„Annars er sjórinn langbesta sundlaugin“

Handboltamaðurinn og leikarinn, Blær Hinriksson, ætlar að ferðast bæði innan- …
Handboltamaðurinn og leikarinn, Blær Hinriksson, ætlar að ferðast bæði innan- og utanlands í sumar.

Handboltamanninum og leikaranum Blæ Hinrikssyni er margt til listanna lagt. Hann spilar handbolta með Aftureldingu, hefur hlotið Edduverðlaunin sem leikari í aðalhlutverki ásamt nokkrum alþjóðlegum verðlaunum fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Hjartasteinn, leikið í þó nokkrum stuttmyndum, þáttum og auglýsingum auk þess að sinna fyrirsætustörfum. 

Það er því nóg um að vera hjá Blæ, en hann hefur einnig verulega gaman að því að ferðast, skoða heiminn og kynnast nýju fólki í öðrum menningarheimum. Í sumar ætlar hann að ferðast bæði innanlands og erlendis, stunda fjölbreytta útivist og fara í mörg brúðkaup!

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í sumar verð ég að mestu leyti hérna á Íslandi að undirbúa næsta handboltatímabil og fer að öllum líkindum í einhverjar útilegur innanlands. Ég er með tvær utanlandsferðir planaðar en aldrei að vita að þær verði fleiri. 

Ég fer til Köln í Þýskalandi á úrslitahelgi meistaradeildarinnar í handbolta og fer síðan til Svíþjóðar í lok sumar. Einnig er ég að fara í MÖRG brúðkaup þetta sumar sem ég get ekki beðið eftir.“

Blær er með tvær utanlandsferðir planaðar í sumar, annars vegar …
Blær er með tvær utanlandsferðir planaðar í sumar, annars vegar til Þýskalands og hins vegar til Svíþjóðar.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi á sumrin?

„Ég myndi segja að Borgarfjörður eystri sé einn af mínum uppáhaldsstöðum þar sem ég bjó þar nánast heilt sumar við tökur á kvikmyndinni Hjartasteinn. Svo er Rauðisandur einnig í miklu uppáhaldi þar sem ég á ættir mína að rekja þangað.“

Borgarfjörður eystri er í mestu uppáhaldi hjá Blæ enda eyddi …
Borgarfjörður eystri er í mestu uppáhaldi hjá Blæ enda eyddi hann heilu sumri þar við tökur.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Ég hef farið í mörg eftirminnileg ferðalög og erfitt að velja eitthvað eitt. En fyrsta sem mér dettur í hug er ferðalag sem ég fór í síðasta sumar þar sem ég og fjölskyldan mín ferðuðumst um Króatíu og fórum svo til Sarajevo í Bosníu á kvikmyndahátíð.“

Ætlar þú að stunda einhverja útivist í sumar?

„Ég fer mikið í sund og sjósund, hjóla og fer annars slagið í fjallgöngur.“

Magnað útsýni í Þórmörk síðasta sumar.
Magnað útsýni í Þórmörk síðasta sumar.

Hvað er það besta við íslenskt sumar?

„Það besta við íslenska sumarið er hvað allt ljómar. Náttúran, birtan, sólin þegar hún lætur sjá sig, útilegur, ferðalög og lyktin af nýslegnu grasi.“

En versta?

„Það versta við sumarið eru mýflugnabitin ...“

Það er margt sem heillar Blæ við íslenska sumarið.
Það er margt sem heillar Blæ við íslenska sumarið.

Hverju má alls ekki gleyma í ferðalagið?

„Góðum hátalara.“

Hvar er besta sundlaugin á landinu?

„Salalaug og Lágafellslaug. Annars er sjórinn langbesta sundlaugin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert