Á ferli sínum hitti hún marga fræga einstaklinga, en nýlega afhjúpaði hún stórfurðulega hluti sem hún hefur séð stjörnur gera í háaloftunum í TikTok-myndskeiði. Auk þess gaf hún stjörnunum einkunn fyrir hegðun sína um borð. 

Fór á salernið á sokkunum

Kamalani flaug með raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian frá Los Angeles til New York. Hún sagði að Kardashian væri „í alvörunni svona sæt,“ en það sem hafi hins vegar komið henni verulega á óvart var þegar raunveruleikastjarnan fór inn á flugvélasalernið á sokkunum. Þrátt fyrir það gaf hún Kardashian 10 af 10 í einkunn. 

Vandlát á mat og drykk í löngu flugi

Fyrrverandi Victoria's Secret-fyrirsætan Rosie Huntington-Whiteley fékk þó ekki jafn háa einkunn og Kardashian, en Kamalani segir fyrirsætuna hafa verið afar vandláta þegar kom að mat og drykk í sjö klukkustunda flugferð þeirra frá New York til London. „Hún lyktar ótrúlega vel og lítur út fyrir að vera „photoshoppuð“, en hún borðaði hvorki né drakk í fluginu, hún kom bara með sitt eigið vatn um borð í vélina,“ sagði Kamalani. Breska fyrirsætan fékk því átta af 10 í einkunn. 

„Hún var svo góð, alveg eins og engill“

Leikkonan Elizabeth Barkley féll hins vegar alveg í kramið hjá flugfreyjunni sem lýsir leikkonunni sem ótrúlega indælli. „Það var hálf brjálað að vera með hana og barnið hennar og barnfóstruna, en hún var svo góð, alveg eins og engill,“ sagði Kamalani sem gaf leikkonunni fullt hús stiga. 

Þögli bardagakappinn með lökustu einkunnina

Kamalani upplýsti áhorfendur um fund sem starfsfólkið tók fyrir hvert einasta flug, en á fundinum var þeim sagt frá því ef einhver frægur yrði um borð. Þegar henni var sagt að bardagakappinn Conor McGregor yrði um borð hafði hún ekki hugmynd um hver hann væri. Hún segir bardagakappann ekki hafa talað við neinn úr áhöfninni alla leiðina og því gaf hún honum aðeins sjö af 10 í einkunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert