Er barnið þitt grænmetisgikkur?

Hvernig komum við grænmeti ofan í litla grænmetisgikki?
Hvernig komum við grænmeti ofan í litla grænmetisgikki?

Margir foreldrar kannast við að erfitt sé að fá barn til að borða grænmeti. Sumir foreldrar fullyrða jafnvel að barnið borði ekki grænmeti og þar með er málið útrætt. Víða á veitingastöðum virðist það vera almenn staðreynd að börn borði ekki grænmeti því það litla grænmeti sem sett er t.d. á hamborgara er einfaldlega tekið af, án þess að spyrja barnið hvað það vilji sjálft. Og sennilega eru vinsælustu pítsurnar margaríta pítsur sem eru eingöngu með osti, alla vega fyrir yngstu pítsuæturnar.

En foreldrar vilja almennt að börnin þeirra borði sem mest af hollum mat og þar trónir grænmeti óneitanlega í fyrsta sæti. En hvernig komum við grænmeti ofan í litla grænmetisgikki? Hér eru nokkur ráð:

  • Borðar barnið eitthvað grænmeti? Til dæmis gulrætur, agúrkur eða paprikur? Keyptu þá mikið af gulrótum, paprikum og agúrkum! Matarsmekkur barna breytist með aldrinum, við sem fullorðin erum ættum flest að geta munað eftir mat sem við höfðum óbeit á sem börn en finnst ágætur í dag. Aðalmálið er að kenna barninu að borða alltaf grænmeti með máltíðum. Að gott sé að borða mest af því sem vex og minna af því sem er framleitt. 

  • Dósagrænmeti er vissulega framleitt en samt grænmeti. Það er vel mögulegt að barn vilji alls ekki heilnæmar frosnar og snöggsoðnar grænar baunir en hámi í sig ORA baunir. Eða borði „gular baunir“ (maís) úr dós. Eða jafnvel pikklaðar  gúrkur og fleira verkað grænmeti. Ferskt er best en niðursoðið er næstbest. Ef það er eitt af fáum tegundum grænmetis sem fer ofan í barnið þá er niðursoðið grænmeti besti kosturinn.

  • Ef barnið borðar ekkert grænmeti og aldrei og foreldri vill breyta því er ráð að venja það á að borða ávexti sem eru ekki mjög sætir með kvöldmatnum þannig það venjist á að borða eitthvað ferskt með hverri máltíð. Síðar getur verið mögulegt að uppfæra ávexti í grænmeti. Dæmi um ávexti sem eru ekki mjög sætir eru t.d. græn epli, vatnsmelónur, perur og fleira.
    Það getur verið skemmtilegt að leika sér stundum með matinn. …
    Það getur verið skemmtilegt að leika sér stundum með matinn. Mikilvægast er að barnið fái jákvæða tengingu við grænmeti ef erfitt er að fá barnið til að borða það.
  • Blandaðu grænmeti í kvöldmatinn með töfrasprota þegar við á svo sem í ýmsum pastasósum, súpum, hrísgrjónaréttum og pottréttum. Fínt mauk er málið, allir grænmetisbitar eru líklegir til að lenda í ruslinu.

  • Vertu góð fyrirmynd og borðaðu sjálf/ur alltaf grænmeti með matnum. Þannig skynjar barnið að það sé góð venja og líklegt er að það muni venja sig á grænmetisát smám saman. Hrósaðu líka grænmetinu í hástert sem þú borðar og kjamsaðu á því. Sérstaklega því grænmeti sem er líklegt til að falla börnum í geð.

  • Gerðu grænmetið skemmtilegt og aðgengilegt. Ef barnið þitt er ekkert sérlega hrifið af grænmeti getur þú vel verið að það raði samt upp í sig gulrótarstönglum yfir sjónvarpinu meðan beðið er eftir kvöldmatnum. Einfaldlega af því það er sett fyrir framan það og það er gaman að bryðja þær. Sumum börnum finnst hummus eða ýmiskonar ídýfur vera góðar, jafnvel skyr. Af hverju ekki? Þó ídýfur séu mishollar þá helgar meðalið tilganginn. Þar að auki er skyr og hummus er prýðisfæða fyrir börn með grænmetinu.

  • Umbunakerfi, til dæmis í formi límmiða, gæti virkað fyrir sum börn. Límmiðar fyrir þau skipti sem grænmeti er borðað og aukalímmiðar þegar smakkað er á nýjum tegundum. „Alltaf að smakka“ grunnreglan er klassísk, regla sem mörg okkar sem fullorðin eru lærðu í æsku.

  • Rannsókn meðal skólabarna í Bandaríkjunum hefur sýnt að ef maturinn sem er borinn fram er ekkert óskaplega spennandi í augum barnsins að þá er líklegra að það borði grænmeti frekar en barnið fær uppáhaldsmatinn sinn. Agúrkur með til dæmis pottrétti sem barnið er mátulega hrifið af eru eru líklegri til að hverfa ofan í magann heldur en gúrkustangir sem barnið fær samhliða uppáhaldsmatnum sínum. 

  • Að lokum, börn eru almennt hrifnust af grænmeti sem er ekki beiskt eða bragðmikið en kunna oft vel að meta grænmeti sem er svolítið sætt eins og ferskar gulrætur og paprikur eða hlutlaust eins og til dæmis agúrkur og blómkál. Hinsvegar er algengara að þau vilji ekki salöt, lauka, sellerí, kryddjurtir eða annað bragðmikið grænmeti þó  það sé auðvitað allur gangur á þessu. Aðalmálið er að þau fái það grænmeti sem þau kunna að meta og læri að borða eitthvað ferskt með hverri máltíð. Grænmetisát lærist eins og allt annað.


Grein þessi byggir á umfjöllun um sambærilegt efni í Foreldrahandbókinni,  Washington Post  og persónulegri reynslu blaðakonu Fjölskyldunnar af að koma grænmeti ofan í fimm grænmetisgikki gegnum árin. 

Er gulrót eina grænmetið sem barnið þitt vill borða? Passaðu …
Er gulrót eina grænmetið sem barnið þitt vill borða? Passaðu þá að eiga alltaf gulrætur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert