Brúðkaup og jákvætt þungunarpróf sömu helgi

Stóri bróðirinn Arnar Máni er ánægður með systur sínar rétt …
Stóri bróðirinn Arnar Máni er ánægður með systur sínar rétt eins og foreldrarnir Sara og Jón. Ljósmynd/Eygló Lilja

Sara Hlín Hilmarsdóttir á tvíbura dæturnar Karitas Móeyju og Rebekku Míu með eiginmanni sínum Jóni Inga Benteinssyni. Sara eignaðist sitt fyrsta barn 22 ára. Hún segir að tvíburameðgangan hafi verið auðveldari en þegar hún gekk með frumburðinn Arnar Mána Arason.

„Þegar ég gekk með Arnar Mána var ég bara 22 ára krakki og vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Einnig var ég ekki í góðu sambandi og varð mjög þunglynd á meðgöngunni og fannst í raun ömurlegt að vera ólétt. Í þetta sinn var ég tíu árum eldri og vitrari og á svo góðum stað í lífinu og naut mín í botn að vera ólétt. Að öðru leyti er helsti munurinn að maður er í mun þéttara eftirliti enda er tvíburameðganga talin áhættumeðganga. Í kringum 30. viku töldu læknarnir að stelpurnar væru verulega vaxtarskertar, sérstaklega tvíburi A (Karitas), og var ég þá sett í enn þéttara eftirlit. Svo ég fékk ótrúlega góða þjónustu alla meðgönguna og fannst gott að hafa svona mikið utanumhald, sem maður hafði ekki á fyrri meðgöngu.“

Gat ekki hugsað sér að missa einu sinni enn

Þegar Sara varð ólétt að frumburðinum Arnari Mána hætti hún á pillunni og sonurinn kom undir í næsta hring og allt gekk vel. Hún bjóst ekki endilega við öðru en annað kom á daginn.

„Frá því að ég hætti á pillunni og þangað til ég verð ólétt að stelpunum þá leið tæpt ár. En ég missti tvisvar áður en ég verð ólétt að stelpunum. Það tók mikið á sálina og ferlið var sérstaklega erfitt því ég var greind með endómetríósu og það eina sem hélt niðri einkennunum hjá mér var að vera á pillunni. Svo í tæpt ár var ég kvalin af endóverkjum nánast daglega og þurfti nokkrum sinnum að leita á bráðamóttökuna í verkjastillingu.

Ég var sem betur fer hjá ofboðslega góðum kvensjúkdómalækni sem studdi okkur í einu og öllu í þessu ferli og vildi allt fyrir okkur gera. Undir það síðasta var ég samt alveg við það að gefast upp, enda langþreytt á því að vera endalaust verkjuð og gat ekki hugsað mér að missa enn einu sinni. Í apríl 2022 ætluðum við að gifta okkur svo við ákváðum að fókusa frekar á það heldur en að reyna að verða ólétt. Við giftum okkur á föstudegi og þegar við komum heim á sunnudegi þá ákveð ég að taka próf og það er jákvætt! Ég hef strax samband við kvensjúkdómalækninn minn til að komast í blóðprufu og staðfesta þungunina. Blóðprufurnar komu vel út, gildin héldu áfram að hækka og allt leit út fyrir að vera að ganga upp. Ég þorði samt ekki að taka neina sénsa á því að missa aftur svo ég óskaði eftir því að vera sett á stera og prógesterónstíla en ég hafði heyrt að það gæti hjálpað til við að halda. Einnig tók ég hjartamagnyl og fólínsýru og ég vil meina að allt þetta hafi gert það að verkum að ég náði loksins að halda þunguninni.“

Tvíburasysturnar Karitas Móey og Rebekka Mía eru krútt
Tvíburasysturnar Karitas Móey og Rebekka Mía eru krútt Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið ykkur þegar kom í ljós að þið ættuð ekki bara von á einu barni heldur tveimur?

„Þegar ég var að reyna að verða ólétt þá hafði læknirinn minn sett mig á lyf sem heitir Letrozole sem hjálpar til við að framkalla egglos. Hann varaði mig við að það gæti ýtt undir möguleikann á fjölburum en ég í raun pældi ekkert í því. Við mætum svo í snemmsónar og þá sjást tveir sekkir. Það eina sem við gátum sagt þegar við komum út bíl eftir sónarinn var fokk. Það var vissulega sjokk en við vöndumst fljótt tilhugsuninni og sjokkið breyttist í spennu.“ 

Leið ótrúlega vel í fæðingunni

Sara var sett af stað á 35. viku vegna þess að tvíburarnir voru taldir verulega vaxtarskertir.

„Ég mætti upp á Landspítala um morguninn 7. desember en ég mátti ekki eiga annars staðar en þar þar sem ég var í áhættumeðgöngu. Lítið gerðist þann daginn, næsta morgun var belgurinn hjá tvíbura A sprengdur og þá fór allt á fullt. Ég lendi í blóðþrýstingsfalli eftir það og það var í eina skipti í fæðingunni sem mér leið illa. Læknarnir fóru þá strax á fullt í að dæla í mig vökva og fleira og fljótlega leið mér mun betur. Það er mælt með því að konur fái mænudeyfingu í tvíburafæðingu svo ég var mjög vel verkjastillt allan tímann. Ég náði líka að anda mig vel í gegnum verkina og Jón var mín stoð og stytta á kantinum. Mér leið ótrúlega vel, fannst ég vera 100% við stjórn allan tímann og fannst allt ferlið í raun bara ótrúlega valdeflandi.

Karitas fæðist síðan rétt fyrir klukkan níu um kvöld 8. desember. Strax í kjölfarið fæ ég tvo fæðingarlækna upp í rúm til mín sem halda við kúluna til að reyna að koma í veg fyrir að tvíburi B myndi snúa sér, en það vill oft gerast í kjölfarið á fæðingu A þegar B er kominn með meira pláss. En allt kom fyrir ekki, tvíburi B snýr sér í sitjandi stöðu og ekkert gekk að snúa honum. Ég fæði því Rebekku í sitjandi stöðu fimm mínútur yfir níu. Þar sem þær voru svo smáar þá áttu þær erfitt með að halda blóðsykrinum uppi og skiptust því á að eyða tíma uppi á vökudeild. En þær voru ótrúlega sterkar og voru fljótar að braggast og við fengum því að fara heim eftir að hafa aðeins verið þrjá daga uppi á deild.“

Systurnar glænýjar.
Systurnar glænýjar. Ljósmynd/Aðsend

Eru eins tvíeggja og þær gerast

Hvað er skemmtilegast við að eiga tvíbura?

„Það er svo yndislegt að sjá þeirra samband myndast og styrkjast. Það eru þvílík forréttindi fyrir tvíbura að eiga ávallt leikfélaga og vin í gegnum lífið. Það er líka aldrei dauð stund á okkar heimili og ég elska það.“

En hver er helsta áskorunin?

„Maður er alltaf með samviskubit yfir því að maður sé ekki að sinna öllum börnunum nóg, að hvert og eitt fái ekki jafn mikinn gæðatíma með manni. Það er líka ótrúlega erfitt ef þær eru báðar grátandi, til dæmis þegar þær eru veikar, og maður nær ekki að hugga báðar í einu. Sem betur hafa þær verið ótrúlega þægileg ungbörn og gráta ekki mikið.“

Sjái þið mun á dætrunum?

„Við segjum oft að þær séu eins tvíeggja og þær gerast, að þær gætu í besta falli verið fjarskyldar frænkur. Karitas er mun dramatískari og háværari. Hún er sátt svo lengi sem hún hefur alla manns athygli, alltaf, sem er svolítið erfitt þegar maður er tvíburi. Rebekka er hins vegar mun yfirvegaðri og rólegri. Hún getur dundað sér endalaust og oft veit maður ekki af henni. Hún ber samt nafn með rentu og getur verið algjör Mía litla með skemmtilegum prakkaraskap.“

Hjónin Sara Hlín Hilmarsdóttir og Jóni Ingi Benteinsson þurftu að …
Hjónin Sara Hlín Hilmarsdóttir og Jóni Ingi Benteinsson þurftu að hafa fyrir því að eignast þær Karitas Móeyju og Rebekku Míu. Ljósmynd/Eygló Lilja

Hefur kjark til að standa með sjálfri sér

Hvernig gengur að sinna stóra bróður og tveimur litlum börnum?

„Það hjálpar vissulega að hann sé orðinn tíu ára og sýnir því aðstæðum betur skilning. Hann er ótrúlega góður með þær og duglegur að hjálpa til, enda sjá þær ekki sólina fyrir bróður sínum. En við reynum að gera eitthvað með honum á meðan þær taka lúr og einnig á kvöldin þegar þær eru sofnaðar fyrir nóttina. Síðan sit ég alltaf inni hjá honum þegar hann fer að sofa og þá eigum við góða stund bara við tvö að spjalla um daginn og veginn fyrir svefninn. Það er svona okkar kósístund. Svo reynum við Jón að fara öðru hverju eitthvað saman bara með hann og fá þá pössun fyrir stelpurnar. Þá förum við í bíó, keilu eða eitthvað annað skemmtilegt svo hann fái að eiga tíma bara með okkur.“

Hefur þú þroskast sem foreldri síðan þú eignaðist þitt fyrsta barn?

„Það er alveg tvennt ólíkt að eiga barn 22 ára og 32 ára. Fyrir utan það að maður auðvitað veit meira hverju maður á að búast við í seinna skiptið og er því betur undirbúinn að þá hefur maður líka bara meira bein í nefinu og er óhræddari við að segja sína skoðun, sérstaklega við lækna og ljósmæður. Ég var til dæmis harðákveðin að gefa ekki brjóst í þetta sinn og var óhrædd við að tjá öllum það og láta skrá það í mæðraskrána mína. Ég mjólkaði aldrei almennilega með strákinn og vesenaðist með brjóstagjöfina í sex mánuði áður en ég gafst upp. Ef ég hefði þorað að standa upp fyrir sjálfri mér hefði ég hætt þessu miklu fyrr.
Maður hefur líka meiri þolinmæði eftir því sem maður verður eldri og gildin manns breytast. Maður kann mun betur að meta gæðastundirnar með fjölskyldunni og alla þessa litlu hluti sem gefa lífinu lit,“ segir Sara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka