„Næst þá segi ég mínum nánustu strax“

Mæðgurnar Arna Petra Sverrisdóttir og Emilía Birna Tómasdóttir.
Mæðgurnar Arna Petra Sverrisdóttir og Emilía Birna Tómasdóttir. Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

Arna Petra Sverrisdóttir er 23 ára móðir úr Reykjavík. Hún er vinsæll áhrifavaldur og með fjölmarga fylgjendur á samfélagsmiðlunum YouTube og Instagram. Þar heldur hún úti svokölluðu vlogi sem er myndbandsblogg þar sem vloggari tekur upp myndband af sjálfum sér og klippir saman. Arna Petra birti myndband á YouTube reikningnum sínum þar sem hægt er að fylgjast með aðdraganda fæðingarinnar og fæðingunni sjálfri. Fæðingarmyndbandið má sjá neðst í viðtalinu.

Myndbönd Örnu Petru eru einlæg og það er auðvelt að tengjast Örnu þar sem hún tekur sjálfa sig ekki of alvarlega. Með húmorinn að leiðarljósi leiðir hún áhorfendur inn í hugarheim sinn þar sem þeir fá að kynnast þessari brosmildu og einlægu ungu konu blómstra í nýja hlutverki sínu sem móðir. Blaðamaður sló á þráðinn til hennar og fékk að forvitnast um meðgönguna og hvernig það er að verða orðin mamma. 

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

Arna Petra eignaðist sitt fyrsta barn í upphafi árs, dótturina Emilíu Birnu, ásamt sambýlismanni sínum Tómasi Inga Gunnarssyni. Hún segir að líf hennar hafi breyst mikið eftir að hún varð móðir. Til hins betra. Núna gengur lífið út á litlu mannveruna sem er komin inn í líf hennar. 

Finnur þú fyrir miklum breytingum á lífi þínu núna þegar þú ert orðin móðir og hvernig mamma langar þig að vera? 

„Ég vil vera hressa mamman eins og móðir mín. Hún er fyrirmyndin mín, alltaf hress og tekur öllum opnum örmum. Ég vil ekkert vera að taka hlutunum neitt alltof alvarlega þó við Tómas ætlum klárlega að setja niður skýrar reglur þegar Emilía eldist. Ég vil að Emilía horfi á mig sem móður og vinkonu. Að hún geti alltaf leitað til mín og fundið fyrir öryggi. Þannig líður mér gagnvart móður minni,“ segir Arna Petra.

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

„Ég hef alltaf verið skipulögð en núna er það á einhverju allt öðru stigi. Eins og til að mynda þegar Emilía tekur lúrinn sinn þá er ég með allavega 20 hluti sem mig langar til að gera. Mig langar að vinna, horfa á sjónvarpsþátt, fara í sturtu, taka til og borða góðan hádegismat. Svo næ ég kannski bara að næra mig og þá er hún vöknuð,“ segir Arna Petra og hlær. 

Var ekki búin að sjá það fyrir sér að verða móðir 23 ára

Arna Petra segir að hún  hafi alls ekki búist við því að verða móðir svona ung. 

„Ég var ekki beint með einhver svakaleg framtíðarplön en það að verða móðir 23 ára var ekki eitthvað sem ég var búin að sjá fyrir mér.  Um leið og ég sá jákvætt þungunarpróf þá fann ég strax hvað mig langaði ekkert meira en að verða móðir og að þetta væri einmitt fullkominn tími.“

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir


Hvernig gekk meðgangan?

„Meðgangan gekk eins og í sögu. Mér leið mjög vel, fann fyrir smá þreytu í upphafi en slapp alveg við ógleðina. Það hræddi mig mikið fyrstu vikurnar að hafa fundið fyrir litlum einkennum þannig að ég fór tvisvar í snemmsónar sem róaði mig mikið. Ég fór á sjöttu og níundu viku og allt var alveg eðlilegt. Ég tók líka reglulega óléttupróf aftur til þess að láta mér líða betur sem ég vissi í rauninni ekkert hvort það hafi verið áreiðanlegt. Svona verður maður heltekinn af þessu,“ segir Arna Petra og tekur fram að þetta hafi verið skrýtið því fyrstu vikur óléttunnar hafi hún verið út í Svíþjóð þar sem Tómas stundaði nám, langt frá vinum og fjölskyldu. 

Þurfti að bíða lengi með stærsta leyndarmálið

„Ég vildi ekki segja fólkinu mínu í gegnum síma þannig að ég beið eftir því að segja þeim þar til að ég var komin heim. Þessar fyrstu vikur voru mjög lengi að líða og mér leið eins og ég væri alein í heiminum að bera stærsta leyndarmál sem ég hef nokkurn tímann geymt,“ segir Arna Petra og er handviss að þegar hún verður ólétt næst þá ætlar hún að segja sínum nánustu strax frá því og segir að ef eitthvað gerist þá verða þau til staðar. 

„Ég fékk kúlu mjög fljótt, kannski vegna þess að ég er frekar smágerð. Mér fannst eins og kúlan hafi bara mætt þarna einn morguninn. Svo fann ég fyrir fyrsta sparkinu á 15. viku sem er heldur snemmt en fylgjan var fyrir aftan hjá mér. Að finna fyrir sparki og að heyra hjartsláttinn hjá barninu var það besta við meðgönguna.

Eftir tólftu viku flaug tíminn frá mér. Ég var ekki alveg að tengja við mömmurnar sem voru að farast úr spennu og óþolinmæðin alveg að gera útaf við þær. Ég var sultuslök og fannst smá eins og ég ætti eftir að gera heilan helling áður en hún myndi koma. Svo var ég búin að ákveða að ég myndi fara 2 vikur framyfir þar sem flest allar sögðu að það myndi gerast með fyrsta barn.“

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

Arna Petra var komin 38 vikur á leið um síðustu áramót. „Síðustu áramótum eyddum við með fjölskyldu Tómasar. Mér leið mjög vel og við Tómas vorum langt fram á nótt. Allir hressir og ég með eitt stykki körfubolta framan á mér, kúlan var eiginlega stærri en körfubolti. Ekki grunaði mig að hún myndi síðan mæta 3 dögum seinna, 10 dögum fyrir settan dag.“

Þurfti að fara frá Tómasi til að vinna sér inn fæðingarorlofsréttindi

Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega en fannst þú einhverjar breytingar á þér á meðgöngunni?

„Já, það er ótrúlega skrítið hvað líkaminn breytist allur. Ég upplifði að ég hefði ekkert þol, allir stungu mig af því ég labbaði svo hægt. Annars leið mér bara vel á meðgöngu, við vorum ótrúlega upptekin þarna á lokametrunum þar sem við vorum að flytja frá Svíþjóð og fórum í framkvæmdir á heimilinu sem við kláruðum mánuði áður en hún fæðist,“ segir Arna Petra en framkvæmdirnar tóku mjög mikið á hana og hún mælir ekki með því að verðandi mæður fari í framkvæmdir á meðgöngu.

Hún segir að fyrri hluti meðgöngunnar hafi verið frekar erfiður þar sem hún þurfti að fara heim til Íslands. 

„Það tók á að fara frá frá kærastanum sem var að klára nám í Svíþjóð til þess að fara heim og vinna mér inn réttindi til fæðingarorlofs. Þetta var erfitt fyrir okkur bæði. Hann gat ekki fundið fyrir fyrstu spörkunum og hreyfingunum eða séð hana í sónarnum. Í staðinn fékk tengdamamma að koma með mér í 12 vikna sónarinn og svo mamma mín í 20 vikna sónarinn og það var yndislegt að fá þær með. Tómas kom síðan heim til Íslands þegar ég var komin 20 vikur á leið. Þá þurfti hann að fara í sóttkví. Það tók mikið á að hafa ekki geta stokkið í fangið á honum strax.“

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

Jóga hjá Auði var gulls ígildi

Hvernig hreyfðir þú þig þegar þú varst ólétt?

„Ég var nú ekki dugleg. Ég var aðallega að fara í göngutúrana mína. Bósi hundurinn hjá mömmu og pabba var minn allra besti vinur á meðgöngunni. Svo skellti ég mér við og við í ræktina en ég get ekki sagt að ég hafi verið dugleg að hreyfa mig. Ég fór einnig á jóga námskeið hjá Auði sem var æði. Það var smá furðulegt ef ég á að vera hreinskilin, en ég elskaði það. Við vorum að dansa, teygja, slaka, anda og fengum að heyra allskonar sögur um meðgöngur og fæðingar. Að teygja á líkamanum eins og ég gerði í jóganu gerði svo mikið fyrir mig, maður verður svo stífur á þessum tíma. Eftir jógað gekk maður út sem ný manneskja.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Þegar Emilía vaknar þá spjallar hún yfirleitt út í loftið og ég kíki svo yfir í rúmið hennar og fæ þetta breiðasta fallegasta bros sem til er. Alla morgna! Það hefur ekki klikkað hingað til. Svo færi ég hana yfir í mitt rúm og leyfi henni að sitja hjá mér af því að ég nenni alls ekki að standa upp strax.

Ljósmynd/Sól Stefánsdóttir

En við tökum því bara rólega, ég er yfirleitt ennþá á náttfötunum en hún fer í fötin fyrir daginn eftir að ég skipti á henni. Svo fáum við okkur að borða saman. Ég elska þessar stundir á morgnana. Við hlustum mikið á tónlist og hún dillar sér í stólnum við uppáhalds lögin. Svo leikum við aðeins áður en við tökum morgungöngutúrinn. Þegar hún sofnar fer ég inn og fæ mér fyrsta kaffibollann í rólegheitum,“ segir Arna Petra og segist spennt að vakna í fyrramálið eftir þessa frásögn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert