Settu þér heilsumarkmið í sólinni á nýju ári

Karitas María Lárusdóttir þjálfari í World Class er lærður einkaþjálfari …
Karitas María Lárusdóttir þjálfari í World Class er lærður einkaþjálfari frá ISSA, International Sports Sciences Association. mbl.is/Arnþór Birkisson

Karitas María Lárusdóttir þjálfari í World Class er lærður einkaþjálfari frá ISSA, International Sports Sciences Association. Hún er einnig menntaður viðskiptafræðingur og hefur starfað sem hóptímakennari í 12 ár og þjálfað í mörg ár meðfram því. 

Karitas kann að ferðast með stíl og að gera hreyfingu hluta af ferðalaginu. Hún er gift Gylfa Einarssyni og eiga þau fjögur börn saman.

Hún er vinsæll þjálfari í World Class þar sem hún kennir meðal annars opna hóptíma en einnig lokuð pílates- og barre-námskeið. Hún er einnig með homefit-heimaþjálfun fyrir einstaklinga sem vilja fá þrjár æfingar á viku beint heim í stofu, sem hægt er að nálgast hvenær sem er.

Karitas veit fátt skemmtilegra en að hreyfa sig og ferðast.
Karitas veit fátt skemmtilegra en að hreyfa sig og ferðast. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þegar ferðalög eru annars vegar mælir Karitas með stuttum borgarferðum eða lengri heilsuferðum þar sem markmið eru sett og mataræði og hreyfing skoðuð ofan í kjölinn. 

„Ég kann að meta styttri borgarferðir og þykir mér allra skemmtilegast að leigja hjól og hjóla um borgirnar sem ég fer til. Það er auðveld leið til að kynnast umhverfinu. Flestar borgir bjóða upp á hjól sem maður getur leigt og skilað af sér um víðan völl. Þá getur maður hoppað milli veitingastaða, kíkt í búðir eða hvað sem maður hefur áhuga á að gera,“ segir hún. 

Uppáhaldsborgirnar hennar eru London, Boston og New York í Bandaríkjunum og síðan Nice í Frakklandi og Köln í Þýskalandi.  

„Nice er líklega sú borg sem mér þykir skemmtilegast að heimsækja. Í framtíðinni langar mig að vera dugleg að ferðast og reyna að sjá sem mest af heiminum.“

Hvað er gaman að gera í Nice?

„Nice er einstaklega falleg borg. Þar eru fallegar strendur, flottar búðir, góður matur og svo hef ég alltaf fengið gott veður sem skemmir ekki ánægjuna. 

Mér finnst gaman að fara út að hlaupa og hjóla um borgina. Í miðbænum er mikið af skemmtilegum veitingahúsum, flottir leikvellir fyrir börn og gosbrunnar þar sem litla stráknum mínum fannst æðislegt að hlaupa um og kæla sig. 

Svo er alltaf gott að setjast við sundlaugarbakkann og sóla sig.“ 

Að hvíla sig á milli hreyfinga er mikilvægt að mati …
Að hvíla sig á milli hreyfinga er mikilvægt að mati Karitas. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvaða ferðalag í fortíðinni var hvað skemmtilegast?

„Það var ótrúlega gaman að fara á landsleik Íslands og Englands á EM árið 2016 þar sem Ísland vann 2-1. Stemningin er nokkuð sem ég mun aldrei gleyma. Þetta var einstök ferð og ótrúlega gaman að sjá hvað þjóðin sameinaðist í góðu gengi liðsins.“

Hvað gera skipulagðar borgarferðir fyrir fólk?

„Skipulagðar borgarferðir gefa þér tækifæri á að kynnast borginni á allt annan hátt en ef þú værir að ferðast ein eða einn. Í skipulögðum ferðum kynnist maður oft skemmtilegu fólki líka.“

Karitas er fararstjóri í spennandi nýársheilsuferð til Tenerife á vegum Úrvals-Útsýnar í upphafi næsta árs. Í ferðinni mun hún bjóða upp á skemmtilegar æfingar sem henta jafnt byrjendum og þeim sem lengra eru komnir í heilsurækt. Boðið verður upp á pílatestíma á morgnana, skemmtilegar hjólaferðir, göngur, tabatakeyrslu og liðkandi æfingar fyrir þá sem hafa áhuga á að fara í golf.

„Ferðin hefst 5. janúar á næsta ári. Ég mun afhenda bækling þar sem settar eru fram hugmyndir að vikumatseðli og skemmtilegu millimáli og fleiri hugmyndum sem færa okkur nær heilbrigðum lífsstíl í byrjun heilsuársins.“

Gylfi og Karitas hafa verið dugleg að ferðast saman í …
Gylfi og Karitas hafa verið dugleg að ferðast saman í gegnum árin.
Karitas kann vel við sig í sólinni og veit fátt …
Karitas kann vel við sig í sólinni og veit fátt skemmtilegra en að ferðast til Nice í Frakklandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert