„Nánast breitt yfir mig þegar ég fór að sofa“

Eyþór og Kamillu upplifði mikið ævintýri í Dúbaí.
Eyþór og Kamillu upplifði mikið ævintýri í Dúbaí. Samsett mynd

Knattspyrnumaðurinn Eyþór Wöhler átti ævintýralega daga og töfrandi kvöld með sinni heittelskuðu, Kamillu Gunnarsdóttur, en hjónaleysin nutu alls þess besta sem Dúbaí hefur upp á að bjóða nýverið. 

Eyþór, sem spilar með Breiðablik, fagnaði 22 ára afmæli sínu í lok janúar og stökk því á tækifærið og dreif sig beinustu leið í sólina þegar hann nældi sér í nokkurra daga frí frá fótboltanum. „Það hefur alltaf kitlað mig að ferðast til Dúbaí en það hefur reynst erfitt að finna tíma út af fótboltanum,“ segir Eyþór, en hann og Kamilla voru ekki lengi að ákveða áfangastað þegar þeim gafst tækifæri á að skella sér erlendis. 

„Loksins gafst okkur tækifæri til þess að drífa okkur en það var aðeins vegna þess að Breiðablik komst í Sambandsdeildina, en það er Evrópukeppni innan keppnisflóru álfunnar, og tímabilið lengdist. Það þýddi bara frí í janúar, ég hef aldrei áður verið í fríi í janúar.“

Eyþór í eyðimörkinni.
Eyþór í eyðimörkinni. Ljósmynd/Aðsend

Gistu á fimm stjörnu hótelum

30 stiga hiti tók á móti unga parinu þegar þau lentu. „Eyðimörkin tók á móti okkur með glampandi sól ásamt skeggjuðum mönnum í hvítum kjólum. Það er alltaf einstaklega ánægjulegt að fara burt frá slyddunni á Íslandi og yfir í veðurblíðuna erlendis,“ segir Eyþór. 

Af hverju varð Dúbaí fyrir valinu?

„Ég er mikill áhugamaður um glæsileg háhýsi, þaksundlaugar, arkitektúr og hönnun og því um líkt en það er að finna í Dúbaí. Áhugamál mín eru fjölbreytt en þetta eru mínar ær og kýr.“

Eyþór segist vera mikill áhugamaður um arkitektúr.
Eyþór segist vera mikill áhugamaður um arkitektúr. Ljósmynd/Aðsend

Eyþór og Kamilla voru í tvær vikur í Dúbaí og gistu á þremur mismunandi hótelum. „Við gistum rétt hjá pálmanum í Dúbaí og Business Bay. Þetta voru fimm stjörnu hótel sem voru með allt á tandurhreinu, það var nánast breitt yfir mig þegar ég fór að sofa,“ segir hann og hlær. 

Þjónustan í Dúbaí er til fyrirmyndar.
Þjónustan í Dúbaí er til fyrirmyndar. Ljósmynd/Aðsend

Safarí, skýjakljúfar og tyrkneskur leðurjakki

Unga parið átti ekki í miklum erfiðleikum þegar kom að því að gera eitthvað skemmtilegt. „Við brölluðum ýmislegt, fórum í safaríferð í gegnum eyðimörkina, kíktum í stærsta skýjakljúfur í heimi, Burj Khalifa, og skoðuðum aðeins búðir í Dúbaí Mall, sem er önnur stærsta verslunarmiðstöð í heimi. 

Við heimsóttum einnig Global Village, sem er skemmtigarður og hálfgert þorp, með mat og vörur frá öllum heimshornum. Þar gastu bragðað mat frá Indlandi, Jemen, Rússlandi og Suður-Ameríku svo eitthvað sé nefnt. „Ég smakkaði kolkrabba, japanskt snakk, jemenskt hunang, arabískt kaffi og endaði svo á að kaupa mér tyrkneskan leðurjakka, sem líklegast toppar Mustang Sally-jakkann hans Kalla Bjarna, sem hann klæddist þarna um árið.“

Þessa skíðabrekku er að finna í einni verslunarmiðstöð í Dúbaí.
Þessa skíðabrekku er að finna í einni verslunarmiðstöð í Dúbaí. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér mest á óvart við Dúbaí?

„Það sem kom mér hvað mest á óvart var hversu auðvelt var að ferðast til Dúbaí, en einnig þó svo að borgin sé staðsett í Miðausturlöndum þá tók mjög lítinn tíma að aðlagast öllu. Samskipti voru afar auðveld og þjónusta fyrsta flokks. Veitingastaðirnir voru framúrskarandi, Michelin-veitingastaðir á hverju horni.“

Knattspyrnumaðurinn naut sín í botn.
Knattspyrnumaðurinn naut sín í botn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert