Hjálpa börnum að skilja eigin tilfinningar

Paola Cardenas og Soffía Elín Sigurðardóttir eru barnasálfræðingar með margra …
Paola Cardenas og Soffía Elín Sigurðardóttir eru barnasálfræðingar með margra ára reynslu af meðferðarvinnu með börnum, ungmennum og fjölskyldum.

Paola Cardenas og Soffía Elín Sigurðardóttir eru barnasálfræðingar með margra ára reynslu af meðferðarvinnu með börnum, ungmennum og fjölskyldum. Þær voru á unglingsaldri þegar þær kynntust en Paola flutti til Íslands frá Suður Ameríku aðeins 18 ára gömul. Báðar eru þær mjög ævintýragjarnar og vildu ferðast um heiminn og stunda nám erlendis. Létu þær drauminn rætast og hélt Paola til Boston en Soffía til Sydney í sálfræðinám. Þær leiða saman krafta sína undir merkjum Sjálfstyrks og halda reglulega fyrirlestra ásamt sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir börn og unglinga. Nýlega gáfu þær út tvær barnabækur sem miðla sálfræðiþekkingu til barna og foreldra á skemmtilegan hátt. 

„Jólin eru tækifæri til þess að koma saman og tengjast. Samvera getur verið í hvers kyns formi eins og að baka saman, hlusta á jólalög, fara á skemmtilega viðburði, borða góðan mat, drekka heitt kakó eða spila borðspil. Jólin geta verið eins konar uppgjör á árinu annars vegar og hins vegar undirbúningur á nýjum markmiðum komandi árs. Hjálplegt er að markmiðin séu bæði raunsæ og líkleg til árangurs,“ segja þær. 

Í menningu ríkja í Suður Ameríku tíðkast að setja sér mörg en mjög markviss markmið. Paola ólst upp við þá hefð að fagna nýju ári með því að borða 12 vínber en hvert vínber veitti 12 óskir á nýju ári í takt við 12 klukkuslög að miðnætti.

„Fólk fer því uppfullt af tilhlökkun inn í nýtt ár með spennandi viðfangsefni og markmið í farteskinu,“ segir hún. 

Hvað er sniðugt að gefa börnum í jólagjöf?

„Með aldrinum kunna líklega fleiri að meta gjafir sem eru vandlega valdar. Gjafir sem örva þroska barna, gefa tilefni til samveru og búa yfir góðu notagildi, eru sígildar. Jólasveinarnir hafa í nógu að snúast í desember og geta því stundum gleymt sér og gefið gjafir í skóinn með litlu notagildi. Jólasveinarnir mæla eindregið með því að fjölskyldur útbúi sjálf dagatal í desember sem byggist á sniðugri samveru fjölskyldunnar. Samveran þarf hvorki að kosta mikið né að valda umstangi fyrir foreldra,“ segja þær. 

Það er mikil streita sem fylgir okkur fullorðna fólkinu inn í jólin og því alltaf gott að geta sest niður með börnum okkar að lesa. Rannsóknir í tengslum sýna einnig að þessar gæðastundir eru dýrmætar með börnum okkar. Hver er ykkar skoðun á þessu?

„Öll afslöppuð samvera með börnum okkar skapar tækifæri til þess að styrkja tengsl og umvefja þau væntumþykju. Gæðastundir þar sem foreldri les fyrir barn er frábært tækifæri til uppbyggilegrar samveru og hvetur börn til að lesa sér til gagns. Barnið fær þá fulla athygli foreldris og hefur lestur mikil og góð áhrif á máltöku barna, örvar ímyndunarafl, eykur athygli og orðaforða þeirra. Þar að auki er mikilvægt að hlusta á lestur barna sem eru læs og spyrja spurninga um efni bókar, og styrkja þar með orðskilning og vinnsluminni þeirra.“

Súper Vitrænn og Súper Viðstödd eru fyrstu barnabækurnar í seríunni …
Súper Vitrænn og Súper Viðstödd eru fyrstu barnabækurnar í seríunni um Súperstyrkina sem eru sex talsins.

Draumurinn að skrifa barnabækur hefur blundað í þeim báðum lengi og höfðu þær svipaðar hugmyndir um það.

„Súperstyrkirnir þróuðust því ansi hratt á notalegu kaffihúsi í fyrra vor á Kjarvalsstöðum. Okkur fannst vanta íslenskar barnabækur með sálfræðilegri þekkingu því mikilvægt er að börn fái strax í barnæsku aðgang að sálfræðiaðferðum sem styrkir þau í að takast á við krefjandi aðstæður í lífinu og þróa með þeim seiglu. 

Við vorum heppnar að finna strax Viktoríu Buzukina sem er frábær teiknari og tókst henni að færa hugmyndir okkar í fallegan búning. Súper Vitrænn og Súper Viðstödd eru fyrstu barnabækurnar í seríunni um Súperstyrkina sem eru sex talsins. Hver Súperstyrkur hjálpar börnum að öðlast ákveðna færni og styrkja um leið sjálfsmynd þeirra.

Súper Vitrænn útskýrir fyrir börnum á einfaldan hátt hvernig hugsanir okkar og hegðun hafa áhrif á líðan, sem er undirstaðan í aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Súper Viðstödd, aftur á móti, kennir börnum að róa huga og líkama með aðferðum núvitundar. Súper bækurnar leitast við að efla tilfinningastjórn, bjargráð og að virkja innri styrk barna. Bækurnar miðast við 4 til 10 ára aldur en eldri börn eiga einnig að geta notið góðs af lestrinum og eru enn færari í að tileinka sér æfingarnar sem teknar eru fyrir. Fræðsla til foreldra og hagnýt ráð er að finna í bókunum.“

Hver Súperstyrkur hjálpar börnum að öðlast ákveðna færni og styrkja …
Hver Súperstyrkur hjálpar börnum að öðlast ákveðna færni og styrkja um leið sjálfsmynd þeirra.

Sjálfar lásu þær mikið bækur á sínum yngri árum. Soffía sótti mikið í hvers kyns ævintýrabækur og safnaði sem dæmi öllu Ísfólkinu ung að aldri þótt hún efist í dag um hversu uppbyggilegar þær bækur voru. Paola hafði einnig gaman af ævintýrum en á unglingsaldri sótti hún meðal annars í bækurnar eftir Isabel Allende og dýpkaði Hús andanna skilning hennar á ástandinu sem ríkti í Síle á þeim tíma sem foreldrar hennar voru að kynnast.

„ Ævintýrin og persónur bókanna sem við lásum fylgja okkur enn þann dag í dag og óhjákvæmilega mótuðu barnaæsku og hugmyndir okkar um framtíðina. Ætli bækurnar hafi ekki jafnframt haft áhrif á útgáfu okkar á Súper bókunum þar sem við vitum í dag hversu mikilvægt er að tileinka sér strax í barnæsku innsýn í eigin tilfinningar og efla bjargráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert