Leikið á landsmóti

Skagamenn hentu upp fótboltaliði með litlum fyrirvara og skelltu sér …
Skagamenn hentu upp fótboltaliði með litlum fyrirvara og skelltu sér á Landsmót í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Bjarn­heiður Halls­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri ferðaskrif­stof­unn­ar Katla DMI og formaður SAF, fór um síðustu helgi á Landsmót UMFÍ í fyrsta sinn ásamt syni sínum Tómasi Tý. Hún barðist við og sigraðist á nokkrum fordómum í tengslum við mótið og segist sjaldan hafa skemmt sér eins vel yfir íþróttaiðkun sonarins. Sú iðkun tók  reyndar á sig óvenjulega mynd í bland við annað, því drengurinn fékk gullverðlaun í stafsetningu! Sjálf er Bjarnheiður búin að skrá sig á landsmót fyrir 50+ á næsta ári.
Það er  því ljóst að hann er nokkuð öflugur, ungmennafélagsandinn. 

________________________________________________________________

Ég var varla búin að taka upp úr töskunum eftir það sem ég hélt að væri mitt síðasta fótboltamót (sjá pistilinn „Líf fótboltaforeldra á hliðarlínunni“), þegar ég var eins og fyrir undarlega töfra mætt á næstu hliðarlínu. Það var fyrir framtakssemi móður á Akranesi, sem með örstuttum fyrirvara hóaði saman í fótboltalið 11 og 12 ára barna til að taka þátt í fótboltamóti á unglingalandsmótinu sem fram fór í Þorlákshöfn nú um verslunarmannahelgina.

Bjarnheiður ásamt syni sínum, Tómasi Tý.
Bjarnheiður ásamt syni sínum, Tómasi Tý. Ljósmynd/Aðsend

Landsmót fyrir upprennandi stórbændur í glímu?

Ég hafði fram að því haft þá hugmynd um landsmót almennt að þar væru aðallega saman komnir upprennandi stórbændur og bóndakonur úr héraðssamböndum víðs vegar um landið, sem reyndu með sér í glímu, hestamennsku, smalamennsku og víðavangshlaupum. Á kvöldin væru síðan sungin gömul dægurlög og skátasöngvar við gítarundirleik, við lítinn varðeld og jafnvel harmonikkuball á eftir. Ég var því hálftvístígandi yfir þessu, en ákvað að slá til og skrá drenginn minn til leiks, daginn áður en mótið byrjaði.

Ljósmynd/Aðsend


Stafsetningar-, fótbolta- og kökuskreytingakeppnir

Ég var snögg að setja mig inn í málin. Það kom mér verulega á óvart hversu fjölbreytt og um margt frumleg dagskrá var þarna í boði og leist strax afar vel á þetta allt saman. Ég ákvað því að fyrst við værum að fara þetta á annað borð væri best að strákurinn tæki fullan þátt í þessu. Í samráði við hann skráði ég hann auk fótboltans í sund-, skák- og stafsetningarkeppni. Hann „strækaði“ reyndar alveg á því að taka þátt í kökuskreytingakeppninni en við hálfsáum eftir því eftir á að hafa ekki skráð hann í upplesturinn. Drengurinn var mjög spenntur og hafði auðvitað enga fordóma eins og móðirin. Þegar við mættum til Þorlákshafnar kom í ljós að þar var mikið um að vera og hátíðarbragur yfir bænum. Bláir ungmennafélagsfánarnir blöktu við hún og bærinn iðaði af lífi. Foreldrar og börn frá öllum landshlutum voru mætt til leiks.

Ljósmynd/Aðsend


Bónusgrísir og Stuðboltar

Við byrjuðum í fótboltanum og þar kom upp úr dúrnum að fjölmörg lið héðan og þaðan af landinu höfðu skráð sig til leiks – flest kepptu þau ekki undir sínu félagsnafni, heldur báru liðin skemmtileg nöfn eins og „Drottningar að norðan“, „Eldri borgarar“, „Bónusgrísir“ og „Stuðboltar“. Þarna var metnaðurinn engu minni en á hinum hefðbundnu fótboltamótunum. Sum lið höfðu látið útbúa sérstaka búninga og foreldrar tóku ekki síður virkan þátt þarna og sjá mátti kunnuglegum týpum bregða fyrir á hliðarlínunni. Dagskráin var þétt og oft voru keppendur á harðahlaupum í svitakófi til að ná tímanlega í næstu keppnisgrein.

Landsmót fyrir unglinga og eldri borgara á Austurlandi að ári

Ef stund gafst á milli stríða var nóg við að vera eins og til dæmis hinn stórsniðugi Panna-fótbolti, sem sló algjörlega í gegn hjá okkar fólki. Gleðin skein svo sannarlega af hverju andliti. Að keppnisdagskrá lokinni tóku síðan við kvöldvökur í stóru samkomutjaldi, þaðan sem söngur allra stærstu unglingastjarnanna ómaði um bæinn.

Það er skemmst frá því að segja að þessi helgi á unglingalandsmótinu var með þeim skemmtilegri sem sonur minn hefur upplifað. Það má því með sanni segja að þessi verslunarmannahelgardagskrá er með best geymdu leyndarmálum fyrir fjölskyldur með börn á öllum aldri, sem vilja gera eitthvað skemmtilegt saman. Eitthvað við allra hæfi – og ekki bara íþróttir  þétt og mikil dagskrá frá morgni til kvölds og síðast en ekki síst: Allir taka virkan þátt og gleyma símunum sínum og leikjatölvunum dögum saman!

Krakkarnir af Skaganum eru strax byrjaðir að leggja drög að ferð á næsta unglingalandsmót, sem verður víst haldið á Höfn í Hornafirði á næsta ári. Og það sem meira er – ég er ákveðin í að taka þátt í landsmóti fyrir 50+ í Neskaupstað að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert