Kom fyrr heim frá Ekvador vegna ástandsins

Stefanía Ásta Karlsdóttir er komin heim frá Ekvador.
Stefanía Ásta Karlsdóttir er komin heim frá Ekvador. Ljósmynd/Aðsend

Stefanía Ásta Karlsdóttir er nýkomin heim frá Ekvador þar sem hún hafði dvalið síðan í byrjun mars. Í Ekvador dvaldi Stefanía langt inni í Amazon-regnskóginum þar sem hún vann með sjálfboðaliðasamtökunum Merazonia. 

Stefanía segir að það hafi ekki staðið til að koma svona snemma heim frá Ekvador en þar sem ástandið hafi versnað töluvert á meðan hún dvaldist hið ytra hafi hún ákvað að halda heim. 

Merazonia-samtökin hjálpa veikum og særðum dýrum í Amazon-frumskóginum.
Merazonia-samtökin hjálpa veikum og særðum dýrum í Amazon-frumskóginum. Ljósmynd/Aðsend

Í frumskóginum er lítið sem ekkert rafmagn og ekki vatnsklósett. „Mjög frumstæðar aðstæður og það tók smá tíma að venjast þessu. Það var ekkert net og ekkert símasamband. Mér fannst þetta frábært, þetta hentaði mér mjög vel,“ segir Stefanía og bætir við að það hafi verið gott að aftengjast öllu sem maður er vanur. 

Sjálfboðaliðasamtökin Merazonia vinna að velferð dýra í skóginum og taka á móti særðum og veikum dýrum. Þau hjálpa svo dýrunum að ná fullri heilsu og sleppa þeim út í náttúruna á ný. Samtökin eru sjálfstæð samtök og fá ekki styrk frá ríkinu. 

Tæplega 30 sjálfboðaliðar voru að störfum þegar Stefanía kom út …
Tæplega 30 sjálfboðaliðar voru að störfum þegar Stefanía kom út en þegar hún fór voru bara 8-10 eftir. Ljósmynd/Aðsend
Mörgum dýranna er rænt úr skóginum og þau seld sem …
Mörgum dýranna er rænt úr skóginum og þau seld sem gæludýr. Ljósmynd/Aðsend

„Mörgum af þessum dýrum var rænt úr skóginum og eru seld sem gæludýr. Þeim er líka smyglað til Asíu og Evrópu frá Suður-Ameríku. Þau drepast flest á leiðinni en stundum nær ráðuneytið að stoppa þetta, þá koma þau til okkar,“ segir Stefanía. 

Þegar Stefanía kom út voru tæplega 30 sjálfboðaliðar á vegum samtakanna í frumskóginum en þegar hún yfirgaf þau um miðjan maí voru aðeins 8 til 10 sjálfboðaliðar eftir. 

„Það er mikið áhyggjuefni, ekki bara því það vantar mannskap til að sjá um dýrin heldur líka vegna þess að gjöld sjálfboðaliðanna fara beint í matar- og lyfjainnkaup fyrir dýrin,“ segir Stefanía. 

Ljósmynd/Aðsend

Strangt útgöngubann er í gildi í Ekvador að sögn Stefaníu og aðeins hægt að fara út að keyra einu sinni í viku með sérstöku leyfi. „Til þess að komast inn í matvörubúðir þarf bæði að vera með hanska og grímur og bíða verður í röð. Þegar maður svo loksins kemst inn er maður sprittaður frá toppi til táar, hitinn mældur og tekið á móti manni af fólki í eins konar geimbúningi,“ segir Stefanía. 

Stefaníu er umhugað um samtökin sem hún vann fyrir og hvetur fólk til að styrkja þau, en ólíklegt er að þau geti tekið á móti sjálfboðaliðum aftur á þessu ári. Hægt er að styrkja Merazonia samtökin hér

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka