15 ára á hæsta tindi Evrópu

Gauti á toppnum.
Gauti á toppnum. Ljósmynd/Aðsend

Hinn 15 ára gamli fjallagarpur Gauti Steinþórsson náði hæsta tindi Evrópu, Elbrus-fjalli í Rússlandi, 12. ágúst. Gauti segir að ferðin hafi gengið vel en í heildina tók það hann 10 daga að ná tindinum.

Elbrus er hæst Kákasusfjalla en það er í Suður-Rússlandi, nálægt landamærum Georgíu. Tindar fjallsins eru tveir og munar aðeins metra á hæð þeirra en hærri tindurinn er í 5.642 metra hæð yfir sjávarmáli.

Elbrus-fjall í tunglsljósinu.
Elbrus-fjall í tunglsljósinu. Ljósmynd/Aðsend

Hann var ekki einn í för en faðir hans, Steinþór Valur Ólafsson, var með honum. Þeir voru í hópi göngufólks ásamt rússneskum leiðsögumanni. Á fyrsta degi keyrðu þeir upp í grunnbúðir Elbrus sem standa í 2.600 metra hæð. 

Næstu dagar fóru í að aðlagast hæðinni og færðu þeir hluta af búnaði sínum upp í efri grunnbúðirnar, „High camp“, á þriðja degi. Þeir gistu þar á fimmta degi, en búðirnar standa í 3.800 metra hæð. Næstu dagar fóru í að aðlagast hæðinni og undirbúa sig fyrir lokagönguna upp á toppinn. Þeir vöknuðu svo klukkan hálfeitt á tíunda degi og voru komnir af stað um klukkustund síðar. Tindinum var náð um klukkan níu um morguninn og svo tók aðeins nokkrar klukkustundir að koma sér aftur niður af fjallinu. Þeir fóru upp fjallið að norðan og niður að sunnan. 

Feðgar ánægðir á toppnum.
Feðgar ánægðir á toppnum. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er ekki fyrsti hái fjallstindurinn sem Gauti nær en hann fór tind á Island Peak í Himalajafjöllum í nóvember í fyrra. Hann stendur í 6.200 metra hæð yfir sjávarmáli. En hvernig var þessi ferð í samanburði við Island Peak? „Persónulega fannst mér þessi ferð léttari. Ég er kominn í miklu betra form og við höfðum miklu lengri tíma til að aðlagast. Síðan var ég með betri búnað,“ sagði Gauti í samtali við blaðamann. 

Hann segir að Island Peak ferðin hafi undirbúið hann vel fyrir ferðina, en hann undirbjó sig einnig vel fyrir þá ferð. Hann fer þrisvar sinnum í viku í ræktina og fer á Esjuna einu sinni til tvisvar í viku. Hann er einnig í fjallahóp Tinda Travel og gengur reglulega með þeim. 

Stefnan sett á tindana sjö

Gauti verður sextán ára síðar á árinu. Hann útskrifaðist úr grunnskólanum Nú í Hafnarfirði í vor og heldur til Granada á Spáni í skiptinám í haust. Hann hefur þó ekki fengið sig fullsaddan af fjallstindum og stefnir á að komast á „tindana sjö“ á næstu tíu árum. Tindarnir sjö eru hæstu fjöll í hverri heimsálfu, og er hann því búinn með einn sjöunda af markmiði sínu, þar sem Elbrus er hæsti tindur Evrópu. 

„Á næsta ári stefni ég á Kilimanjaro, hæsta tind Afríku, eða Aconcagua, hæsta tind Suður-Ameríku,“ segir Gauti. Pabbi hans ætlar að fylgja honum í þær ferðir, en hann gerir ekki ráð fyrir að hann fari með honum til Suðurskautslandsins. 

Horft á tindinn.
Horft á tindinn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert