Sex ráð fyrir „erfiðasta starf í heimi“

Ljósmynd/Pexels/Vlada Karpovich

Þótt foreldrahlutverkið geti verið gefandi getur það líka verið erfitt, þreytandi og einmanalegt. Foreldrahlutverkið hefur oft verið kallað erfiðasta starf í heimi, en það eru engin inntökuskilyrði fyrir hlutverkið. 

Ráðgjafi The Sun gaf lesendum sex raunhæf ráð sem hjálpa foreldrum að þroskast í hlutverkinu, auka sjálfstraust sitt og hætta að keppa við glansmyndir um hið fullkomna foreldri.

Það er ekkert sem heitir fullkomið foreldri

Besta leiðin til þess að tryggja að einhverjum mistakist er að setja óraunhæfar kröfur á hann, og það sama á við um foreldrahlutverkið. Því er mikilvægt að vera raunsær, flestir foreldrar gera sitt allra besta til að hugsa um börnin sín og það eru miklar öfgar að ætlast til að foreldri sé alltaf í fullkomnum takti við þarfir barnsins síns. 

Treystu innsæinu

Á samfélagsmiðlum er mikið um harða gagnrýni og skömm í garð foreldra, en það sýnir hve grimmir netheimarnir geta verið. Þetta getur valdið því að við förum að hafa meiri áhyggjur af því hvernig við lítum út sem foreldrar út á við en að hugsa um börnin okkar og þarfir þeirra. Ekki láta gagnrýni annarra draga þig niður; þú þekkir barnið þitt og samband ykkar betur en nokkur annar.

Aldrei of seint að bæta sig

Ef þú óskar þess að hafa gert hlutina örðuvísi skaltu muna að það er aldrei of seint að bæta sig. Hvort sem barnið þitt er ungbarn, unglingur eða jafnvel fullorðinn, þá er aldrei of seint að styrkja samband ykkar. 

Dýrmætasta gjöfin er tími

Við vitum öll hve dýrmætt það er að eyða gæðatíma með börnunum okkar, fjarri truflunum. En það sem skiptir í raun mestu máli er tíminn sem þið fáið saman daglega í hversdagsleikanum. Gefðu börnunum þínum meiri tíma til þess að koma sér út á morgnana, gera sig til fyrir háttinn eða taka leikföngin saman eftir daginn. 

Það tekur börn mun lengri tíma að vinna úr upplýsingum, en þar að auki verða þau auðveldlega annars hugar og þreytt. Enginn nýtur þess að byrja eða enda daginn á ópum og öskrum, en barn sem á foreldri sem er stöðugt að öskra á það er líklegra til þess að verða órólegt og skorta sjálfstraust. 

Viðurkenndu tilfinningar barnanna

Ef barnið þitt segist vera hrætt við myrkrið, finnst vinirnir vera að skilja það út undan eða finnst óþægilegt að vera í kringum ákveðna manneskju skaltu hlusta og viðurkenna tilfinningar þeirra. Með því að segja „ekki vera með vesen“ eða „það er fáránlegt“ grefurðu undan börnunum og minnkar líkurnar á að þau opni sig aftur.

Sýndu stuðning, ekki laga

Þú þarft ekki alltaf að leysa vandamál barnanna þinna. Með því einfaldlega að vera til staðar fyrir börnin og hlusta á áhyggjur þeirra nærðu að fylgja og hjálpa þeim í gegnum vandamál sín. Þannig sýnirðu þeim kærleiksríkan stuðning, sem er grunnur að þeim stöðugleika sem við þurfum öll á að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert