„Þú verður einhvern veginn aldrei eins eftir þetta“

Guðrún Sørtveit og Ástrós Traustadóttir eru byrjaðar með hlaðvarpþætti sem …
Guðrún Sørtveit og Ástrós Traustadóttir eru byrjaðar með hlaðvarpþætti sem þær kalla Mömmulífið.

Vinkonurnar Ástrós Traustadóttir og Guðrún Sørtveit þreyttu nýverið frumraun sína sem hlaðvarpsstjórnendur þegar þær gáfu út fyrsta þáttinn af nýju hlaðvarpi, Mömmulífinu, sem flaug beint í fyrsta sæti á íslenska hlaðvarpslistanum hjá Apple. 

Ástrós og Guðrún eiga ýmislegt sameiginlegt, þær eru mæður og starfa báðar við efnissköpun fyrir samfélagsmiðla. Í hlaðvarpinu spjalla þær um allt milli himins og jarðar sem tengist móðurhlutverkinu, segja frá eigin reynslu og tilfinningum ásamt því að fá til sín viðmælendur.

Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt segjast vinkonurnar vera ólíkar á marga vegu og með ólíkar skoðanir sem geri þær að góðu teymi til að miðla hinum ýmsu hliðum mömmulífsins til hlustenda sinna. „Við erum líka ólíkar og viljum enga eitraða mömmuorku. Við erum meira að tala um það að mömmur eru alls konar og viljum að mömmum líði vel,“ útskýrir Guðrún.

Ástrós og Guðrún eru báðar mæður, Ástrós á dóttur sem …
Ástrós og Guðrún eru báðar mæður, Ástrós á dóttur sem er eins árs og Guðrún á tvö börn, dóttur sem er fjögurra ára og eins árs son.

„Heyrðu, ég skal bara gera þetta með þér!“

Ástrós og Guðrún höfðu verið að fylgja hvor annarri í dágóðan tíma á Instagram þegar þær kynntust í sólarhrings vinnuferð í Danmörku á vegum Gosh sumarið 2023. „Við fórum til útlanda saman og það er svona þegar maður lokast inni í flugvél, þá kynnist maður fólki vel,“ segir Ástrós. „Við vorum báðar að fara í fyrsta skipti frá börnunum okkar í einhvern tíma þannig að við gátum spjallað mikið saman um mömmulífið,“ bætir Guðrún við.

Vinkonurnar segja hugmyndina að hlaðvarpinu hafa kviknað á leiðinni heim af öðrum viðburði sem þær sóttu saman. „Ég hafði pælt í því í dágóðan tíma að prófa nýjan miðil og eitthvað nýtt. Svo fórum við á viðburð saman aftur og vorum að keyra heim og vorum búnar að tala og tala um alls konar hugmyndir og ég var að segja Ástrós frá þessu, að mig langaði að gera hlaðvarp, og hún svarar bara: „Heyrðu, ég skal bara gera þetta með þér!““ útskýrir Guðrún.

„Við ákváðum að taka fund og sjá hvort það kæmi eitthvað til okkar og við vorum örugglega í svona fimm klukkutíma á þessum fundi að tala um umræðuefni sem okkur fannst svolítið vanta inn á markaðinn í svona mömmuhlaðvörpum, en við hugsum hlaðvarpið okkar meira út frá því að við séum bara vinkonur að tala um okkar tilfinningar á léttu nótunum,“ segir Ástrós.

Leikskólamálin „mjög brengluð“

Vinkonurnar eru sammála um að lífið hafi gjörbreyst þegar þær urðu mæður. „Það að verða mamma, maður hélt kannski að maður vissi hvað maður væri að fara út í, en það er einhvern veginn ekki hægt að útskýra það. Börn eru ekki beint erfið í sjálfu sér, en það er meira bara erfitt að gera allt annað, eins og fyrstu dagana bara að fara í sturtu og gera hversdagslega hluti,“ segir Guðrún.

„Það breytist ótrúlega mikið þegar maður verður mamma. Lífið hættir að snúast um mann sjálfan. En svo ofan á það er líka kerfið sem hjálpar manni ekki neitt. Maður fær samviskubit af því maður nær kannski ekki alltaf að vera með barnið sitt, en maður á ekki að vera með það því barnið á bara að vera á leikskóla. Þannig að það er líka bara ýmislegt þannig sem mér finnst mjög brenglað og bara ótrúlega leiðinlegt, sérstaklega fyrir konur sem eru að vinna og þurfa að reyna að láta þetta ganga og það eru alls konar tilfinningar sem fylgja því,“ segir Ástrós.

Guðrún tekur undir umræðu Ástrósar um leikskólamálin, en sjálf er hún með 16 mánaða barn sem er ekki enn komið með leikskólapláss og segir að því fylgi mikil óvissa. „Þetta er auðvitað búið að vera mikið í umræðunni og manni líður eins og maður sé biluð plata, en það er svo ótrúlegt að átta sig á stöðunni eftir að maður verður mamma og þá hugsar maður bara: Ha! Af hverju er þetta svona? Af hverju er enginn að laga þessi mál? Ég veit til dæmis ekkert hvenær strákurinn minn mun komast að á leikskóla, en svo áttu bara að vera að vinna og gera og græja en samt líka 100% mamma. Það getur stundum verið erfitt að finna jafnvægi þarna,“ segir hún.

Vinkonurnar viðurkenna að það geti stundum verið erfitt að finna …
Vinkonurnar viðurkenna að það geti stundum verið erfitt að finna jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífsins.

„Það kom mér eiginlega allt á óvart“

Spurðar hvað hafi komið á óvart við móðurhlutverkið nefna Ástrós og Guðrún báðar hve erfitt það getur verið en líka hve mikla ást þær hafa upplifað. „Þetta er ótrúlega mikið og tekur á svo margt í einu. Til dæmis bara sambandið, maður er búinn að vera bara tvö að pæla í sjálfum sér og svo allt í einu farið þið í þetta verkefni og allir ósofnir og á haus, en á sama tíma með þessa ótrúlega miklu ást og ótrúlega mikinn kvíða. Það breytist svo mikið og þú verður einhvern veginn aldrei eins eftir þetta,“ segir Ástrós.

Í þáttunum verður meðal annars komið inn á hvernig barneignir hafa áhrif á sambönd, en aðspurðar segja Ástrós og Guðrún best að lýsa því sem hálfgerðum tilfinningarússíbana. „Ef þú ert með réttu manneskjunni sem þig langar að vera með þá finnið þið út úr þessu. En það koma alls konar nýjar tilfinningar og aðstæður þar sem maki manns getur farið í taugarnar á manni en getur samt ekkert gert í því. Þegar maður er svona bugaður og þreyttur þá er maður líka bara ekki maður sjálfur og ég held að þetta sé eitthvað sem allir ganga í gegnum,“ segir Ástrós.

„Það getur líka komið eitthvað nýtt sem fór aldrei í taugarnar á þér og þú pældir aldrei í, en svo er maður bara þreyttur og bugaður eftir daginn og þá getur komið upp alls konar pirringur. En á sama tíma elskar maður makann sinn líka miklu meira. Það að sjá maka sinn verða pabba og sjá hann með börnunum manns er ólýsanlegt. Það eru miklar tilfinningar í gangi,“ segir Guðrún.

Spurðar hvort þeim finnist umræðan um móðurhlutverkið hafa breyst síðustu ár svara vinkonurnar játandi. „Ég hef séð mikla breytingu bara frá því ég átti stelpuna mína fyrir fjórum árum. Mér finnst umræðan miklu jákvæðari og eins og mömmur séu komnar með miklu sterkari rödd, sem betur fer. Mér finnst samfélagið líka hlusta meira á mömmur í dag þótt það megi auðvitað alltaf gera betur,“ segir Guðrún.

„Maður vill gera þetta vel og vanda sig“

Vinkonurnar hafa nú þegar sett tvo þætti í loftið og segja viðbrögðin hafa farið fram úr öllum vonum. Þær vilja efla mömmur, hvor aðra og konur almennt með hlaðvarpinu og um leið hafa gaman og hlæja, en þær segjast gera mikið grín að sjálfum sér í þáttunum. „Hlaðvarpið heitir Mömmulífið en okkur langar líka að þetta sé fyrir vinkonur til að hlusta á. Markmiðið er að hafa þetta fjölbreytt en samt talað út frá tilfinningum sem tengjast því að vera mamma. Við munum vera með ákveðið umræðuefni fyrir hvern þátt en líka fá til okkur nokkra viðmælendur,“ segir Ástrós.

„Þetta hljómar kannski betur á ensku, þá er þetta bara „Our mom life“ en það er svona hugtak sem maður notar oft þegar maður er á haus að græja allt og gera en líka með þetta nýja hlutverk að vera mamma. Það eru mörg flott hlaðvörp um meðgöngu og fæðingar og allt því tengt sem er æðislegt, en það eru mörg umræðuefni sem okkur fannst svolítið vanta og því langaði okkur meira að einblína á hvað gerist eftir það,“ segir Guðrún.

Í hlaðvarpinu ætla vinkonurnar að einblína á umræðuefni sem tengjast …
Í hlaðvarpinu ætla vinkonurnar að einblína á umræðuefni sem tengjast móðurhlutverkinu eftir fæðingu.

Guðrún viðurkennir að hún hafi upplifað þó nokkurt stress fyrir upptökurnar sem hafi þó gengið afar vel. „Mér finnst mjög gaman að taka upp og tala en fyrir fyrsta þáttinn leið mér eins og ég væri að fara með fyrirlestur. Við erum báðar þannig að við hugsum mikið í smáatriðum og viljum gera þetta alveg 110% og það hefur farið mikil vinna í þetta. Maður vill gera þetta vel og vanda sig en líka vera maður sjálfur, svo það var alveg mjög stressandi að fá míkrófóninn fyrir framan sig í fyrsta þættinum,“ segir Guðrún.

„Ég var ekkert brjálæðislega stressuð. Ég var meira bara „we got this“, en þótt fyrsti þátturinn hafi gengið vel þá gekk allt enn betur þegar við tókum annan þáttinn upp. Þá föttuðum við hvernig við vildum hafa þetta og allt rúllaði vel,“ segir Ástrós.

Það hefur farið heilmikil vinna í þættina á bak við …
Það hefur farið heilmikil vinna í þættina á bak við tjöldin, en vinkonurnar hafa þegar gefið út tvo þætti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert