Fjölskyldubíltúr frá Tálknafirði

Frá Reykjafjarðarlaug í Arnarfirði
Frá Reykjafjarðarlaug í Arnarfirði mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Í til­efni sum­ar­fría fjöl­skyldna birt­um við hér greinar í nýj­um greina­flokki:  „Fjöl­skyldu­bíltúr­inn" í sam­starfi við Markaðsstof­ur lands­hlut­anna. Hér birt­ist til­laga að bíltúr frá Tálknafirði i samstarfi við markaðsstofu Vestfjarða. 
________________________________

Byrjum daginn á morgunbaði, það er ekki nema um klukkutíma rúntur frá Tálknafirði yfir í Reykjafjarðarlaug í Arnarfirði. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi, sjóðheit og grunn náttúrulaugin er frábær fyrir gamla þreytta foreldrakroppa eftir tjaldsvefn næturinnar á meðan að örlítið kaldari sundlaugin er ævintýraland fyrir hressa krakka, slímugur botninn er eins og fínasta skautasvell og dýpri endinn er fullkominn leynistaður til þess að fylgjast með skrímslaferðum í fjöruborðinu.

Frá Selárdal
Frá Selárdal mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Talandi um skrímsli, segja má að Arnarfjörðurinn sé griðarstaður skrímsla á Íslandi og því er um að gera að vera vel vakandi og hafa augun á fjöruborðinu í rúnti dagsins. Best er þó að skella sér í heimsókn í Skrímslasetrið á Bíldudal og fræðast aðeins betur um þessar verur, það getur verið erfitt að finna þær ef maður veit ekki eftir hverju á að leita.

Pollurinn við Tálknafjörð
Pollurinn við Tálknafjörð mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Eftir sundsprett og heimsókn í Skrímslasetrið er ekki ósennilegt að hungur sé farið að láta kræla á sér, hamborgarinn á Vegamótum er vel þess virði að kíkja þar við og það sama má segja um fisk og franskar sem einnig er á matseðlinum. Að hádegisverði loknum er kominn tími á skrímslaleit, Ketildalirnir eru vel til þess fallnir þar sem vegurinn liggur meðfram sjónum og gylltum ströndum sem gaman er að stoppa við og byggja eins og einn kastala eða tvo ef ekkert gengur í skrímslaleit.

Gylltir sandar Arnarfjarðar
Gylltir sandar Arnarfjarðar mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Bæði Hvestudalur og Bakkadalur eru með stærðarinnar hvíta fjöru sem einna helst mætti líkja við fínustu sólarströnd erlendis, veðrið getur þó verið aðeins annað en á sólarströndinni en sandurinn engu síðri og jafnvel betri. Eftir fjörugleði liggur leið út í Selárdal, þar sem vegurinn endar og verk Samúels Jónssonar taka á móti okkur. Samúel var oft kallaður listamaðurinn með barnshjartað og það er einstaklega auðvelt að ímynda sér ævintýri Arnarfjarðar með verk hans og verur í aðalhlutverkum.

Varúð skrímsli!
Varúð skrímsli! mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Þegar allir eru orðnir vel mettaðir af ævintýrum og barnslegri list Samúels er kominn tími á að snúa aftur „heim“ á Tálknafjörð. Ef engin skrímsli hafa látið á sér bæra nú þegar, er um að gera að hafa augun á fjörunni og sjónum á meðan ekið er til baka eftir Ketildölunum. Í versta falli hljóta allavega einhverjir hvalir eða selir að sýna sig.

Hringsdalsnúpur og Vaðallinn við Hvestudal
Hringsdalsnúpur og Vaðallinn við Hvestudal mbl.is/Markaðsstofa Vestfjarða

Bíltúr dagsins hefur að mestu leiti verið um kræklótta en skemmtilega malarvegi, með sjóinn á aðra hönd og fallega dali eða himinhá fjöllin á hina. Það er því kjörið að skola af sér malarrykið í sundlauginni sem stendur við tjaldsvæðið á Tálknafirði, og taka nokkrar bunur í rennibrautinni, áður en foreldrar taka sér stöðu við grillið og krakkar eyða síðustu orkunni við hopp og skopp á ærslabelgnum. Ef enn má finna sand á milli tánna eða þörf fyrir vatnssull eftir kvöldmat þá er Pollurinn, enn ein heita laugin, aðeins spottakorn frá tjaldsvæðinu og kjörið að leggjast þar aðeins í bleyti, láta daginn líða úr sér og hoppa beint í náttfötin áður en skriðið er ofan í svefnpokana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert