Stórfjölskylda mætti í kaffiboð á Bessastaði

Fjölskylda Sigrúnar (sem er ekki á myndinni) ásamt Guðna Th. …
Fjölskylda Sigrúnar (sem er ekki á myndinni) ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Sigrúnu Elísabetu Arnardóttur var boðið ásamt allri fjölskyldu sinni í kaffi á Bessastaði í vikunni. Hún lenti í alvarlegu slysi á Vesturlandsvegi í sumar ásamt sjö börnum sínum af tíu og systurdóttur sinni. Þau voru öll flutt á gjörgæslu, þrjú þurftu lengri sjúkrahúsvist og næstyngsta dóttir Sigrúnar, Myrra Venus, slasaðist sýnu verst en hefur náð undraverðum bata.

Síðustu vikur hafa verið bjartari hjá fjölskyldunni en vikurnar eftir slysið. Fyrsta barnabarnið var skírt eins greint var frá hér á Fjölskyldunni á mbl.is og í vikunni var öllum hópnum boðið í kaffi til forseta Íslands á Bessastöðum.

Sigrún Elísa­bet er ein af þekkt­ari lífstíls­blogg­ur­um lands­ins en hún held­ur úti bloggsvæðinu SigrúnElísa­bet.is þar sem hún seg­ir frá ýmsu í lífi sínu og barn­anna en hún er yngsta móðir lands­ins til að eign­ast tíu börn. Hún hefur deilt með lesendum sínum ýmsu því sem gengið hefur á undanfarin ár.

„Við meðal annars fórum í kaffi til forseta okkar á Bessastaði. Það er alveg með eindæmum hvað við þjóðin eigum flottan forseta,“ segir Sigrún. 

Hún segir að Jasmín dóttir hennar hafi fattað eftir heimsóknina að hún gleymdi að segja Guðna að þau eiga afmæli sama dag, sem henni þykir ansi skemmtilegt.

„Frosti var hins vegar með allt á tæru og naut þess að fá að tala við Guðna og spyrja hann hinna ýmsu spurninga, jafnvel aðeins of margra spurninga. Ég heillaðist einnig upp úr skónum af rúmgóðri borðstofunni og borðstofuborðinu sem rúmaði alla til borðs og mun fleiri til. Heimsóknin var mjög áhugaverð og skemmtileg og þykir mér mikill heiður að hafa fengið heimboð á Bessastaði,“ segir Sigrún í færslu sinni.

Sigrún Elísabet á tíu börn og heldur úti vinsælli bloggsíðu …
Sigrún Elísabet á tíu börn og heldur úti vinsælli bloggsíðu um líf sitt og heimilishald. mbl/aðsend

Færsla Sigrúnar á bloggsvæði hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert