Sýrustillar á meðgöngu geta valdið astma hjá börnum

Óléttan er ekki alltaf dans á rósum. Bakflæði getur gert …
Óléttan er ekki alltaf dans á rósum. Bakflæði getur gert konum erfitt fyrir og nú benda rannsóknir til fylgni milli notkunar sýrustilla og astma hjá börnum síðar á ævinni.

Mikil er mæði kvenna á meðgöngu. Margar konur þjást af bakflæði, sumar jafnvel strax á fyrstu mánuðum meðgöngunnar, og fleiri finna fyrir því eftir því sem tíminn líður, kúlan stækkar og plássið minnkar í maganum. Sumar eiga erfitt með svefn og verða að sofa hálfuppréttar eða jafnvel sitjandi þegar ástandið er sem verst.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sýna fram á að notkun sýrubindandi lyfja á meðgöngu er talin geta tengst astma hjá börnum. Óskemmtilegar fréttir fyrir óléttar konur því nógu er bakflæðið eitt og sér erfitt viðureignar. Rannsóknargögn úr átta aðskildum rannsóknum voru borin saman og samkvæmt niðurstöðunum, sem birtar voru í tímaritinu Pediatrics, aukast líkur á astma í börnum um 34% þegar notuð eru sýruhemjandi lyf og um 57 % þegar notuð eru anti-histamín sem stjórna sýrupumpunni í maganum (e.histamine-2 receptor antagonists). Fyrir utan það orsakasamband sem þarna var greint eru ofangreind lyf almennt talin örugg til að meðhöndla bakflæði á meðgöngu og eru almennt ekki lyfseðilsskyld. Í rannsókninni voru erfðir, sem og umhverfis- og heilsufarslegir þættir móður, útilokaðar, allt þættir sem gætu haft áhrif á orsakasambandið.

Dr. Huahao Shen, prófessor við Zhejiang-háskólann í Hangzhou í Kína, sem er einn höfunda greinarinnar, sagði frekari klínískra rannsókna þörf áður en ástæða væri til að gefa út sérstök tilmæli um notkun sýrustillandi lyfja á meðgöngu. Hins vegar bætti hann við að upplýsingar rannsóknarinnar geti hjálpað læknum og verðandi foreldrum að gæta varúðar vegna lyfjatöku sýrustilla á meðgöngu vegna aukinnar hættu á astma hjá barni í móðurkviði.

Hér má finna greinina í tímaritinu Pedriatics.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert