Þakklátur fyrir að hafa ekki eignast börn

Alan Cumming er hamingjusamur í dag.
Alan Cumming er hamingjusamur í dag. AFP

Breski leikarinn Alan Cumming var giftur konu áður en hann kom út úr skápnum. Hann segist hafa gift sig til þess að upplifa öryggiskennd og sanna fyrir fráskildum foreldrum sínum að hann gæti átt farsælt hjónaband.

„Þetta er ekki eitthvað sem ég mæli með að gera. Ég var 21 árs þegar ég gifti mig í fyrsta sinn. Ég vissi að ég var tvíkynhneigður og konan mín vissi það líka,“ segir Cumming í viðtali við People.

Áður en þau skildu árið 1993 reyndu þau að eignast barn. 

„Ég á vini sem þurfa að kljást við skilnað og það að eiga börn saman. Ég held að það sé mjög erfitt og krefjandi. Ég held að það sé blessun að við eignuðumst ekki börn. Líf mitt tók aðra stefnu og það hefði verið erfitt að eiga barn. Ég hefði þá ekki flutt til Bandaríkjanna. Það er ástæða fyrir öllu sem gerist.“

„Ég ákvað að tala um kynhneigð mína því það voru svo margar getgátur á sveimi. Það var engin leið að ræða málin án þess að koma með stóra tilkynningu í fjölmiðlum og koma opinberlega út úr skápnum. Ég þurfti að finna fjölmiðil sem vildi ræða þetta á mínum forsendum og forðast að gera mat úr þessu. Þetta er kosturinn við samfélagsmiðla, maður getur stýrt þeim skilaboðum sem maður vill senda út í alheiminn. Það var ekki hægt hér áður fyrr.“

Cumming átti í samböndum við bæði konur og karla áður en hann fann ástina.

„Ég átti í mörgum slæmum samböndum og ég var reiðubúinn að fara í gott samband. Ákveðnir hlutir gerðust í lífinu sem fengu mig til þess að skilja sjálfan mig betur. Þegar ég hitti Grant vorum við að nálgast fertugt. Ég hafði farið í sálfræðimeðferð og var tilbúinn til að lifa í heiðarleika og gat gefið af mér.“

„Þegar maður er kominn á þennan aldur og hefur verið í mörgum ólíkum samböndum. Þá held ég að ef maður er hamingjusamur í núinu þá er allt það sem gerðist áður hluti af þeirri hamingju. Maður getur ekki óskað eftir að hlutir hefðu farið öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert