Rafræn þunglyndis- og kvíðameðferð

mbl.is/thinkstockphotos

Málefni ungs fólks og andleg vanlíðan hafa verið mikið í brennidepli. Einnig hefur mikið verið rætt um skort á úrræðum fyrir unga fólkið okkar.

Ný leið í sálfræðiþjónustu hérlendis hefur verið sett á laggirnar sem er hugræn atferlismeðferð á netinu við einkennum þunglyndis og félagskvíða. „Mín líðan“ er fyrsta fjargeðheilbrigðisþjónustan á Íslandi sem starfar með leyfi frá Embætti landlæknis og veitir nýtt aðgengi að sálfræðimeðferð. Tanja Dögg Björnsdóttir sálfræðingur og annar stofnanda stofunnar Mín líðan segir að rannsóknir hafa sýnt að sálfræðiþjónusta á netinu getur verið árangursrík við að draga úr vægum til miðlungs einkennum þunglyndis og félagskvíða. Meðferð á netinu er algeng á hinum Norðurlöndunum, Ástralíu, Bretlandi og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Slík þjónusta hefur ekki verið í boði við einkennum þunglyndis og félagskvíða hérlendis fyrr en nú. Mín líðan hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði í byrjun árs.

„Meðferðin virkar þannig að maður byrjar á að fara á forsíðu meðferðarinnar og svarar spurningalista um þunglyndis- og kvíðaeinkenni til að athuga hvort að meðferðin henti. Ef að meðferðin hentar getur er hægt að kaupa aðgang að meðferðinni en einnig er hægt að prófa frían kynningartíma, svo að fólk fái betri tilfinningu fyrir hvernig meðferðin virkar. Hver meðferð er samtals 10 meðferðartímar sem hægt er að sinna á sínum hraða. Hver meðferðartími tekur um 30-60 mínútur í yfirferð og er miðað við einn meðferðartíma á viku,“ segir Tanja.

Málefni ungs fólks og andleg vanlíðan hafa verið mikið í …
Málefni ungs fólks og andleg vanlíðan hafa verið mikið í brennidepli, einkum þunglyndi og kvíð meðal ungmenna. mbl.is/thinkstockphotos

- Hvernig virkar þunglyndis- eða kvíðameðferð á netinu?

„Meðferðin samanstendur af geðfræðslu, gagnvirkum æfingum og verkefnum sem skjólstæðingur fær einstaklingsmiðaða endurgjöf á. Skjólstæðingur getur haft samband við sinn sálfræðing hvenær sem er á heimasvæði á netinu. Skjólstæðingur svarar spurningalistum yfir meðferðina svo að hann geti fylgst með hvort að þunglyndis- eða kvíðaeinkenni séu að minnka. Meðferðin er alveg eins uppbyggð og hefðbundin hugræn atferlismeðferð á stofu, en skjólstæðingur á aðeins samskipti við sálfræðing í gegnum vefsíðuna.“

„Farið er gætilega með allar trúnaðarupplýsingar sem gefnar eru upp á vefsíðu meðferðarinnar. Notuð eru sérstök öryggisskírteini sem tryggir að öll samskipti við sálfræðinginn í gegnum vefsíðuna eru dulkóðuð. Enginn hefur aðgang að þínum upplýsingum nema þú og þinn sálfræðingur,“ segir Tanja.

Tanja segir að sálfræðimeðferð á netinu sé ódýrari en hefðbundin meðferð og að hún gefi fleirum tækifæri á að nýta sér sálfræðiþjónustu. Það er enginn biðtími, hægt er að hefja meðferðina strax og hægt að nota meðferðina hvar og hvenær sem er, og þ.a.l. hentar hún fólki sem hefur ekki greiðan aðgang að sálfræðiþjónustu, t.d. vegna búsetu eða óhentugra vinnutíma. Hún er einnig tímasparandi, viðkomandi þarf t.d. ekki að taka frí frá vinnu til að mæta í sálfræðiviðtal og hentar því sérstaklega þeim sem sinna dagvinnu.

Nú er hægt að leita lausna við geðheilbrigðisvanda á netinu …
Nú er hægt að leita lausna við geðheilbrigðisvanda á netinu sem er leið sem gæti hentað sumu ungu fólki mbl.is/thinkstockhphotos

En er meðferð á netinu heppileg fyrir unglinga og ungmenni?

 „Meðferð á netinu hentar breiðum fólki hóps enda þarf skjólstæðingur einungis að hafa aðgang að tölvu, spjaldtölvu eða farsíma til að geta hafið meðferðina en þetta eru allt tæki sem eru ungu fólki einkar töm. Lögð er áhersla á væg til miðlungs einkenni þunglyndis og félagskvíða og með því að gera þeim sem glíma við vægari vandamál kleift að sækja sér hagkvæma meðferð er hægt að fyrirbyggja versnun á einkennum. Mín líðan fékk styrk frá Lýðheilsusjóði til að veita framhaldsskólanemum sálfræðimeðferð þeim að kostnaðarlausu og eru nú þegar nokkrir framhaldsskólanemar í meðferð hjá Minni líðan. Við erum við gríðarlega stolt af því að geta veitt framhaldsskólanemum aðstoð þeim að kostnaðarlausu,“ segir Tanja.

Hún segir þó að það sé auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að fjölskyldur tali saman um hvernig þeim líður. Þekking á einkennum kvíða og þunglyndis hjálpar manni að koma auga á þau. Foreldrar ættu að vera á varðbergi fyrir einkennum þunglyndis og kvíða og annarra kvilla og leita viðeigandi aðstoðar fagaðila þegar á þarf að halda. Mikilvægt er að sýna þeim sem upplifa vanlíðan skilning því oft getur verið erfitt að setja sig í þeirra spor. Kvíði og þunglyndi séu eðlilegar tilfinningar en þegar þær byrja að hamla okkur í daglegu lífi getum við litið á þær sem vandamál. Mikilvægt er að eftirlitið sé bæði á vegum skólanna og innan heimilisins.

"Ungt fólk á stundum erfitt með að fara og hitta sálfræðing sem felur í sér að bóka tíma, mæta á staðinn, sitja á biðstofu o.s.frv. og hentar Mín líðan því vel fyrir þann hóp sem vill einfaldlega geta sinnt sinni meðferð þegar sér hentar, heima, í kaffipásu í vinnunni eða á kaffihúsi," segir Tanja að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert