Hellisbúinn gefur út sína fyrstu barnabók

Bjarni Haukur Þórsson hefur nú skrifað sína fyrstu barnabók.
Bjarni Haukur Þórsson hefur nú skrifað sína fyrstu barnabók.

Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri, leikari og rithöfundur, hefur ekki setið aðgerðalaus upp á síðkastið. Hann hefur setið við skriftir. Barnabók hans Þrúður þruma – hvirfilbylurinn frá Nýborg er væntanleg á næstu dögum og verður með í jólabókaflóðinu í ár. Bókin er myndskreytt af Pétri Stefánssyni sem hefur verið að hasla sér völl sem myndskreytir en á þriðja hundrað teikninga er í bókinni sem telur um fimm hundruð blaðsíður.

Pétur Stefánsson teiknar allar myndirnar í bókinni. Hann er arkitekt …
Pétur Stefánsson teiknar allar myndirnar í bókinni. Hann er arkitekt og hreyfimyndahönnuður. Hann hefur frá unga aldri verið mikill teiknari og síðast liðin ár hefur hann aðallega fengist við myndkreytingar og hreyfimyndagerð. Þrúður þruma er fyrsta skáldsagan sem hann myndskreytir myndirnar í bókinni telja á þriðja hundrað.

„Bókin fjallar um kraftinn sem býr í börnum og hvernig það er að finna út úr því hvernig manneskja maður er eða vill vera. Hún fjallar um hvernig maður verður að góðri manneskju. Sterkri manneskju. Hvað er rétt eða rangt í lífinu og hvað er hið góða eða hið illa? Ég reyni að koma sögunni þannig saman að hún sé aðgengileg, fyndin og spennandi. Vissulega er ég undir áhrifum frá Snorra Sturlusyni og norrænni goðafræði, en með hjálp Péturs Stefánssonar teiknara höfum við skapað alveg nýjan heim hér, sem er grundvöllur margra sagna. Óhætt er að segja að á bak við þessa bók liggi þúsundir klukkutíma af vinnu,“ segir Bjarni Haukur og bætir við: 

„Yngri sonur minn spurði mig um daginn um hvað bókin fjallaði. Ég hugsaði mig aðeins um og svaraði svo: Sennilega fjallar hún um að foreldrar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Það var fyrst þá sem hann tók bókina í hönd sér og byrjaði að lesa,“ segir Bjarni Haukur brosandi.

Aðalsöguhetja bókarinnar er Þrúður þruma, níu ára brettastelpa sem þeysist um Nýborg á hjólabrettinu sínu. Þegar pabbi hennar, Þór Óðinsson, hverfur skyndilega uppgötvar Þrúður yfirnáttúrlega krafta sem hún er fær um að leysa úr læðingi. Með hjálp besta vinar síns, klifurgarpsins Asks, og drapplituðu dúndrunnar (ömmu Frigg) leggur hún í mjög tvísýnan leiðangur og upp hefst æsispennandi ævintýri. Mun Loki, viðskiptafélagi Þórs og forstjóri ÞITT VEÐUR EHF., ná sínu fram og breyta NÝBORG um ókomna tíð? Þrúður leggur allt í sölurnar til þess að komast að sannleikanum, finna föður sinn og bjarga NÝBORG.

Margir kannast líklega við Bjarna Hauk sem Hellisbúann. Síðastliðin ár hefur hann helgað sig meira handrits- og bókarskrifum. Eftir hann liggja nokkur leikverk, sem sett hafa verið upp í 25 löndum. Fyrsta bók hans, Pabbinn, byggð á samnefndu leikverki, var gefin hjá af hinni virtu bókaútgáfu Random House árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert