Sér eftir því að hafa ekki eignast fleiri börn

Martha Stewart á eitt barn.
Martha Stewart á eitt barn. AFP/Angela Weiss

Martha Stewart, eldhúsdrottning og Íslandsvinkona, er orðin 82 ára gömul og stolt af ýmsu sem hún hefur áorkað í lífinu. Þegar hún lítur til baka hefði hún þó viljað eignast fleiri börn. 

„Kannski sé ég eftir því að hafa ekki eignast fleiri börn. Kannski sé ég eftir því hvernig hjónabandinu lauk skyndilega. Við vorum búin að vera saman í 27 ár,“ sagði Stewart í viðtali við The New York Times á dögunum. 

Stewart og fyrrverandi eiginmaður hennar eignuðust dótturina Alexis árið 1965. Dóttir hennar á tvö börn og á því Stewart tvö barnabörn. 

Stewart er stolt af því að hafa tekið áhættu og hætt að starfa í fjármálageiranum. Hún stofnaði veisluþjónustu og var mikið að gera og kom það niður á einkalífinu. Hún skildi meðal annars við eiginmann sinn Andrew Stewart en þau gengu í hjónaband þegar hún var 19 ára. 

Martha Stewart gifti sig ekki aftur. „Kannski hefði ég viljað gifta mig aftur. Ég gerði það ekki, en mér er sama,“ sagði Stewart. „En samt, ég er forvitin um hvernig það hefði verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert