Má afþakka gangsetningu?

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda mbl.is.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda mbl.is. Samsett mynd

Hild­ur Sól­veig Ragn­ars­dótt­ir ljós­móðir svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér svar­ar hún spurn­ingu um gangsetningu.

Kæru ljósmæður. Ég er með smá vangaveltur. Ég er ófrísk að mínu öðru barni og er komin tæpar 30 vikur. Síðast var ég gangsett út af meðgöngulengd og mig langar svo innilega ekki til að verða gangsett núna. Spurningin er, get ég gert eitthvað sjálf til að koma fæðingunni af stað og má afþakka gangsetningu?

Kveðja, B. 

Sæl

Það er ýmislegt hægt að gera til að koma fæðingu af stað eða undirbúa líkamann undir fæðingu. Til eru ýmis ráð sem geta hjálpað og þá sérstaklega ef líkaminn er tilbúin. Aldagamalt húsráð er að borða döðlur. Mælt er með að borða 6 döðlur á dag 4 vikum fyrir settan dag og best að hafa þær ferskar og/eða lífrænt ræktaðar. Kynlíf með maka getur hjálpað. Prostaglandin í sæðinu getur haft örvandi áhrif á fæðinguna. Það að fá fullnægingu getur líka komið samdráttum af stað sem og að nudda og örva geirvörturnar. Nálastungur eða svo kallaðar undirbúningsnálar geta einnig hjálpað töluvert.

Síðan eru önnur ráð eins og t.d. að losa um belgi sem getur komið i veg fyrir gangsetningu. Ég myndi þó mæla með að gera það ekki fyrr en þú ert gengin 41 viku þar sem rannsóknir hafa sýnt að belgjalosun virkar best eftir 41 viku. Allt þetta getur hjálpað.

Til að svara hinni spurningunni varðandi gangsetningu þá hef ég þetta að segja. Ástæður fyrir gangsetningu eiga alltaf að vera byggðar á faglegum grunni. Ástæður gangsetninga eru misjafnar og hér á landi byggjum við okkar ráðleggingar á nýjustu rannsóknum hverju sinni. Auðvitað hefur þú alltaf val um þá þjónustu sem er í boði. Ef þú ert alfarið á móti því að vera gangsett þá myndi ég mæla með að ræða það við þína ljósmóður í mæðravernd og mögulega væri þá hægt að auka eftirlit við þig og barnið þitt fram að fæðingu. Ábendingar gangsetninga eru misjafnar og misjafnlega alvarlegar eða áríðandi. Ef ástæðan er eins og í fyrri fæðingunni þinni, meðgöngulengd þá er ekki ráðlagt að ganga lengra en 42 vikur. Þá getur áhættan aukist lítillega fyrir móður og barn. Það getur dregið úr fósturvexti, vegna breytinga á fylgjustarfsemi. Einni eru meiri líkur á því að barnið losi fósturhægðir í legvatnið, sem verður þá grænt. Líkur á burðarmálsdauða getur aukist lítillega, vari meðgangan lengur en 42 vikur.

Ég hvet þig til að heyra í ljósmóður þinni í mæðravernd og athuga hvort hún geti aðstoðað þig við þau úrræði sem ég nefndi hér að ofan. Vona svo þín vegna að þú farir sjálf af stað. Vona að þetta hjálpi þér.

Kær kveðja, Hildur Sólveig ljósmóðir.

Þú getur sent ljósmæðrum spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert