Get ég beðið barnið mitt afsökunar?

Börn hljóma oft eins og foreldrar þeirra. Þegar foreldrarnir eru …
Börn hljóma oft eins og foreldrar þeirra. Þegar foreldrarnir eru góðir í samskiptum verða börnin það vanalega líka. Að taka ábyrgð á eigin hegðun er verðugt verkefni að kenna. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Eitt af þvi sem einkennir hlutverk okkar sem foreldrar er að stundum förum við yfir okkar eigin mörk og annarra. Það er hið eðlilegasta mál og meðvitaðir foreldrar eru duglegir að finna hvenær þeir gera slíkt og hvenær ekki.

Eftir erfiðan dag í vinnunni, eða samtal sem kemur okkur úr jafnvægi yfir daginn, getum við farið heim og virkað þurr við þá sem við elskum mest.

Hvað gerist ef ég útskýri fyrir barninu mínu að mamma eða pabbi sé ekki leið út í þau, heldur aðeins fjarverandi í hugsun af því að dagurinn í vinnunni tók á?

Að vera mannlegur er hluti af þvi að vera manneskja og börnin okkar fara ekki varhluta af því. Stundum getur maður svarað börnunum öðruvísi en mann langar einungis út af því að þráðurinn er styttri en vanalega eða jafnvel svefninn daginn áður hafi ekki verið góður.

Þegar þú sest niður með barninu þínu og útskýrir hvernig þér líður. Biðst afsökunar á að hafa ekki svarað fallega, þá ertu að kenna barninu þínu að taka ábyrgð á eigin hegðun. Þú ert að kenna því falleg samskipti og heiðarleika.

Ef þú prófar þessa aðferð í einhvern tíma á alla í kringum þig, muntu sjá hvað börn eru góðir námsmenn. Þau vanalega gera það sem fyrir þeim er haft.

Eftir ákveðinn tíma byrja þau að taka ábyrgð á eigin hegðun. Þau fá þannig verkfæri til að koma sér út úr aðstæðum, sem dæmi í skóla, þar sem þau hefðu viljað sýna öðruvísi hegðun en voru kannski þreytt sjálf. Þau eiga eftir að geta fyrirgefið ósanngjarna hegðun annarra og skilið að stundum gerast hlutir óháð því hvað þau gera og segja.

Það er fátt fallegra í þessari veröld en að sjá börn ná tökunum á samskiptum við aðra. Þegar barnið þitt segir einn morguninn: „Fyrirgefðu mamma/pabbi, ég var þreytt/þreyttur í morgun. Þá veistu að heiðarleiki þinn hefur skilað sér áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert