Rétt sluppu heim frá Taílandi

Laufey Sif á ferðalagi með strákunum sínum.
Laufey Sif á ferðalagi með strákunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Laufey Sif Lárusdóttir er athafnakona sem elskar að ferðast. Hún á og rekur Ölverk Pizza og brugghús í Hveragerði ásamt manninum sínum Elvari Þrastarsyni. Laufeyju dreymir um að sjá meira af hálendi Íslands og leggur áherslu á að taka góða skapið með í öll frí sem og æðruleysi gagnvart hinu íslenska sumarveðri.

Minnstu mátti muna um að kórónuveiran hefði áhrif á ferðalög fjölskyldunnar. „Við upphaf kórónuveirunnar vorum ég, Elvar og drengirnir okkar tveir stödd saman á ferðalagi um Taíland, alveg yndislegt ferðalag sem var skipulagt næstum eitt ár fram í tímann. Við rétt sluppum heim áður en allur heimurinn fór á hliðina en í lok janúar/byrjun febrúar voru fyrstu smitin að greinast í Taílandi. Það var mikill titringur í samfélaginu og þá sérstaklega í garð þeirra ferðamanna sem ekki fóru eftir tilmælum stjórnvalda um notkun á grímum og svo framvegis,“ segir Laufey.

Fjölskyldan í Taílandi.
Fjölskyldan í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend

Stefnan tekin á Vestfirði í sumar

„Verandi veitingahúsaeigandi þá er ekki mikið svigrúm fyrir hefðbundið nokkurra vikna sumarfrí í júlí en við fjölskyldan ætlum nú samt að reyna að komast frá eins og eina viku einhvern tímann í sumar og verður þá stefnan væntanlega tekin á Vestfirðina en þangað hef ég ekki komið í hátt í tíu ár. Það hefur ekki margt annað verið skipulagt en ég mun gera mitt besta til þess að skapa tíma svo ég geti átt sem flestar gæðastundirnar með fjölskyldu og vinum,“ segir Laufey um ferðasumarið fram undan.

Laufey hefur líka miklar mætur á Austurlandi. „Fyrir utan Hveragerði og mitt nærsvæði þá finnst mér alltaf yndislegt að koma á Austurland en þar er allt til alls fyrir hið fullkomna frí. Veðursæld, falleg náttúra og stuttar vegalengdir milli bæjafélaga sem öll hafa eitthvað spennandi upp á að bjóða.“

Fjölskyldan mun ferðast um landið í sumar.
Fjölskyldan mun ferðast um landið í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Forvitið ferðakameljón 

Aðspurð um hvernig ferðatýpa hún sé segist hún hafa mikla aðlögunarhæfni. „Ætli ég sé ekki forvitið ferðakameljón ef svo má að orði komast; get lifað á loftinu í heimsreisu við vægast sagt óhefðbundnar aðstæður en svo alveg notið mín í botn í menningar- og sælkeraborgarferðum þar sem ég er fyrir fram búin að skipuleggja allt í þaula. Nú eða bara látið mig líða um vegi landsins í hálfgerðri óvissuferð með tjald eða tjaldvagn í eftirdragi.“

Laufey lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að ferðanesti fjölskyldunnar. „Uppáhaldsferðanesti fjölskyldunnar eru klárlega hinir sívinsælu Ölverk pizzusnúðar en svo veit ég fátt betra en maula á einni heiðarlegri túnfisk- eða rækjusamloku með kókómjólk eða Pepsi-Max úti í einhverjum vegkanti. Það er samt svo nauðsynlegt að hafa líka alltaf alls kyns osta, vínber, sultur og kex með í matarkassanum.“

„Þá er nauðsynlegt að taka góða skapið og skemmtilega ferðafélaga með í ferðalagið. Svo ekki sé minnst á ævintýragirni og æðruleysi gagnvart hinu íslenska sumarveðri,“ segir Laufey sem leggur einnig áherslu á að fólk taki með sér ferðahandbók. „Það verður afar þreytt að vera alltaf límdur við símann. Þá má ekki gleyma lopapeysu og íslenskum handverksbjór og umfram allt þakklæti og virðingu fyrir þessu stórkostlega landi okkar.

mbl.is