Svona gerir þú fæðingaráætlun

Fæðingaráætlanir geta aðstoðað foreldra í samræma vilja þeirra og væntingar.
Fæðingaráætlanir geta aðstoðað foreldra í samræma vilja þeirra og væntingar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjölskyldan á mbl hafði samband við Tobbu Marinós, einn höfunda Gleðilegrar fæðingar, og fékk upplýsingar hjá henni um hvernig útbúa skuli fæðingaráætlun en greinargóða lýsingu á því er að finna í bókinni. 

„Sífellt fleiri foreldrar undirbúa sig með því að skrifa saman lista yfir þær óskir sem þeir hafa um fæðinguna. Slíkur listi hjálpar starfsfólki fæðingardeildar að gera sér grein fyrir vilja og þörfum foreldranna en hafa þarf í huga að óskalisti er aðeins það: óskalisti. Stundum þróast fæðingin á þann veg að ekki er unnt að fara í öllu eftir óskum ykkar, til dæmis ef heilbrigði móður eða barns er ógnað.

Fæðing er öflugt ferli sem getur breyst fyrirvaralaust. Því upplýstari sem þú ert þeim mun betur mun þér líða. Dæmi eru um að konur upplifi mikla sektarkennd og finnist þær missa stjórn á aðstæðum þegar fæðing þróast á annan veg en þær sáu fyrir sér. Því er mikilvægt að kynna sér aðra möguleika en þú setur á óskalistann og vera opin fyrir breytingum.

Áður en þú skrifar listann getur verið gott að setjast niður og hugsa til dæmis: Hvernig er draumafæðingin mín? Vil ég hafa aðgang að sturtu eða heitum potti? Hvað er það sem ég get haft áhrif á? Er einhver hluti fæðingarinnar sem veldur mér kvíða og ég þyrfti að ræða sérstaklega við fagfólk? Höfum við foreldrarnir sömu óskir og væntingar.

Dæmi úr bókinni Gleðilega fæðingu.
Dæmi úr bókinni Gleðilega fæðingu. mbl.is/Aðsend

Dæmi um atriði sem gætu komið fram á óskalista eru: tónlist, slökunarleiðir, fæðing í vatni, deyfingarmöguleikar, hver á að klippa á naflastrenginn, fæðingarstelling, hver á að fylgja móður á skurðstofu ef fæðing verður með keisaraskurði og hver skuli annast barnið á meðan móðirin jafnar sig. Að gera óskalista saman veitir verðandi foreldrum tækifæri til að ræða málin og samræma óskir sínar. Gott er að ræða listann við ljósmóður í meðgönguvernd og kynna hann svo fyrir starfsfólki fæðingardeildar þegar þangað er komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert