Hvíta húsið vill banna athæfi Play

Joe Biden Bandaríkjaforseti berst nú fyrir nýrri löggjöf sem á …
Joe Biden Bandaríkjaforseti berst nú fyrir nýrri löggjöf sem á meðal annars að tryggja að foreldrar þurfi ekki að greiða aukalega fyrir að sitja með börnum sínum um borð í flugvél. Samsett mynd

Ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta berst nú fyrir nýjum lögum til þess að útrýma tilgangslausum gjöldum. Þar undir falla gjöld fyrir sætisval um borð í flugvélum, en Biden hefur harðlega gagnrýnt þau flugfélög sem neyða foreldra til þess að greiða aukalega fyrir að sitja hjá börnum sínum.

Íslensku flugfélögin, Play og Icelandair, eru með ólíka skilmála þegar kemur að gjaldtöku fyrir sætisval. Í skilmálum Icelandair segir að sætisval barna á aldrinum tveggja til ellefu ára sé gjaldfrjálst. Sömu sögu er ekki að segja í skilmálum Play.

Flugfélagið Play segist reyna að tryggja að börn sitji hjá foreldrum eða forráðamönnum sínum, það sé þó ekki hægt að tryggja það. Vilji foreldrar vera öruggir um að sitja hjá börnum sínum verði þeir að velja sæti í bókunarferlinu, og þar af leiðandi greiða fyrir það. 

Bæði flugfélög fljúga til fjölda borga í Bandaríkjunum. Icelandair til Baltimore, Boston, Chicago, Denver, Detroit, Minneapolis, New York, Orlando, Portland, Raleigh-Durham, Seattle og Washington D.C. Play til Baltimore, Boston, New York og Washington D.C.

Eigi ekki að þurfa greiða aukalega

Á mánudag gaf samgöngumálaráðuneyti Bandaríkjanna út nýtt mælaborð þar sem hægt er að fylgjast með hvort flugfélög hafi gefið út fjölskylduvæna skilmála sem tryggja það að foreldrar þurfi ekki að greiða aukalega fyrir að sitja hjá börnum sínum undir 13 ára aldri. 

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að mælaborðið aðstoði foreldra við að komast hjá því að bóka flug með félögum sem eru ekki með skýra skilmála um hvort greiða þurfi aukalega fyrir sætisval barna. 

Af þeim tíu bandarísku flugfélögum sem tilgreind eru í mælaborðinu eru þrjú sem segjast tryggja fjölskylduvæna skilmála. Það eru Alaska, American og Frontier. 

mbl.is