Veist þú hverjir gæddu Stubbana lífi?

Stubbarnir í Stubbalandi.
Stubbarnir í Stubbalandi. Skjáskot/IMDb

Sjónvarpsþáttaröðin Stubbarnir vakti mikla kátínu meðal yngstu kynslóðarinnar þegar hún var frumsýnd á bresku sjónvarpsrásinni BBC2 hinn 31. mars árið 1997. 

Stubbarnir eða Teletubbies eins og þeir heita á frummálinu urðu heimsfrægir á einni nóttu og voru börn heilluð af þessum litríku klumpslegu kjánum sem dönsuðu undir sólinni í Stubbalandi. Alls voru gerðir 365 þættir, en upprunalega þáttaröðin var sýnd á árunum 1997-2001 og í yfir 120 löndum, þar á meðal Íslandi. 

Flestir Íslendingar þekkja Stubbana, Tinky Winky, Dipsy, Laa-Laa og Po en fæstir vita hverjir leyndust á bak við búningana og gæddu þá lífi. 

Tinky Winky - fjólublái stubburinn

Tinky Winky var í byrjun leikinn af einum Dave Thompson en sá var rekinn eftir aðeins nokkra þætti þar sem hann var sagður hafa mistúlkað hlutverkið. Hann hefur ekki leikið gífurlega mikið síðan frá dögum Stubbanna en Thompson hefur átt farsælan feril sem uppistandari á Bretlandseyjum. 

Kennimerki Tinky Winky var rauða handtaskan.
Kennimerki Tinky Winky var rauða handtaskan. Samsett mynd

Í hans stað kom Simon Shelton, balletdansari og danshöfundur, sem túlkaði Tinky Winky þar til þáttunum lauk árið 2001. Shelton lést aðeins 52 ára að aldri hinn 17. janúar 2018, aðeins fjórum dögum eftir afmælið sitt. Dansarinn hafði glímt við alkóhólisma í mörg ár. 

Balletdansarinn Simon Shelton féll frá árið 2018.
Balletdansarinn Simon Shelton féll frá árið 2018. Samsett mynd

Dipsy - græni stubburinn

Dipsy var leikinn af hinum bresk-jamaíska John Simmit, en hann er ágætlega þekktur uppistandari í Bretlandseyjum. Lítið annað er vitað um Simmit en samkvæmt IMDb þá hefur hann leikið nokkur ónafngreind hlutverk í kvikmyndum á síðastliðnum árum. 

Uppistandarinn John Simmit lék Dipsy.
Uppistandarinn John Simmit lék Dipsy. Samsett mynd

Laa-Laa - guli stubburinn

Leikkonan Nikki Smedley fór með hlutverk Laa-Laa en hún hefur á undanförnum árum gert það gott í Los Angeles í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum sem leikkona og framleiðandi. Smedley fór meðal annars með aukahlutverk í kvikmyndunum Alex Cross, The Guilt Trip, White House Down og Brooklyn. 

Á síðasta ári gaf leikkonan út bókina, Over the Hills and Far Away, þar sem hún fjallar á opinskáan hátt um lífið á setti Stubbanna. Smedley tileinkaði bókina meðleikara sínum heitnum, Simon Shelton. 

Nikki Smedley sagði frá upplifun sinni sem Laa-Laa í bókinni …
Nikki Smedley sagði frá upplifun sinni sem Laa-Laa í bókinni Over the Hills and Far Away. Samsett mynd

Po - rauði stubburinn

Pui Fan Lee lék stubbinn Po, en hún lét sig hverfa úr sviðsljósi fjölmiðla stuttu eftir að tökum lauk. Samkvæmt IMDb þá hefur hún tekið að sér aukahlutverk í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum, eins og The Nevers, Landscapers, EastEnders og Slow Horses. 

Po var yngsti stubburinn.
Po var yngsti stubburinn. Samsett mynd

Stubbarnir voru endurgerðir árið 2015 með nýjum leikurum en sú sería náði aldrei sömu vinsældum og hin upprunalega. Þættirnir voru í framleiðslu til ársins 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert