Forsjárdeilan kostaði gjaldþrot

Rutherford hefur farið í gegnum erfiða tíma.
Rutherford hefur farið í gegnum erfiða tíma. Skjáskot/Instagram

Það eru um fimmtán ár síðan bandaríska leikkonan Kelly Rutherford hóf langa og kostnaðarsama forsjárdeilu við fyrrverandi eiginmann sinn, þýska fjármálamanninn Daniel Giersch. Hún segir þetta tímabil hafa verið krefjandi en hún reyni að einbeita sér að því góða í lífinu.

Í viðtali við bandaríska miðilinn People rifjar Rutherford upp þennan erfiða tíma í lífi sínu. Rutherford er þekktust fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttaröðinni Gossip Girl.

275 milljónir í lögfræðikostnað

Þegar hjónin skildu áttu þau tveggja ára gamlan son en Rutherford var einnig ólétt af þeirra öðru barni.

Dómari veitti Rut­her­ford og Giersch sameiginlega forsjá. Hins vegar hafði vegabréfsáritun Giersch verið afturkölluð og gat hann því ekki snúið aftur til Bandaríkjanna. Því ákvað dómari að börnin skyldu búa hjá föður sínum í Mónakó. Rutherford þurfti því annaðhvort að flytja til Mónakó eða ferðast þangað til að sjá börnin sín.

Rutherford varði öllum sínum tíma og fjármunum í að reyna að fá fulla forsjá yfir börnunum. Eitt sumarið dvöldu börn hennar í sex vikur hjá henni. Að heimsóknartímanum loknum ákvað hún að senda þau ekki aftur til Mónakó og var hún því sökuð um mannrán. Rutherford eyddi rúmum 275 milljónum í lögfræðikostnað og varð hún gjaldþrota.

Ekki bitur

„Þetta var krefjandi tími,“ segir Rut­her­ford en bætir við að hún einbeiti sér að því góða í lífinu og að hún hafi aldrei verið alveg viðskila við börnin sín. Rut­her­ford á hús í Mónakó og ver tíma sínum þar þegar hún er ekki að ferðast.

Eftir að hafa horfið úr sviðsljósinu er Rutherford nú að snúa aftur. Hún segir börn sín hafa hvatt sig til þess. Spurð hvort hún sé bitur segir Rutherford svo ekki vera.

„Ég trúi að maður verði að halda í ástina,“ segir hún og bætir við að börnum hennar gangi vel og hún sé þakklát fyrir það. Hún dragi einnig lærdóm af því sem gerðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert