Dóttirinn vill bara borða ruslfæði og móðirin er ráðalaus

Unsplash/Ekaterina Shakharova

Kona hefur áhyggjur af því að  dóttir hennar vilji ekki borða neitt annað en ruslfæði. Veit hún ekki hvað hún á til bragðs að taka og leitar því ráða hjá sérfræðingi.

Dóttir okkar, sem er átta ára, átti góða byrjun hvað varðar mataræði. Hún var fyrst bara á brjósti, svo vöndum við hana á grænmeti, ávexti og hollar heimagerðar máltíðir. Á einhverjum tímapunkti fór hún að vilja frekar ruslfæði, eins og pizzu, fiskifingur og franskar. Á tímabili borðaði hún bara hakk og spagettí en hætti svo upp úr þurru að vilja það.

Hún hefur ákveðið að gerast grænmetisæta svo það gerir okkur erfiðara fyrir að gefa henni hollan kjötvalkost. Við höfum prófað alls konar matarpakka en henni virðist alltaf mislíka sum hráefnin. Ég hef reynt að gefa henni mat eins og gúrku, papriku, tómata og alls konar ávexti, til blands við það sem hún vill borða.

Fyrir stuttu átti hún við læknisfræðileg vandamál að stríða sem hefur leitt af sér að við höfum þurft að fylgjast vel með þyngd hennar og hæð. Þó hún sé mjög virk þá hef ég áhyggjur af því að hún þyngist of mikið ef hún heldur áfram að borða eins og hún gerir. Ég hef barist við þyngd mína allt mitt líf og þeirri dómhörku sem því fylgir. Svo ég er einstaklega meðvituð um góða næringu og hreyfingu.

Ég vil ekki banna ákveðinn mat eða vera sífellt þreytt á því hvað hún borðar. Hins vegar hef ég sagt henni að ég ætla að byrja á því að elda mat og hún muni hafa val um að borða eða vera svöng, en hún fær góðan hádegismat í skólanum.

Ég er gjörsamlega ráðalaus.

Svar sérfræðingsins:

Ég vil byrja á því að fullvissa þig um að þetta er ekki þér að kenna. Ef þú ættir tíu börn myndu þau hafa tíu mismunandi matarvenjur. Börn munu krefjast þess að gera það sem þau vilja. Hins vegar eru nokkrar mismunandi aðferðir sem þú gætir viljað prófa.

Ég ráðfærði mig við sálfræðing og þótt ekki sé hægt að greina neinn með einu bréfi þá gæti dóttir þín glímt við nokkuð sem kallast „Arfid“. Heitið stendur fyrir það að forðast ákveðinn mat eða vilja takmarka hvaða matur er borðaður. Almennt byrjar slíkt að gera vart við sig um tveggja ára aldur, þegar börn verða meðvitaðri um hvernig þau skynja matinn. Samkvæmt sálfræðingnum tengist þetta skynjunarviðbrögðum og kvíða. Þau sem glíma við þetta hafa heldur ekki mikinn áhuga á mat.

Það fyrsta sem þú ættir að gera er að gera lista yfir það sem dóttir þín vill borða. Listinn verður örugglega lengri en þig grunar. Í öðru lagi skaltu hafa í huga að það hjálpar ekki að þrýsta á dóttur þína að borða það sem hún vill ekki. Það eykur bara kvíðann. Sálfræðingurinn mælir alls ekki með því að láta hana sitja eftir svanga ef hún vill ekki borða það sem er í boði. Það mun ekki hjálpa til við að fá hana til að borða.

Með hjálp gæti dóttir þín komist yfir þessa röskun og sú hjálp byrjar með því að þú gerir þín vandamál ekki að hennar vandamáli. Með tímanum gæti hún viljað prófa fjölbreyttari mat. Samkvæmt sérfræðingum tekur það um tíu skipti að líka við einhvern mat.

Alls ekki tala við hana um þyngdina hennar. Slepptu því líka að tala um hvaða matur er hollur og hvaða matur er óhollur. Slepptu því líka að reyna að plata dóttur þína. Það er mikilvægt að þú sért róleg og neyðir hana ekki til neins. Ef hún fer að finna fyrir því að hún getur ekki treyst þér í kringum mat þá mun það vinna gegn þér. 

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert