Hundar + börn = sönn ást

Að alast upp með gæludýrum hefur jákvæð áhrif á tilfinningagreind …
Að alast upp með gæludýrum hefur jákvæð áhrif á tilfinningagreind barna.

Eftirfarandi grein birtist fyrst á vefmiðlinum hundasamfelagid.is og var þýdd af www.mnn.com af Berglindi Guðbrandsdóttur. 

Gæludýr eru ekki fyrir alla. Sumum finnst óþrifnaður fylgja þeim, sumir hafa ekki tíma til að hugsa um þau og enn aðrir eru einfaldlega ekki hrifnir af dýrum. Margt bendir þó til þess að það að alast upp með gæludýrum hafi einstaklega góð áhrif á börn. Þá sérstaklega með tilliti til tilfinningagreindar (EQ) og þess að geta sýnt öðrum samúð. Eins og margir vita helst greindarvísitala (IQ) óbreytt yfir ævina og því er ekki hægt að hafa áhrif á hana með til dæmis miklum lærdómi. Tilfinningagreind getur hins vegar breyst með árunum. Þannig getur umgengni við dýr aukið tilfinningagreind fólks. Tilfinningagreind er það að vera meðvitaður um eigin tilfinningar, að hafa stjórn á þeim og að geta tjáð þær. Tilfinningagreind snýst einnig um mannleg samskipti; að vera dómbær og samúðarfullur. Margir telja tilfinningagreind vera grunninn að því að ná langt í lífinu.

Það að alast upp með gæludýrum hefur jákvæð áhrif á eftirfarandi eiginleika:

#1: Samúð

Nienke Endenburg og Ben Baarda tóku saman rannsóknir um gæludýr á heimilum barna. Greinin birtist í The Waltham Book of Human-Animal Interaction en í henni segir meðal annars: ,,Ef það er gæludýr á heimilinu deila börn og foreldrar þeirri ábyrgð að hugsa um dýrið. Það hefur í för með sér að ung börn læra að hugsa um dýr sem er algjörlega háð fjölskyldu sinni“. Ung börn geta tekið þátt í ýmsu tengdu gæludýrum, svo sem að gefa þeim að borða. Þriggja ára barn getur tekið bolla af kattamat og helt á gólfið eða í dall. Það er einnig hægt að kenna þriggja ára barni hvernig best er að klappa dýrum, til dæmis með því að nota handabakið svo það klípi ekki í feldinn. Það þarf að hafa strangt eftirlit með ungum börnum sem umgangast dýr og það er mjög mikilvægt svo börnin læri að gera rétt. Með tímanum læra þau hvað er rétt og hvað ekki. Í hvert skipti sem börnin umgangast dýrin læra þau aðeins betur á þessa veru sem er algjörlega upp á þau og fjölskylduna komin.

Eldri börn geta borið ábyrgð á því að þrífa kattakassann eða að gefa kanínum grænmetisafganga eftir kvöldmatinn. Þau geta einnig farið með foreldrum sínum í göngutúr með hund. Rannsókn á 3-6 ára börnum sýndi fram á að börn sem alast upp með dýrum sýna dýrum og öðru fólki meiri samúð. Önnur rannsókn sýndi fram á jákvæð áhrif þess, að hafa gæludýr í kennslustofu, á getu barnanna til að sýna samúð. 

#2: Sjálfstraust

Það að hugsa um gæludýr hefur jákvæð áhrif á sjálfstraust barna. Börnum líður eins og þau hafi áorkað einhverju þegar þau hjálpa til við að hugsa um dýr, til dæmis með því að fylla á vatnsskálina hjá hundinum. Þetta eykur sjálfstæði þeirra og hæfni. Gæludýr geta haft einstaklega góð áhrif á börn sem berjast við lágt sjálfsálit. Rannsókn Endenburg og Baarda sýndi að sjálfstraust mældist töluvært hærra hjá börnum eftir að gæludýr höfði verið í kennslustofum þeirra í níu mánuði. Þau börn sem mældust með hvað mesta aukningu á sjálfstrausti, voru þau börn sem voru með lægstu mælingu á sjálfstrausti í byrjun rannsóknarinnar.

#3: Vitsmunaþroski

Börn sem eiga gæludýr leika við þau, tala við þau og lesa fyrir þau. Rannsókn Endenburg og Baarda sýndi að þessi afslöppuðu samskipti við dýrin auka talþroska og vitsmunaþroska barnanna. ,,Gæludýraeign getur aukið orðaforða og flýtt fyrir talþroska barna. Gæludýrin eru þolinmóð og alltaf til í að hlusta á börnin. Þau eru einnig aðlaðandi hlustandi fyrir börnin þar sem þau hvorki dæma, né leiðrétta“.

#4: Minni kvíði og stress

Í könnunum þar sem börn eru spurð hvert þau leita þegar þeim líður illa, nefna mörg börn dýrin sín. Það gefur til kynna að gæludýr sýni börnum andlegan stuðning auk þess sem þau hjálpa þeim að tjá sig og koma neikvæðum tilfinningum í orð. ,,Andlegur stuðningur gæludýra hefur þó nokkra kosti fram yfir stuðning frá fólki. Gæludýr sýna skilyrðislausan skilning og þau taka manni eins og maður er. Fólk á það til að dæma og gagnrýna“, skrifa Endenburg og Baarda. Gæludýr eru frábærir hlustendur og þau dæma ekki. Ef barni gengur illa á prófi eða gerir foreldri sitt reitt, er gæludýrið alltaf til í að sýna ást og stuðning. 

#5: Skilningur á hringrás lífsins

Endenburg og Baarda halda áfram: ,,Það getur verið erfitt fyrir foreldra að tala um lífið og dauðann við börnin sín. Að læra um hringrás lífsins gegnum gæludýr getur verið auðveldara bæði fyrir börnin og foreldra. Jafn erfitt og það er að missa gæludýr, er það mikilvæg kennsla um lífið sjálft. Það hvernig foreldrar og vinir kljást við dauða gæludýrsins hefur áhrif á það hvernig börn takast á við atburðinn og hvernig þau kljást við það að missa gæludýr, vini og fjölskyldumeðlimi í framtíðinni. Það er mikilvægt fyrir foreldra að ræða tilfinningar sínar opinskátt við barnið. Þannig sýna foreldrar börnunum að það er í lagi að líða illa og að sakna“.

Að auki er hægt að nýta gæludýraeign í að ræða hinn enda lífsins – fæðingu. Þannig er hægt að kenna börnum hvernig dýrin verða til og hvernig þau sjálf urðu til.

Jákvæð áhrif gæludýra á börn ráðast að sjálfsögðu líka af uppbyggingu fjölskyldunnar, fjölda systkina og annarra fullorðinna á heimilinu og einnig af erfðum barnsins. Börn sem eiga fá systkini og börn sem eru yngst í stórum systkinahóp, eru líklegust til að mynda sterk tengsl við gæludýr.

Ef þið sem eruð að lesa þetta kannist við efni þessarar greinar, er það vegna þess að gæludýr hafa einnig jákvæð áhrif á fullorðið fólk. Það hefur til dæmis margsannað sig hversu jákvæð áhrif gæludýr hafa á fólk með félagsraskanir.

Eftirfarandi grein birtist fyrst á vefmiðlinum hundasamfelagid.is og er þýdd af Berglindi Guðbrandsdóttur af www.mnn.com/family/pets. Berglind rekur Hundasetrið; hundaskóla sem býður upp á námskeið, fyrirlestra og einkatíma þar sem einungis er notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert