Birta starfar hjá BBC í London

Birta ásamt dóttur sinni Ragnhildi Eddu fyrir framan höfuðstöðvar BBC …
Birta ásamt dóttur sinni Ragnhildi Eddu fyrir framan höfuðstöðvar BBC í London þar sem hún starfar. Ljósmynd/Aðsend

Birta Sigmundsdóttir starfar sem framleiðslustjóri í Output Operations á BBC News. Hún flutti til Bretlands fyrir fimm árum með kærasta sínum og dóttur þeirra sem þá var tveggja ára, til að stunda meistaranám við London School of Economics.

Upphaflega ætluðu þau bara að búa London í eitt ár á meðan hún kláraði námið, en þar eru þau, fimm árum seinna, og einhvern veginn ekkert á leiðinni heim.

„Við höfum í raun aldrei tekið umræðuna um hversu lengi við ætlum að búa hérna eða hvenær við flytjum nú aftur heim – það er bara svo ótrúlega gott að vera hérna svo maður hefur einhvern veginn ílengst án þess að átta sig á því,“ segir Birta.

Hvað heillaði þig við London þegar þú fluttir þangað?

„Klárlega fólkið og menningin, eins klisjulega og það hljómar. Það er ofsalega gott að vera í London, svo afslappað andrúmsloft þrátt fyrir að vera fjölmenn borg og við elskum að geta hoppað upp í lest sem fer með okkur hvert sem er. Ég fór í helgarferð til London fyrir tíu árum með vinkonu minni og ég man hvað okkur fannst London stór og flókin borg. Eftir langa verslunardaga hugsaði ég með mér að ég gæti aldrei hugsað mér að búa hérna.

Núna hef ég áttað mig á því að þú þarft bara að læra aðeins á borgina, uppgötva önnur hverfi, læra á lestarkerfið og þá lærirðu að meta borgina betur. Lestarkerfið utan London er líka frábært og mikið frelsi að geta hoppað upp í lest og farið í dagsferð til til dæmis Brighton, Oxford eða Cambridge. Mýtan um að það sé alltaf rigning og vont veður í Bretlandi er líka bara ekkert alltaf sönn. Veturnir hafa verið frekar mildir og sumrin frábær – og það heillar auðvitað litla Íslendinginn í manni.“

Ragnhildur Edda fær að stjórna för um helgar.
Ragnhildur Edda fær að stjórna för um helgar. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?

„Svo mörg. Í Greenwich, sem er sunnan Thames, líður okkur líklega best og við eyðum heilu dögunum þar um helgar. Íslenskir vinir okkar búa þar og grínast mikið með að við séum þar meira en þau - það er bara svo afslappað umhverfi, sérstaklega fyrir barnafólk, og mikill fílingur, góðir matarmarkaðir, frábær almenningsgarður og sturlað útsýni yfir London. Hvað fleira geturðu beðið um?

Annars elskum við að labba um Shoreditch og South Bank, labba upp á Primrose Hill við Camden-markaðinn og labba um Victoria Park. Ég vinn við Oxford Street og reyni því að forðast að eyða frídögunum þar í kring eða á öðrum fjölmennum túristastöðum; ég held að því lengur sem fólk býr í London því meira dragi úr áhuga þess á því að vera á þessum stöðum sem borgin er þekkt fyrir, því borgin hefur upp á svo miklu meira að bjóða.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Það er ótrúlegur fjöldi af góðum veitingastöðum í London og erfitt að velja bara einn. En sá fyrsti sem kemur í hugann er Ping Pong, sem er asískur staður sem á hug okkar og hjarta. Dimsum, asískt fusion og klikkuð stemning. Mæli með fyrir alla sem eru á leiðinni til London. Annars erum við ofsalega hrifin af matarmörkuðum, sem eru mjög vinsælir í London og okkur finnst dásamlegt að rölta um í rólegheitunum og smakka eitthvað nýtt.“

Birta, Edda og Daníel
Birta, Edda og Daníel Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er að ala upp barn í stórborg?

„Það er í raun ekkert mál. Börn aðlagast svo hratt og Ragnhildur Edda, sem er bara kölluð Edda hérna úti, þekkir í raun ekkert annað. Það er samt skrítið að hugsa til þess að hún sé núna búin að búa lengur í Bretlandi en á Íslandi. Við búum austur af London og þar eru ofsalega góðir skólar. Hún á mjög góða vini þar og líður mjög vel. Ég væri samt að ljúga ef ég segði að það væri ekki erfitt að hafa ekkert bakland hérna úti, sérstaklega í Covid þegar við við vorum bundin heima flest kvöld og fórum lítið út. En við höfum bara alltaf látið hlutina ganga og það hefur í raun aldrei haft áhrif á okkur. Ég held við séum mögulega orðin of vön því að vera bara við þrjú og líður oftast best þannig.

Um helgar erum við samt mjög dugleg að hitta vini okkar sem búa út um alla London og eiga þau flest öll börn þannig að það er alltaf nóg um að vera. Við höfum tileinkað okkur hinn svokallaða bíllausa lífsstíl og myndum ekki vilja hafa það öðruvísi. Helgarnar okkar byrja yfirleitt á því að hoppa upp í lest og Edda fær oftast að ráða hvar við endum. Við löbbum líka mjög mikið og það hjálpar hvað það er mikið af stórum almenningsgörðum sem heilla börn sem og fullorðna.“

Mæðgur í sól og blíðu.
Mæðgur í sól og blíðu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi upplifun í London?

„Það fyrsta sem mér dettur í hug eru öll grænu svæðin þar sem er útsýni yfir London. Primrose Hill, Greenwich Park og Hampstead Heath eru allt frábærir garðar og með ólíkt útsýni yfir London. Við höfum líka mjög gaman af Uber Boats, sem siglir upp og niður Thames og virkar í raun eins og neðanjarðarlestin, stoppar reglulega svo þú getur hoppað út hvar sem er. Öðruvísi upplifun á London og gott stundum að sleppa við lestina. Það eru líka ótrúlega mörg skemmtileg söfn í London, eins og Natural History Museum, sem eru ókeypis og fullkomin fyrir barnafólk og svo eru sýningar eins og Lion King sem ættu að vera skilyrði fyrir alla sem koma í heimsókn – því þær eru á allt öðrum mælikvarða en ég hef upplifað áður.“

Hvernig er draumadagurinn með vinum í London?

„Í góðu veðri þarf það ekki að vera flóknara en skemmtilegur almenningsgarður, teppi og góður matur. Rölta saman um skemmtileg hverfi og markaði og enda á klassískum breskum pöbb í Sunday Roast, sem er mjög vinsælt hjá Bretum á sunnudögum.“

Það á það til að rigna í London en það …
Það á það til að rigna í London en það stoppar ekki þær mæðgur í að eiga góða upplifun í borginni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is