Hvernig kemst maður að sjá kirkjuglugga Ólafs Elíassonar?

Kirkjugluggarnir eru mikið sjónarspil.
Kirkjugluggarnir eru mikið sjónarspil. Jens Ziehe/Photographie

Steindir gluggar eftir Ólaf Elíasson hafa nú verið vígðir í dómkirkju heilags Nikulásar í Greifswald í Mecklenburg-Vorpommern í Þýskalandi.

Gluggarnir eru eftirtektarverðir. Þeir eru settir saman úr 3.383 handblásnum bláum, gulum og rauðum einingum. Þegar dagsbirtan fellur í gegnum gluggana minnir það á litatilbrigði sólarupprásar. Þá er fjölda spegla notaður til að leiða ljósið lengra inn í kirkjuna. 

Gluggarnir eru því mikið sjónarspil og ekki er ólíklegt að ferðalangar vilji leggja leið sína þangað til þess að berja dýrðina augum. 

Greifswald er í norðausturhluta Þýskalands og þar búa um 60 þúsund manns. Bærinn stendur við sjávarsíðu og er því loftslagið þar milt og með sjávargolu. Það getur því verið kalt á kvöldin.

Besta leiðin fyrir Íslending til þess að komast þangað er að fljúga annað hvort til Berlínar eða Hamborgar en þær borgir eru í svipaðri fjarlægð frá Greifswald. Það tekur um tvo og hálfan tíma að keyra til Greifswald frá bæði Berlín og Hamborg, miðað við bestu aðstæður. Þá má auðvitað einnig taka lestina en lestarsamgöngur í Þýskalandi eru góðar.

Í Greifswald er tilvalið að skoða söfn, höfnina og dýragarðinn sem þar er. Nálægt Greifswald eru fleiri skemmtilegir bæir sem vert er að skoða eins og til dæmis Stralsund sem er strandbær og annálaður fyrir þýska fegurð. Þá er líka Wolgast ekki fjarri. Wolgast þykir afar sjarmerandi bær sem liggur við ána Peenestrom og býður upp á fallegt útsýni. 

Kirkjan í Greifswald setur mikinn svip á bæinn.
Kirkjan í Greifswald setur mikinn svip á bæinn. Unsplash.com
Ólafur Elíasson er að gera það gott í hinum stóra …
Ólafur Elíasson er að gera það gott í hinum stóra heimi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert