Mínus að hafa skíðalyftu nálægt

Snorri Guðjónsson fjallaskíðamaður með meiru með Alpana í baksýn.
Snorri Guðjónsson fjallaskíðamaður með meiru með Alpana í baksýn. Mbl.is/SG

„Í raun þarf maður að hugsa þetta miklu meira eins og maður sé að fara í fjallgöngu frekar en að maður sé að fara á skíði,“ segir Snorri Guðjónsson, kerfisstjóri og forfallinn áhugamaður um fjallaskíði. „Það tekur jú mestan tímann að ganga upp en í hefðbundinni fjallgöngu finnst mér leiðinlegasti kaflinn að ganga niður. Þeim kafla fær maður hins vegar að sleppa alveg á fjallaskíðunum því þegar upp er komið þá er aðalfjörið eftir, að taka skinnin af og demba sér niður.“

Snorri segist búa vel að því að hafa stundað bæði gönguskíði og svigskíði af miklum móði allt sitt líf því það hafi verið góður undirbúningur fyrir fjallaskíðin og þau ævintýri sem þau bjóða upp á. „Í fyrravor fór ég, ásamt vini mínum Óskari Gústavssyni, í vikuferð í Alpana. Þetta er leið sem nefnist The Grand Lui Haute Route og hefst í Chamonix, sem er lítið fjallaþorp í frönsku ölpunum og liggur við fjallið Mont Blanc, þaðan er skíðað meðfram fjallgarðinum alla leið til Zermatt í Sviss. Þetta er mikil ævintýraferð þar sem gist er í hefðbundnum fjallaskálum á leiðinni.“

Ferðalangarnir voru heppnir með veðrið á leiðinni.
Ferðalangarnir voru heppnir með veðrið á leiðinni. mbl.is/SG

Kyrrðin heillar

Það þarf þó ekki að leita langt yfir skammt til að skemmta sér á fjallaskíðum og segist Snorri fara reglulega upp í Skálafell til að æfa sig. „Það er mjög þægilegt aðgengi að fjallinu en náttúrulega svolítill mínus fyrir okkur fjallaskíðamenna að hafa skíðalyftu nálægt sér, sér í lagi ef hún er opin,“ segi Snorri og hlær. Það er jú líklega kyrrðin og náttúran í sinni tærustu mynd sem heillar fjallaskíðafólkið. „Það getur líka verið mjög góður túr að fara upp Skálafellið og renna sér svo niður norðanmegin í Svínaskarð við rætur Móskarðshnúka og ef fólk er í stuði þá er hægt að fara upp þá líka. Einnig eru Botnsúlur mjög skemmtilegar en til að komast þangað þarf að vera á vel útbúnum jeppum.“

Fagurt útsýni séð frá toppi Móskarðshnúka.
Fagurt útsýni séð frá toppi Móskarðshnúka. mbl.is/SG

Aðspurður hvaða fjallaskíðasvæði á Íslandi séu í eftirlæti segir Snorri það alltaf vera magnað að fara upp á Snæfellsjökul. „Það er svo ævintýralegt að standa þarna uppi með sjó allt í kringum sig, sér í lagi ef maður fer í júní og hittir á að vera uppi í miðnætursólarlagi.“ Hann segir Tröllaskagann líka mjög fjölbreytt og skemmtilegt svæði og þar sé yfirleitt að finna miklu skemmtilegri snjó.

Mikilvægt að velja rétt skíði

Náttúran getur verið óvægin á köflum og því mikilvægt að fara varlega, vera vel útbúin og alls ekki gleyma snjóflóðabúnaði þegar lagt er upp í ferðir. Fjölmörg námskeið eru í boði sem gott getur verið að nýta sér og þá sérstaklega fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Snorri segir einnig skíðabúnaðinn mikilvægan og hafa þurfi í huga aðstæður þegar verið sé að velja búnaðinn.

„Hér á suðvesturhorninu er mjög rysjótt veður, rignir einn daginn og svo frýs allt þann næsta þannig að skíðin verða að geta virkað í harðfenni og vera líka skemmtileg í púðri þannig að mér fannst mikilvægt að velja skíði sem virka í harðfenni og eru einnig skemmtileg ef maður lendir í góðu púðri,“ segir hann og bætir við að í raun sé það breidd skíðanna sem skipti höfuðmáli því breið skíði fljóti vel í púðursnjó sem og blautum og þungum snjó en geti verið erfið viðureignar í harðfenni og slæmu færi eins og gerist oft hér fyrir sunnan.

„Skíðin mín heita Black Diamond Revert og eru 92 mm breið undir miðju og 121 mm að framan með svokölluðum Rocker og henta vel fyrir aðstæður hér á Suðurlandinu. Byggi ég til dæmis á Akureyri, þar sem snjóalög eru oftast mun hagstæðari til skíðaiðkunar, myndi ég sennilega fá mér breiðari skíði. Við skíðin er ég svo með Dynafit-pinnabindingar en sú tækni er afar létt sem skiptir miklu máli þegar upp í fjall er komið,“ segir Snorri að lokum og er greinilega farinn að iða í skinninu eftir að komast á skíðin á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert