Rifnaði illa í fæðingunni og spyr hvort konur þurfi að rembast svona?

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda.
Hildur Sólveig Ragnarsdóttir ljósmóðir svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Hild­ur Sól­veig Ragn­ars­dótt­ir ljós­móðir svar­ar spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Hér svar­ar hún spurn­ingu frá móður sem rifnaði illa í fæðingu og vill fá að vita hvort það sé hægt að gera hlutina öðruvísi. 

Sælar

Ég átti mitt fyrsta barn fyrir nokkrum árum og gekk allt vel þannig séð nema rembingurinn og fæðingin sjálf. Stelpan mín var fædd fjórum tímum eftir fyrsta verk og er mér sagt að fæðingin hafi tekið mjög stuttan tíma miðað við fyrsta barn. Ég var búin að vera í jóga og æfa jógaöndun og ætlaði mér svo að nota hana í fæðingunni. Allt gerðist svo hratt að ég einhvern vegin missti stjórn og náði ekki að nýta mér það sem ég hafði lært í jóga.

Síðan þegar kom að rembingnum þá einhvern veginn róaðist allt en þá vildi ljósmóðirin að ég myndi halda niðri í mér andanum og rembast svo alla vega þrisvar sinnum í hverrri hríð. Ég gerði þetta í gegnum allt rembinstímabilið en leið einhvern veginn ekki vel. Mér fannst ég ekki vera að hlusta á líkamann og fylgja önduninni. Ég endaði svo á því að rifna það illa að ég þurfti að fara inn á skurðstofu í saumaskap. Mín spurning er þarf maður að rembast svona? Liggja á bakinu og rembast eins og vélmenni til að koma barninu í heiminn? Og rifnar maður ekki meira ef maður rembist svona? Mig langar svo að gera þetta einhvern veginn örðuvísi núna.

Kveðja,

Jóna

Íslensk kona leitar svara eftir að hafa rifnað illa í …
Íslensk kona leitar svara eftir að hafa rifnað illa í fæðingu. Craig Pattenaude/Unsplash

Sæl Jóna. 

Til hamingju með það að vera þunguð aftur. Það sem þú ert að lýsa í þinni fæðingu eða rembingstímabilinu er kallað stýrður rembingur. Honum er gjarnan beitt ef konan finnur enga rembingþörf sem er oftast aukaverkun mænudeyfingar. Deyfingin tekur þá þessa þörf og konan á oft erfitt með að átta sig á því hvernig best er að rembast til að koma barninu í heiminn og þá þarf oft að aðstoða konuna að rembast. Það getur verið erfitt að meta af hverju þetta var svona í þinni fæðingu, hvort þú varst með deyfingu eða hvort það var eitthvað annað sem kallaði á að þessari aðferð var beitt. 

Þegar kona er í fæðingu og er ekki með mænudeyfingu finnur hún yfirleitt vel fyrir rembingstilfinningunni. Sem ljósmóðir getur maður oftast séð hvernær kona er búin með útvíkkun. Líkami hennar byrjar að rembast ósjálfrátt. Þannig á það líka að vera í „deyfingarlausum“ fæðingum. Konan finnur sjálf hvernig hún á að rembast og á alveg að geta fylgt líkamanum og tilfinningunni í líkamanum. Sem ljósmóðir þá er maður ekki að leiðbeina eða biðja konu um að rembast svona eða hinsegin ef allt er að ganga vel og hún finnur hvernig hún er að rembast. Það getur þó komið fyrir í einstaka tilfellum að rembingurinn er ekki að ganga eða að barninu líður ekki næginlega vel og þá getur þurft að stíga inn og hvetja eða leiðbeina konunni til að koma barninu í heiminn sem fyrst. Að liggja á bakinu í fæðingu og rembast er alls ekki nauðsynlegt. Best er að konan sé í þeirri stellingu sem henni líður best í. Á hlið, fjórum fótum, standandi, í baði og svo framvegis. Til eru ákeðnar aðferðir til að reyna að koma í veg fyrir að það rifni illa. Það felur í sér að nota heita klúta á spöngina og passa það að kollurinn komi ekki allt of hratt. Þessari aðferð er hægt að beita í hvaða stellingu sem er, kannski erfiðast þegar konan er uppistandandi. Vonandi hjálpar þetta eiithvað.

Kveðja,

Hildur Sólveig 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent ljósmæðrunum spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert