Hostelin flottari en mörg mótel

Felicity Cloake er verðlaunaður blaðamaður og elskaði að gista á …
Felicity Cloake er verðlaunaður blaðamaður og elskaði að gista á hostelum á ferðalagi sínu um Bandaríkin. Hér er hún í New Orleans. Skjáskot/Instagram

Hostelin í Bandaríkjunum eru orðin raunhæfur valkostur fyrir ferðamenn sem vilja fá sem mest fyrir peningana. Blaðamaður The Times komst að því að hostelin væru mörg hver mun betri kostur en flest mótelin sem eru í boði.

„Fyrir tuttugu árum voru hostel ekki upp á marga fiska. Í dag er staðan önnur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem mikið er lagt upp úr því að þjónusta vel alla aldurshópa,“ segir Felicity Cloake ferðablaðamaður The Times sem hefur valið að gista í hostelum frekar en hótelum á ferðalagi sínu um Bandaríkin.

„Sameiginlegu rýmin líkjast einna helst flottum „boutique“ hótelum. Þar eru flottir sófar, plöntur og billjard borð. Það er fyrst þegar maður kemur inn í svefnrýmin sem maður áttar sig á að maður er á hosteli. Maður er að fara að deila nóttinni með sjö öðrum einstaklingum fyrir sirka fimm þúsund krónur.“

„Jú, vissulega er maður ekki lengur 19 ára og á mínum aldri kann maður virkilega að njóta þess að vera einn. En eftir að hafa gist á fjórum hostelum síðasta mánuðinn þá get ég ábyrgst að upplifunin er góð, bæði fyrir mig og pyngjuna. Og miklu betri en flest mótelin!“

„Ef til vill er þetta vegna þess að Bandaríkin hafa ekki jafnrótgróinn hostel-kúltúr og Evrópa og þurfa að lúta fleiri reglum og reglugerðum en önnur lönd.“

Breið aldurssamsetning

„Aldurssamsetningin hefur einnig breyst. Nú er þetta ekki einungis börn á bakpokaferðalagi heldur fólk á öllum aldri. Ég hitti til dæmis konu á eftirlaunum sem var loks orðin frjáls til þess að ferðast og sjá heiminn. Svo hitti ég 23 ára lögfræðing sem vildi taka sér smá pásu áður en hún fetaði framaslóðina sem foreldrar hennar höfðu ætlað henni.“ 

„Svo er nálægðin við aðra ekki svo mikil. Í New Orleans voru kojurnar með gardínum þannig að maður gat dregið fyrir og þá var líkt og maður væri aleinn. Þar var líka lesljós, hleðslustöð og lítil hilla fyrir allt það nauðsynlegasta. Þar við hliðina var læstur skápur fyrir farangurinn og rúmfötin tandurhrein.“

Mótelin geta verið mjög skítug

„Til samanburðar þá borgaði ég 30 þúsund krónur fyrir eina nótt á móteli. Gólfið þar var svo skítugt að ég þurfti að þvo fæturnar margoft áður en ég gat loks skriðið upp í rúm. Á HI Hostelinu var allt tandurhreint. Allt var óaðfinnanlegt. Starfsfólkið skoðaði öll baðherbergi reglulega og sameiginlega eldhúsið var alltaf í röð og reglu með ískáp sem maður gat geymt mat og drykki í. Sú nótt kostaði 14 þúsund með morgunmat og wifi innifalið í verðinu.“

„Á mörgum hostelum er einnig hægt að fá einkaherbergi fyrir t.d. 15 þúsund krónur í New Orleans. En félagslegi þátturinn er samt svo skemmtilegur partur af upplifuninni. Sérstaklega ef maður er einn á ferð.“

Þrjú flott hostel í Bandaríkjunum:

  • HI Hostel New Orleans
  • The Green Tortoise hostel - San Francisco
  • ITH Santa Barbara Beach Hostel
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert