15 ára á toppinn eftir ársþjálfun

Gauti varð yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak.
Gauti varð yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak. Ljósmynd/Aðsend

Hinn fimmtán ára gamli Gauti Steinþórsson gerði sér lítið fyrir í síðasta mánuði og varð yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak, 6.200 metra háan tind í Himalajafjöllum, eftir skyndihugdettu og ársundirbúning.

„Þetta var æðisleg ferð. Við vorum sex saman í hóp og með leiðsögumann með okkur sem hafði farið tvisvar upp á Everest og 58 sinnum á Island Peak,“ segir Gauti í samtali við mbl.is, en hann kleif tindinn meðal annarra ásamt föður sínum, Steinþóri Val Ólafssyni, og Vilborgu Örnu Gissurardóttur, pólfara og eiganda ferðaskrifstofunnar Tindar Travel.

Aðspurður segist hann aðeins hafa fengið áhuga á fjallgöngum síðastliðið sumar þegar faðir hans hringdi í hann og spurði hann hvort hann vildi fylgja sér í grunnbúðirnar. „Síðan æfðum við okkur bara í eitt ár. Ég hafði aldrei haft mikinn áhuga á þessu, ég hafði lítið sem ekkert gengið. Þetta var bara óvænt.“

Gangan tók á líkamlega og andlega.
Gangan tók á líkamlega og andlega. Ljósmynd/Aðsend

Gauti og Steinþór gengu á Esjuna tvisvar í viku og fóru í lengri göngur um helgar, auk þess sem þeir stunduðu hefðbundna líkamsrækt. „Svo fórum við á Sólheimajökul að æfa okkur í ísklifri og á öndunaræfingar hjá Tindar Travel,“ útskýrir Gauti. Eins og áður segir ætlaði hann upphaflega bara að fylgja hópnum í grunnbúðirnar, en svo spurði faðir hans hann hvort hann vildi fara alla leið á tindinn. „Og ég sagði bara já.“

Að sögn Gauta er faðir hans mikill fjallgöngumaður og búinn að ganga á fjöll síðan hann var ungur. „Pabbi er búinn að vera að labba síðan hann var smákrakki. Hann hefur haft áhuga á Everest mjög lengi. Ég man eftir mér sem krakki, sitjandi uppi í rúmi með pabba að horfa á heimildarmyndir um Everest. Hann langaði svo að fara og það varð að veruleika núna í ár.“

Ferðin hófst í október og tók þrjár vikur í heildina. „Við vorum í viku í Indlandi, tvo daga í Katmandú, átta daga að labba upp í grunnbúðir Everest og um fjóra daga upp á Island Peak.“

Gangan upp á tindinn sjálfan, Island Peak, tók um þrettán klukkustundir, upp og til baka í búðirnar. Hópurinn vaknaði klukkan 23 um kvöldið og toppaði klukkan átta um morguninn.

„Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu og tók hrikalega á, bæði líkamlega og andlega,“ segir Gauti. „En það var stórkostlegt að vita að ég gæti þetta. Það hélt mér gangandi að ég yrði yngsti Íslendingurinn til að ná þessum toppi.“

Hópurinn á toppi Island Peak.
Hópurinn á toppi Island Peak. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is